0
Karfan þín

Heimsókn í kvennameðferð í Belgíu

Talskona Rótarinnar, Kristín I. Pálsdóttir, heimsótti á dögunum meðferðarsamfélagið (e. therapeutic community) De Kiem í nágrenni Gent í Belgíu. Með í för var Þórlaug Sveinsdóttir fv. ráðskona og ein af stofnendum Rótarinnar. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynnast meðferðarstarfinu en De Kiem, sem þýðir ‘kím’ eða ´kímblað´á íslensku, rekur m.a. þjónustu fyrir konur með börn. Þær koma ýmist á meðgöngu eða eftir fæðingu og geta dvalið í eitt og hálft ár í meðferðinni. Eftir það gefst þeim færi á að fara á áfangaheimili.

Útibúið sem Kristín og Þórlaug heimsóttu er í litlu þorpi, Gavere, í Flæmingjalandi. Konurnar búa tvær og tvær með börnum sínum í íbúð og er alls pláss fyrir átta konur. Börnin fara í skóla og leikskóla í þorpinu en konurnar hugsa svo um börnin á kvöldin og um helgar og fá stuðning til þess. Einstæðir feður hafa líka tækifæri til að nýta þessa þjónustu.

De Kiem eru samtök sem bjóða fjölbreytta þjónustu, bæði göngudeildir, inniliggjandi meðferð (meðferðarsamfélag), fráhvarfsmeðferð, áfangaheimili og aðstoð við fanga í flæmskumælandi hluta Belgíu. Þjónustan er kostuð af opinberu fé.

Húsnæðið var nýlegt og þægilegt og íbúðir kvennanna ágætlega rúmgóðar með aðgengi að garði.

Hér er vefsíða samtakanna.

Hér á landi vantar sárlega sambærilega þjónustu fyrir konur á meðgöngu og konur með ung börn og Rótin er alltaf á útkikki eftir fyrirmyndum að slíkri þjónustu. Margt gott er gert hjá De Kiem og þjónusta þeirra fyrir konur er mjög mikilvæg. Þó má þar bæta sérþekkingu á þjónustu í samræmi við þá þekkingu sem nú er gagnreynd og aðgengileg um sérþarfir kvenna og annarra kynja.

 

 

DEILA: