Við Rótarkonur vitum af eigin raun að fjölmiðlar vilja gjarnan fá fólk í viðtöl til að segja reynslusögur. Þær vekja oft mikla athygli og því er freistandi að finna viðmælenda, enda er tilgangurinn góður. Á sama tíma fylgir því ónotatilfinning að ýta fólki inn í kastljós fjölmiðla til að tjá sig um erfiða lífsreynslu, ofneyslu og ofbeldi.
Sú hugmynd virðist vera á kreiki að það sé einhvers konar terapía að koma fram í fjölmiðlum og segja sína sögu, jafnvel fyrir fólk sem lítið sem ekkert hefur unnið úr sínum áföllum.
Þau áföll sem hafa alvarlegustu áhrifin á heill og hamingju fólks eru kynferðisbrot, ekki síst þau sem framin eru gagnvart börnum og ungu fólki. Nauðgun er svo sá einstaki atburður sem mestar líkur eru á að valdi áfallastreituröskun og konur eru í miklum meirihluta þeirra sem glíma við hana.
Meirihluti kvenna sem glíma við fíknivanda á sér áfalla- og ofbeldissögu. Það er á engan hátt markmið Rótarinnar að taka þátt í þöggun um kynbundið ofbeldi og það getur vissulega verið mjög valdeflandi að afhjúpa ofbeldi. Hins vegar viljum við leggja okkar af mörkum til þess að fram fari umræða um það hvernig samfélagið fjallar um kynbundið ofbeldi. Við leggjum áherslu á að það er þess sem fyrir ofbeldinu verður að ákveða hvar, hvenær, hvort og hvernig saga hans birtist opinberlega.
Margfalt ofbeldi
Fórnarlömb kynbundins ofbeldis verða iðulega fyrir margföldu ofbeldi. Nýleg dæmi sýna að umfjöllun í fjölmiðlum getur bæði verið vægðarlaus og siðlaus og margir þættir hafa áhrif á það hvernig sá sem orðið hefur fyrir ofbeldi er meðhöndlaður af fjölmiðlum, samfélagi og réttarvörslukerfi.
Mikil tilhneiging er til að standa með valdamiklum gerendum en ef gerandi er óþekktur er jafnan meiri samúð með þolanda. Þá getur verið erfitt fyrir karla að opinbera kynferðisofbeldi gegn sér þar sem það samræmist ekki gamalgrónum staðalímyndum um karlmennsku að karlar séu þolendur.
Orðræðan um að fólk sé saklaust á meðan annað sannast ekki fleytir okkur ekki langt í því að styðja við bakið á þeim fjölmörgu sem verða fyrir kynferðisofbeldi. Vinna þarf gegn því að þolendur lendi í spíral þar sem fyrst er brotið á þeim kynferðislega, síðan af fjölmiðlum með ónærgætinni og gerendamiðaðri umfjöllun og svo af dómskerfi sem virðist getulaust til að útdeila réttlæti í slíkum málum. Þá er ónefnt samfélag sem aldrei hefur áhyggjur af því hvort að gerendur séu í stuttbuxum eða „lauslátir“ en meiri af því að þolendur fyrirgefi gerendum og veiti þeim „syndaaflausn“.
Það er ekki hlutverk dómstóla að birta úrskurði með viðkvæmum persónuupplýsingum um brotaþola.
Samfélagsstofnanir eins og fjölmiðlar, réttarkerfi og félagasamtök ættu stuðla að vernd þolenda gegn óvæginni umfjöllun í samræmi við siðareglur fagstétta. Félagasamtök sem nota sögur, nöfn og andlit skjólstæðinga í kynningar- og fjáröflunarstarfi verða líka að hafa skaðleysi skjólstæðinga sinna í fyrirrúmi.
Fagna ber aukinni umræðu um kynferðisbrot og þakka því hugrakka fólki sem sagt hefur sína sögu opinberlega. Við skulum líka vera vakandi fyrir áhættunni sem því fylgir að berskjalda sig í litlu gerendavænu samfélagi.
Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Katrín G. Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, og Þórlaug Sveinsdóttir eru í ráði Rótarinnar
Greinin er fram lag Rótarinnar til alþjóðlegs 16 daga átaks gegn ofbeldi. Dagsetning átaksins var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Þann 25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og 10. desember er hinn alþjóðlegi mannréttindadagur. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis.
Bæklingurinn „Ef fjölmiðlar hafa samband. Leiðbeiningar fyrir brotaþola og aðstandendur“ er hér aðgengilegur á PDF-sniði.