Rótin – félag um konur, áföll og vímugjafa – var stofnuð 8. mars 2013. Markmið félagsins eru að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Félagið vill að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða, og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samstarfi við önnur félög, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega. Rótin er opin öllum konum með áhuga á málefninu.
Rótin …
- vinnur eftir gagnreyndum kenningum um konur, áföll og vímugjafa
- spyr konur sem til félagsins leita hvað kom fyrir þær en ekki hvað sé að þeim
- er áfallamiðuð og fylgir viðmiðum um öryggi, trúverðugleika og gagnsæi, jafningjastuðning, samvinnu og gagnvirkni, valdeflingu og val
- er á móti skaðlegum áhrifum trúarsafnaða en ekki á móti trú
- kemur fram af virðingu, trúnaði og heiðarleika gagnvart þeim sem til félagsins leita óháð þjóðerni, uppruna, kyni, kynvitund, kyntjáningu, kyneinkennum, aldri, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, fötlun, líkamsgerð, holdafari, andlegri heilsu eða þjóðfélagsstöðu
- þjónar eingöngu konum og vinnur eftir því viðurkennda verklagi í þjónustu við konur með áfallasögu að konur sinni konum
- setur einstaklinga ekki á stall eða gerir þá að átrúnaðargoði sínu
- vinnur að auknu kynjajafnrétti og að auknu jafnrétti til heilbrigðis og félagslegra gæða
Starfsfólk og sjálfboðaliðar Rótarinnar …
- koma fram af virðingu og heiðarleika gagnvart félögum Rótarinnar, öðrum sjálfboðaliðum, starfsfólki og skjólstæðingum og öllum öðrum sem starfað er fyrir, eða með, óháð þjóðerni, uppruna, kyni, kynvitund, kyntjáningu, kyneinkennum, aldri, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, fötlun, líkamsgerð, holdafari, andlegri heilsu eða þjóðfélagsstöðu
- eru meðvituð um ójöfn valdatengsl á milli fólks og hópa og misnota ekki aðstöðu sína.
- virða markmið, leiðarljós og reglur Rótarinnar
- gæta fyllsta trúnaðar við konur sem til þeirra leita
- tilkynna til réttra aðila ef fram koma upplýsingar um að öryggi einhvers sé í hættu
- misnota ekki stöðu sína á neinn hátt, svo sem líkamlega, andlega, kynferðislega eða fjárhagslega í samskiptum við konur sem leita til félagsins
- sinna öllum konum af alúð en halda sig í faglegri fjarlægð, forðast náið samband og hafa aldrei frumkvæði að samskiptum við þær
- stofna aldrei til óviðeigandi sambands við konur sem til þeirra leita
- leitast við að koma í veg fyrir hvers konar ofbeldi, svo sem andlegt, líkamlegt, kynferðislegt eða fjárhagslegt og einelti er aldrei liðið
- hafa í huga að mörk einstaklinga eru mismunandi og virða þau, varast hvers konar snertingar sem gætu leitt til misskilnings eða óþæginda
- huga að ábyrgum rafrænum samskiptum og netnotkun
- nota aldrei trúnaðarupplýsingar sem þau öðlast vegna starfa sinna sér til framdráttar eða í þágu eigin hagsmuna
- gæta hófs og sanngirni í ummælum um hvert annað og taka ekki þátt í slúðri eða dreifa rógi
- fara ávallt vel með fjármuni og önnur verðmæti félagsins sem þeim er trúað fyrir, eða hafa til umráða vegna starfs síns, og hafa hagsmuni félagsins að leiðarljósi við ráðstöfun þeirra
- sækja handleiðslu til þar til bærra fagaðila