0
Karfan þín

Opið bréf til Embættis landlæknis vegna öryggis kvenna í meðferð

26. október 2014

Rótin hefur fengið svar frá Embætti landlæknis vegna kröfu félagsins frá því í apríl 2013 að yfirvöld tryggi öryggi kvenna í áfengismeðferð (sjá: http://www.rotin.is/oryggi-kvenna-i-afengismedferd-erindi-til-radherra/). Því miður barst Rótinni ekki bréfið sem dagsett er 20. júní 2013 ekki fyrr en í síðustu viku.

Ráð Rótarinnar lýsir miklum vonbrigðum með svar embættisins og það vekur í raun fleiri spurningar en það svarar. Embættið byggir sínar niðurstöður eingöngu á upplýsingum frá yfirlækni á Vogi og ekki virðist hafa verið leitað til neinna sjúklinga eða vettvangsathugun farið fram. Einnig beinir Landlæknir því til Rótarinnar að „vinna með forsvarsmönnum SÁÁ í því starfi til að tryggja öryggi þeirra kvenna sem þar leita þjónustu.“

Þessi orð vekja okkur mikla furðu. Í fyrsta lagi beinist krafa Rótarinnar að meðferðarstarfi almennt og ekki er minnst sérstaklega á SÁÁ í erindi okkar. Í öðru lagi er Rótin hagsmunafélag sem hefur litlar forsendur til að vinna að gæðamálum á sjúkrahúsum. Í þriðja lagi var Rótin upphaflega stofnuð innan SÁÁ en sökum skoðanaágreinings var ákveðið að stofna óháð félag til að berjast fyrir réttindum kvenna með áfengis- og fíknivanda.

Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu er tilgangur hennar að „allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði“. Í lögum um landlækni og lýðheilsu segir að hlutverk embættisins sé að „tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að því að lýðheilsustarf og heilbrigðisþjónusta byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.“

Það er á grundvelli þessara laga sem Rótin leitar til embættisins sem eftirlitsaðila og við teljum að það halli alvarlega á notendur kerfisins ef sú aðferð sem lýst er í svari embættisins er viðhöfð við eftirlit. Lengi hefur fíknimeðferð verið á jaðri heilbrigðiskerfisins og rekin af félagsamtökum og einkaaðilum. Það breytir því ekki að sömu lög gilda um þessa heilbrigðisþjónustu og þá sem rekin er af ríkinu.

Undanfarið hefur verið mikil umræða um málefni ungs fólks með fíknivanda og tvíþættan vanda þar sem fram hafa komið sjúklingar sem lýsa því að þeir hafi ýmist orðið fyrir eða orðið vitni því að konur og ungt fólk lendi í valdbeitingu af einhverju tagi á meðferðarstöðvum þar sem ekki er gætt að kynja- og aldursskiptingu. Við hvetjum Landlækni til að hefja strax rannsókn á öryggi kvenna og ungs fólks í meðferð og láta sjúklingana njóta vafans.

Við bendum embættinu á að skoða eftirfarandi efni:

http://www.frettatiminn.is/frettir/eg_var_komin_a_gotuna_ellefu_ara/
http://www.ruv.is/innlent/fikniefnaneysla-ungmenna-stor-vandi
http://www.dv.is/frettir/2014/9/16/ung-stulka-svipti-sig-lifi-vogi/
http://www.ruv.is/frett/fekk-oblidar-vidtokur-a-vogi
http://www.visir.is/sidblindir-menn-sem-saekja-i-berskjaldadar-konur/article/2014710049943
http://www.dv.is/frettir/2013/9/1/areitt-i-medferd-038ZUN/  

Hér má sjá Öryggi kvenna í áfengismeðferð - Svarsvar Embættis landlæknis en þar segir:

Efni: Öryggi kvenna í áfengismeðferð

Embætti landlæknis vísar til erindis Rótarinnar — félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda sem barst með tölvupósti þann 22. apríl 2013 og einnig í bréfi sem kom 21. maí sl. ásamt ítrekun 19- september 2014. Í bréfinu er þess krafist að skapaðar verði aðstæður í heilbrigðiskerfinu til að konur geti leitað sér meðferðar við þeim alvarlega sjúkdómi sem alkóhólismi er án þess að eiga það á hættu að lenda í klóm ofbeldismanna.

Embætti landlæknis óskaði eftir upplýsingum frá yfirlækni SAA um það hvernig reynt sé að draga úr líkum þess að konur kynnist ofbeldismönnum í meðferð hjá þeim. Fram kemur í svari yfirlæknisins að þetta sé viðfangsefni sem þau séu sífellt að vinna með. Meðan konur eru í meðferð á Vogi eru þær í aðgát og umsjá vaktfólks allan sólarhringinn. Það er hjúkrunarfræðingur og áfengisráðgjafi á nóttunni og 30 manna starfshópur á daginn. Síðan er búið upp á sérstaka 10 daga kvennameðferð á Vík að lokinni meðferð á Vogi, þar eru karlmenn undir 55 ára aldri ekki til staðar. Reglur eru til um innlagnarferli og biðlista, umgengnisreglur og reglur um brottrekstur. Einnig kemur fram hjá yfirlækninum að búnir hafi verið til sérstakir kvennahópar til að treysta eðlileg persónumörk kvenna þegar kemur að samskiptum við hitt kynið.

Það er mat Embættis landlæknis, á grundvelli ofangreindra upplýsinga. að SÁÁ leiti leiða til að draga úr líkum þess að konur kynnist ofbeldismönnum i meðferð hjá þeim. Embættið beinir því til Rótarinnar að vinna með forsvarsmönnum SÁÁ í því starfi til að tryggja öryggi þeirra kvenna sem þar leita sér þjónustu. Ef frekari aðkomu Embættis landlæknis er óskað verður beiðni um slíkt tekin til skoðunar.

Virðingarfyllst,

Anna Björg Aradóttir,
sviðsstjóri
Svið eftirlits og gæða

DEILA: