Tilefni þessara greinaskrifa er fyrirlestur Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur og Tom Stranger ásamt bók þeirra, Handan fyrirgefningar. Tom nauðgaði Þórdísi Elvu þegar hún var unglingur.
„Er ekki kominn tími til að fyrirgefa honum?“
Marie M. Fortune, guðfræðingur og sérfræðingur í kynferðisofbeldi, segir að spurningin geti valdið sektarkennd hjá þolandaum. Þörfin eða löngunin til að fyrirgefa verður að vera algjörlega á valdi þolandans og allur þrýstingur á þolanda, í hvaða formi sem er, er ónærgætinn og óraunhæfur.
Oft er vísað til þess að fyrirgefningin sé hin kristilega lausn. Sólveig Anna Bóasdóttir segir í grein sinni „Fyrirgefningin – er ekki alltaf svarið“: „Að losna undan valdi persónu sem hefur meitt mann og sært er mjög erfitt og tal um fyrirgefningu hjálpar ekki alltaf í þeim aðstæðum. „Ef gerandinn viðurkennir hvorki verknað sinn né reynir að bæta fyrir brot sitt ættum við, með stuðningi Nýja testamentisins, að sleppa öllu tali um fyrirgefningu.“
Í grein sinni „The Politics of Forgiveness: How the Christian Church Guilt-Trips Survivors“ bendir Fred Keene á að í kröfunni um fyrirgefningu felist öflugt félagslegt taumhald sem viðheldur sekt þolandans og að krafan um fyrirgefningu hafi einnig fest rætur í ráðgjöf og meðferð fagaðila. Keene bendir á að í kristninni sé fyrirgefning alltaf veitt af þeim sem valdið hefur en ekki öfugt.
Sáttaferli ekki alltaf rétta leiðin
Í kynferðisofbeldi eins og öðru ofbeldi nær annar aðilinn valdi yfir hinum og í krafti þess valds beitir hann hinn aðilann ofbeldi. Kynferðisofbeldi er aldrei réttlætanlegt og aldrei þolandanum að kenna, ábyrgðin og sökin er ofbeldismannsins. Ekkert getur breytt því að afbrot var framið, nauðgun er og verður alltaf nauðgun.
Sáttaleiðin er ekki alltaf rétta leiðin þegar kemur að kynferðisofbeldi, segir Marie M. Fortune. Bera þurfi virðingu fyrir sársauka þolandans auk þess sem stærsta hindrun fyrir sáttargjörðinni er afneitun ofbeldismannsins. Þegar um sifjaspell er að ræða koma þau oft ekki í dagsljósið fyrr en eftir að gerandinn er látinn. Þá getur einnig verið að þolandi hafi enga löngun til að ná sáttum við nauðgara sem er henni ókunnugur.
„Ekki vera svona reið!“
Samfélög eiga stundum erfitt með að höndla reiði þolanda. Reyndar er það svo að reiði þolanda beinist því miður oftast að þeim sjálfum. Heilbrigð viðbrögð við því að brotið er gegn okkur ætti að vera reiði gagnvart þeim sem olli brotinu. Að leyfa sér að vera reiður gerandanum getur því verið merki um að þolandi sé kominn vel áleiðis í bataferlinu.
Þolandans er valið og valdið
Þolandinn er hvorki göfugri né hugaðri við það eitt að fyrirgefa gerandanum. Sumt fagfólk varar við því að þolandi fari á fund geranda með það fyrir augum að fá hann til að iðrast gjörða sinna. Í langflestum tilvikum þekkjast þessir einstaklingar og hættan er sú að þeir sem eru nákomnir standi með gerandanum. Þetta endurspeglaðist t.d. í þáttaröðinni Föngum.
Það er langt í frá tilgangur greinarhöfunda að gagnrýna sáttarferli Þórdísar og Toms en það gæti skapað falskar eða óraunhæfar væntingar hjá öðrum þolendum og upphafið hugmyndina um að fyrirgefningin sé sjálfsagður hluti uppgjörs við kynferðisofbeldi.
Áslaug Árnadóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Katrín G. Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir eru í ráði Rótarinnar.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. mars 2017.