Jóhann Ág. Sigurðsson er gestur Rótarinnar á næsta umræðukvöldi hinn 10. nóvember. Við vekjum athygli á því að umræðukvöldið er á mánudegi en ekki á miðvikudegi eins og hingað til.
Fyrirlestur hans nefnist:
Hver er ÞINNAR gæfu smiður? – Rætur vandans skoðaðar frá félagslegum, siðferðislegum og læknisfræðilegum sjónarhóli
Fyrri hluti fyrirsagnar þessa erindis er tekinn úr pistli sem Jóhann birti í Fréttablaðinu árið 2011. Þar segir m.a. „Málshátturinn „Hver er sinnar gæfu smiður“ er barn síns tíma. Hann nær of skammt miðað við núverandi þekkingu á helstu ákvörðunarþáttum heilbrigðis. Nær hefði verið að breyta þessum málshætti í spurningu svo sem „Hver er þinnar gæfu smiður?“ Viðfangsefnið verður þá sem fyrr að skoða ábyrgð og þátt einstaklingsins í því að móta lífshlaup sitt, en jafnframt að spyrja þeirrar spurningar hvaða þættir það séu í umhverfi og samskiptum sem ráði miklu um heilsufar viðkomandi einstaklings“
Hér varpar hann fram áleitnum spurningum um hverjar séu í raun rætur helstu heilsufarsvadamála fólks. Í erindinu reynir hann að draga fram styrkleika og veikleika í heilbrigðiskerfinu á þessu sviði. Bent er á að þrátt fyrir gríðarlegar framfarir og ávinninga á fjölmörgum sviðum hefur þróun læknisfræðinnar einnig einkennst af ofþenslu á mörgum sviðum, örri smættarhyggju (ens. reductionistic approach ), „síló“ læknisfræði, línulegri hugsun, sjúkdómsvæðingu, of mikilli lyfjanotkun og menningarlegri oftrú á tæknilausnir. Klíniskar leiðbeiningar í læknisfræði einkennast af mælanlegum breytum, rannsóknum sem hafa flestar verðið fjármagnaðar af lyfjaiðnaðinum og niðurstöður þeirra því að jafnaði þeim í hag. Vandamál í samskiptum fólks, svo sem vanmáttur, niðurlæging, ofbeldi, óöryggi, gjaldþrot eða niðurbrjótandi samskipti svo eitthvað sé nefnt hafa verið minna rannsökuð, enda erfiðara að mæla og fjármagna. Þessi atriði geta þó haft jafnmikil áhrif á heilsu eins og hækkað kólesteról eða offita.
Þá er kynnt til sögunar ný þróun innan lífvísinda sem nefnd er „Systems medicine“ einnig nefnd 4P læknisfræði, enda seld undir þeim merkjum að vera „Personal, Predictive, Participatory and Preventive“. Þessi nýjung miðast við að safna saman miljörðum upplýsinga úr einum blóðdropa á 6 mánaða fresti, auk annarra hefðbundinna mæligilda, svo sem þyngd, púlshraða súrefnisupptöku, röntgensvörum og öðrum mælingum í tölvutæk gögn. Áhættureiknivélar senda síðan upplýsingarnar í „Appið“ þitt í símanum. Er ekki ódýrara og árangursríkara að bjóða upp á nærveru og spyrja hvernig fólk hafi það í stað hátækninálgunar við sömu spurningu?
Enn fremur hefur verið bent á að fyrir fríska einstakliga geti verið varhugavert að spegla sig of mikið í „Appinu“ af sjálfum sér líkt og Narcissus gerði forðum daga.
Um Jóhann
Jóhann er prófessor í heimilislækningum við læknadeild Háskóla Íslands og í Þrándheimi. Hann stundaði sérnám og dokotorsnám í Svíþjóð á árunum 1976-1981. Doktorsrit Jóhanns fjallaði um faraldsfræðilega áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hjá konum í Gautaborg. Jóhann hefur verið heimilislæknir í Hafnarfirði frá 1981 og prófessor frá 1991. Helstu rannsóknarsvið Jóhanns hafa verið um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma, sýklalyfjanotkun og þróun á ónæmum bakteríustofnum, siðfræðileg álitamál varðandi skimanir og annmarka klíniskra leiðbeininga í læknisfræði. Hann hefur birt fjölda vísindaritgerða í faglegum tímaritum og jafnframt verið ötull við að kynna hugmyndir sínar um gagnrýna hugsun í fjölmiðlum. Hugtakið „sjúkdómsvæðing“ sem þýðing á „medicalization“ er af mörgum tengt Jóhanni, enda talinn hafa innleitt það í íslenska tungu.
Hvar og hvenær?
Umræðukvöldið verður haldið hinn 10. nóvember kl. 20 að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, Reykjavík.
Allir, konur og karlar, eru velkomnir á umræðukvöld Rótarinnar!
Boðið er upp á te og kaffi en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.