0
Karfan þín

Ályktun um stefnuleysi í meðferðarstarfi á Íslandi

Mynd Halldórs Baldurssonar í Blaðinu 8. júní 2007
Mynd Halldórs Baldurssonar í Blaðinu 8. júní 2007

Rótin er félag um málefni kvenna með áfengis-, fíkni- og geðrænan vanda. Eitt af meginmarkmiðum félagsins er að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur.

Félagið hefur verið í samskiptum við yfirvöld og beitt sér fyrir faglegri nálgun á meðferð við fíkn og hefur sent fjölda erinda ýmist til að vekja athygli á málefnum, fá svör um fyrirkomulag eða til að krefjast úrbóta. Meðferð við fíknivanda á Íslandi er að mestu í höndum einkaaðila og frjálsra félagasamtaka en þjónusta Landspítala er eingöngu ætluð fólki með tvíþættan vanda, alvarleg geðræn vandamál og fíknivanda. Við gagnrýnum að hvorki er til opinber stefna né klínískar leiðbeiningar um fíknimeðferð, hér á landi, heldur er einkaaðilum látið það eftir að móta þjónustuna eftir hverri þeirri stefnu sem rekstraraðilum þóknast.
Á heimasíðu velferðarráðuneytisins segir að meðferð fyrir fólk með fíknivanda hérlendis sé skipt í þrjá aðalflokka:

  • meðferð á geðdeildum sjúkrahúsa þar sem beitt er læknisfræðilegum aðferðum,
  • meðferð á stofnunum sem styðjast við 12 spora kerfi AA-samtakanna, sem eru leiðbeiningar um hvernig fyrrverandi ofneytendum áfengis og annarra vímuefna sé ráðlegast að haga lífi sínu á batavegi,
  • meðferð á stofnunum sem hafa kristna trú að leiðarljósi.

Mestöll meðferð við fíkn hérlendis, þó ekki á Landspítala, byggist á Minnesota-módelinu sem er hin stofnanavædda útgáfa AA-samtakanna. Slík meðferð einkennist af 10 daga afvötnun og 28 daga inniliggjandi eftirmeðferð, ráðgjafarnir, sem sjá næstum alfarið um eftirmeðferð, eru edrú sjálfir eða aðstandendur og hafa mjög takmarkaða menntun, sem Embætti landlæknis viðurkennir að ekki hefði átt að löggilda. Markmið meðferðarinnar er að koma fólki inn í 12 spora samtök, enda eru haldnir AA-fundir í meðferðinni. Allt er þetta sprottið upp úr 12 spora kerfinu en ekki úr vísindalegri nálgun á fíkn þó að læknar og hjúkrunarfólk komi að meðferðinni, þá sérstaklega afvötnunarferlinu. Módelið hefur þróast eitthvað með tímanum þó að grundvöllurinn sé ætíð hinn sami og stundum er íslenska útgáfan af Minnesota-módelinu kölluð íslenska módelið.

Þrátt fyrir hin órjúfanlegu tengsl meðferðarmódelsins við trúarlegar hugmyndir um bata, sbr. samband við æðri mátt, er þar einnig að finna eldheita trú á það að fíkn sé heilasjúkdómur (læknisfræðilega módelið um fíkn) og áhrifum áfalla á þróun fíknar er hafnað.

Það verður að teljast þversagnakennt að fólk með lágmarksmenntun, áfengis- og vímuefnaráðgjafar, eigi að „lækna“ sjúklingana. Það er hætt við að það yrði uppi fótur og fit ef slíkri aðferðafræði yrði beitt við meðferð heila- og taugasjúkdóma eins og Alzheimer- og Parkinson.

Við í Rótinni værum ekki í okkar baráttu nema af því að við vitum hvað þetta kerfi er gallað, ekki síst fyrir konur sem flestar glíma við alvarlegar afleiðingar áfalla. Þessu þarf að breyta og umræðan verður að þola dagsins ljós. Það er dapurlegt hvað forsvarsmenn SÁÁ taka allri umfjöllun um meðferðarstefnu illa og með þöggunartilburðum. Enn verra er að þeir ráðast persónulega að þeirri okkar sem tjáir sig opinberlega fyrir hönd Rótarinnar.

Reykjavík, 24. nóvember 2016

Kristín I. Pálsdóttir talskona Rótarinnar

DEILA: