0
Karfan þín

Umboðsmaður barna svarar Rótinni

Rótin sendi umboðsmanni barna nýverið erindi um aðbúnað barna á Sjúkrahúsinu Vogi og barst okkur svar hinn 24. október. Við höfum þegið boð umboðsmannsins um að koma í heimsókn til embættisins.

UB:1410/8.5.2

Efni: Aðbúnaður barna á unglingadeildinni á Vogi

Komdu sæl Kristín

Í erindi þínu til umboðsmanns barna, dags. 10. október sl., segir þú frá því að félagið Rótin hafi áhyggjur af því að börn séu send í meðferð á Vogi þar sem samgangur er við fullorðna. Þú spyrð hvort það sé álit umboðsmanns barna að aðbúnaður barna á Vogi sé í samræmi við 27. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997.

Umboðsmaður barna hefur á undanförnum árum haft verulegar áhyggjur af málefnum þeirra barna sem glíma við vímuefnavanda. Hann hefur því reynt að kynna sér þau úrræði sem eru í boði fyrir þessi börn og hefur meðal annars heimsótt unglingadeildina á Vogi. Í þeirri heimsókn kom meðal annars fram að unglingadeildin er einungis ætluð fyrir börn og ungmenni sem eru 19 ára og yngri og að sjúklingar af öðrum meðferðargöngum  megi ekki fara inn á deildina.

Umboðsmaður barna hefur ekki haft ástæðu til að hafa áhyggjur af aðbúnaði barna á unglingadeildinni á Vogi Þó er rétt að taka fram að við höfum ekki sérþekkingu til þess að meta það faglega starf sem þar fer fram. Ef Rótin hefur ástæðu til að ætla að öryggi og velferð barna sé stefnt í hættu er brýnt að láta barnaverndina vita. Þá má benda á að Embætti landlæknis hefur eftirlit með að heilbrigðisþjónusta uppfylli faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu og ákvæði heilbrigðislöggjafar, sbr. 25. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Einnig má benda á heilbrigðisráðherra, en hann fer með yfirstjórn málaflokksins.

Þegar barn á við vímuefnavanda að stríða þarf að meta það í hverju tilviki fyrir sig hvaða meðferðarúrræði hentar því best, meðal annars út frá aðstæðum, hagsmunum barns og vilja þess sjálfs. Skilyrði þess að barn fari á unglingadeildina á Vogi er að það samþykki sjálft meðferðina. Börn eru því ekki send í meðferð á Vogi gegn vilja sínum. Hins vegar geta foreldrar barna samþykkt meðferðarúrræði á vegum barnaverndaryfirvalda, svo sem MST fjölkerfameðferð, án samþykkis barns. Frá 15 ára aldri þurfa börn þó almennt sjálf að samþykkja vistun á meðferðarheimilum. Barnaverndarnefndir geta þó úrskurðað um að börn á aldrinum 15 til 18 ára skuli fara í meðferð á Stuðla eða önnur meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu gegn vilja sínum, ef brýnir hagsmunir þeirra mæla með því.

Þau úrræði sem nú eru í boði fyrir börn virðast því miður ekki í stakk búin til þess að taka við þeim börnum sem eru með alvarlegan hegðunar- og vímuefnavanda og vilja ekki leita sér aðstoðar. Sömuleiðis skortir úrræði fyrir börn sem eru í neyslu og glíma við geðrænan vanda. Umboðsmaður barna hefur margoft bent á nauðsyn þess að koma á fót nýju meðferðarúrræði, þar sem aðstæður og verklag taka mið af þörfum barna og til staðar er fagfólk með sérþekkingu á málefnum þeirra. Má til dæmis benda á frétt á heimasíðu embættisins frá 9. september 2013 og þau gögn sem vísað er til neðst í henni. Umboðsmaður barna mun halda áfram að krefjast þess að stjórnvöld bregðist við þessu úrræðaleysi og tryggi hverju og einu barni meðferð við hæfi.

Að lokum má benda á að umboðsmaður barna var nýlega með sérfræðihóp barna sem eiga það sameiginlegt að eiga foreldra sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda, en það verkefni var unnið í samvinnu við SÁÁ (sjá nánar hér). Umboðsmaður stefnir á að halda þessari vinnu áfram og ræða við börn sem eru í meðferð á unglingadeildinni á Vogi.

Endilega hafðu samband í síma 552-8999 ef þú vilt ræða málið nánar. Rótinni er einnig velkomið að eiga fund með umboðsmanni barna til þess að ræða þessi mál nánar.

Kær kveðja,

Margrét María Sigurðardóttir,

umboðsmaður barna

Skrifstofa umboðsmanns barna
Kringlunni 1, 5. hæð
103 Reykjavík, Ísland
Sími: 552 8999
Gjaldfrjálst númer: 800 5999
Heimasíða: www.barn.is
Netfang:ub@barn.is

DEILA: