Miðvikudaginn 22. febrúar kl. 20 kemur Sigríður Björnsdóttir á umræðukvöld hjá Rótinni og heldur erindi um lokaverkefni sitt í BA-námi í sálfræði.
Sigríður Björnsdóttir er framkvæmdastjóri Blátt áfram, forvarnarverkefnis gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum. Hún lauk BA-námi í sálfræði við Háskólann á Akureyri árið 2016 og stundar nú framhaldsnám í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík.
Í lokaverkefninu skoðaði Sigríður áhrif erfiða upplifana í æsku á heilsufar síðar á lífsleiðinni og áhrif þeirra á lífsgæði. Þátttakendur í rannsókninni voru nemendur við Háskólann á Akureyri og skjólstæðingar tveggja starfsendurhæfingarstöðva. Úrtakið var 577 einstaklingar, á aldrinum 18–62 ára.
Niðurstöður leiddu meðal annars í ljós að munur er á lífsgæðum þátttakenda eftir fjölda áfalla. Þeir sem hafa upplifað mörg áföll glíma frekar við andleg veikindi eins og kvíða og greina einnig frá lakari líkamsheilsu. Þegar greint var hvort munur var á fjölda áfalla hjá háskólanemendum og þeim sem eru í starfsendurhæfingu kom í ljós að fólk í endurhæfingu, hafði orðið fyrir helmingi fleiri áföllum á lífsleiðinni en háskólanemendur.
Í niðurstöðum er þeirri spurningu velt upp hvort að áfallaúrvinnsla þurfi að vera hluti af starfsendurhæfingu, þar sem áföll greina á milli þeirra sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda og þeirra sem þurfa hana ekki.
Allir eru velkomnir á umræðukvöld Rótarinnar sem haldin eru á Hallveigarstöðum, Túngötu 14.
Boðið er upp á te og kaffi en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.
Viðburðurinn er á Facebook!