Talsverð umræða hefur verið um nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa undanfarið og nú síðast beinir Hulda Margrét Eggertsdóttir orðum sínum að okkur Rótarkonum í grein sem birtist í Fréttablaðinu 6. mars sl. Tilgangur Rótarinnar með málflutningi sínum er að efla umræðu um menntun og hlutverk ráðgjafa og stuðla að auknum gæðakröfum í þjónustu við fólk með fíknivanda. Rétt er að minna á í því sambandi að Rótin var stofnuð til að gæta hagsmuna kvenna með fíknivanda.
Eins og Rótin hefur bent á þá skortir ramma utan um námið og engar upplýsingar er að fá frá SÁÁ um fyrirkomulag þess. Samtökin annast sjálf menntun sinna ráðgjafa án tengsla við menntakerfið í landinu. Engar hagnýtar upplýsingar um námið er að finna á heimasíðu SÁÁ og þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan og fyrirspurnir höfum við engar upplýsingar fengið, ekki einu sinni námskrá fyrir námið. Þegar fyrirspurn var beint til formanns SÁÁ kom í ljós að samtökin líta ekki svo á að upplýsingar um námið eigi erindi til almennings.
Ráðgjafar bera mjög mikla ábyrgð á meðferð á meðferðarstöðum, þó að þeir séu með tæplega einnar annar bóklegt nám að baki, eins og má skilja af lýsingum ráðgjafa í nýlegum greinum. Hulda Margrét ber starf ráðgjafa saman við háriðn. Sá samanburður leiðir í ljós að mun skýrari rammi er um háriðnina og meiri kröfur um menntun. Er það eðlilegt miðað við eðli ráðgjafastarfsins? Við teljum svo ekki vera. Nemar í háriðn ljúka 168 eininga námi, þar af 96 í skóla, á meðan ráðgjafar sem eru að fást við sálarlíf skjólstæðinga sinna ljúka í mesta lagi 15 eininga bóknámi.
Hverjir kenna ráðgjöfunum?
Til viðmiðunar þurfa sálfræðingar BA/BS-próf og tveggja ára framhaldsnám, cand. psych., ásamt árs verklegri þjálfun til að mega meðhöndla fólk. Hvað veldur því að landlæknir og heilbrigðisráðherra telja að ekki þurfi nema brot af þessari þekkingu til að meðhöndla fólk með fíknisjúkdóma sem þó eru flokkaðir með geðsjúkdómum?
Reglugerð um ráðgjafanám byggir á fyrirmyndum frá Bandaríkjunum og Kanada og kröfur til ráðgjafa virðast miðaðar við ráðgjafanám National Association of Alcoholism and Drug Abuse Counselors (NACCDAC). Íslenskir ráðgjafar hafa margir fengið viðurkenningu þessara samtaka sem bjóða upp á vottun á þremur stigum, National Certified Addiction Counselor (NCAC) I, II og Master Addiction Counselor (MAC).
Fyrsta stigið er sambærilegt við það nám sem viðurkennt er af Embætti landlæknis. Annað stigið er fyrir þá sem eru með BA/BS-gráðu og þriðja stigið er fyrir fólk með MA/MS-gráðu í heilbrigðis-, félagsvísinda- eða öðrum tengdum greinum. Munurinn á stöðunni hér á landi og í Bandaríkjunum er sá að hér virðist lítið vera um að ráðgjafar séu með meiri menntun en fyrsta stigið. Í Bandaríkjunum er stærsti hluti ráðgjafanna hins vegar með menntun á háskólastigi.
Ef marka má upplýsingar á vefsíðu Félags áfengis- og vímuefnaráðgjafa er enginn félagi með meira en fyrsta stigið. Þá vaknar sú spurning enn og aftur: hverjir kenna þessum ráðgjöfum? Hvaða menntun eru þeir með? Er meðferðarkerfið bara lokað kerfi þar sem engar inngönguleiðir eru fyrir nýja þekkingu?
Lengi vel þótti fullnægjandi að þeir sem önnuðust meðferð fólks með fíknivanda væru edrú og í sérstöku sambandi við æðri máttarvöld. Sú stefna leiddi til alvarlegra mannréttindabrota á skjólstæðingum kerfisins.
Svo til engar sjálfstæðar rannsóknir eru í gangi tengdar áfengis- og vímuefnafíkn en þær eru grundvöllur þess að meðferðin byggi á gagnreyndri þekkingu. Nauðsynlegt er að efla slíkar rannsóknir og tengja saman rannsóknir og menntun ráðgjafa.
Kominn er tími til að kveðja þessa hugsun endanlega og líta á fíknivanda sem alvöru viðfangsefni heilbrigðis- og félagskerfis sem þarfnast alvöru faglegrar og gagnreyndrar þekkingar.
Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Gunnhildur Bragadóttir
Edda Arinbjarnar
Kristín I. Pálsdóttir
Þórlaug Sveinsdóttir
sitja í ráði og vararáði Rótarinnar
Greinin birtist á Vísir.is hinn 28. mars 2014.