Í fjölda ára hefur þeirri hugmynd statt og stöðugt verið haldið að almenningi að fíkn sé „heilasjúkdómur“ sem þróist vegna galla í taugalíffræði heilans. Þetta er rangt.
Í fyrsta lagi er mikilvægt að átta sig á því að þessi ranghugmynd er hluti af stærri rangtúlkun, þ.e. á sálarfræði mannsins, og að hægt sé að smætta þau hugarferli sem gera okkur mennsk niður í rafboð sem taugafrumur senda í heilanum. Þessi hugmynd horfir alveg fram hjá þekkingu sem orðin er hluti af nútíma eðlisfræði, flækjufræði (e. Complexity Theory)
Flækjufræði urðu til sem viðurkenning á því að öll flókin kerfi þrói með sér nýja eiginleika sem ekki er hægt að útskýra eða spá fyrir um út frá þeim einstöku þáttum sem saman mynda kerfið. Þetta gerist vegna þess að einstakir þættir allra flókinna kerfa innibera einfaldlega ekki sömu eiginleika og kerfið gerir í heild sinni.
Gott dæmi um þetta er vatn. (Dæmið er fengið að láni úr bókinni Complexity eftir M. Mitchell Waldrop). Við vitum heilmikið um einstök vatnsmólekúl. En öll sú vitneskja gerir okkur ekki kleift að útskýra eða spá fyrir um þá eiginleika sem koma í ljós þegar nokkrar trilljónir mólekúla koma saman og skapa flókið kerfi eins og “flæði” eða straumfræði. Stærra dæmi er lífið sjálft. Allar lifandi verur eru samsettar úr efnum. Samt er ekkert efnanna lifandi og sama hversu mikla þekkingu við höfum á hinum einstöku efnum gætum við ekki spáð fyrir um eða útskýrt lífið.
Svona er sálarfræði. Heilinn er samsettur úr taugafrumum (taugungum). Í engum þeirra er að finna sálarfræði. En ef þú setur saman nokkrar billjónir þeirra í flókið kerfi kemur í ljós glænýr eiginleiki sem við köllum mannlega sálarfræði. Eins og með lífið er fífldirfska að reyna að smætta mannleg einkenni okkar, tilfinningaleg átök og hegðun niður í rafboð í taugafrumum heilans. Eins og öll önnur dæmi um eiginleika sem koma fram í flóknum kerfum þarf að skilja sálarfræði á forsendum sálfræðinnar.
Nú skulum við snúa okkur að fíkninni. Heilasjúkdómskenningin gerir ráð fyrir því að fíkn orsakist af breytingum á heilastarfsemi sem aftur orsakist af fyrri notkun vímuefna. Þessi kenning byggir á tilraunum á rottum sem eru keimlíkar hinni frægu tilraun Pavlovs með hunda. Pavlov hringdi bjöllu þegar hann fóðraði hundana sína og komst að því að eftir einhver tíma byrjuðu hundarnir að slefa þegar þeir heyrðu í bjöllunni. Hann kallaði þetta „skilyrt viðbragð“.
Það sem taugalíffræðingar hjá National Institute of Drug Abuse (NIDA) gerðu við rottur hófst á sama hátt. Þeir gáfu þeim nógu mikið heróín til að gera þær háðar því og tengdu vímuefnið við ákveðin áreiti í umhverfinu. Þegar þessi áreiti komu fram í umhverfi rottanna síðar byrjuðu þær að hlaupa um og leita að vímuefninu. Rannsóknarfólkið kallaði þessi skilyrtu viðbrögð „sjálfvirkni í hegðun“.
Næsta stig rannsóknarinnar var nokkuð sem Pavlov gat ekki. Rannsakendur krufðu heila rottanna. Niðurstaðan var sú að heilarnir seyttu miklu magni af taugaboðefninu dópamíni þegar rotturnar urðu fyrir þessum umhverfisáreitum. Næst snéri rannsóknin að fólki með fíknivanda og niðurstaðan var að svipaðar breytingar yrðu á dópamínmagni við áreiti og að aðrar tengdar breytingar ættu sér stað í heilanum. Rannsóknarfólkið komst þá að þeirri niðurstöðu að orsakir fíknar væru fundnar og að hún væri sú að fólk væri með ofvirk dópamínviðbrögð við vímuefnatengdum áreitum sem knúðu það, eins og rotturnar, til að sækjast eftir vímuefnum jafnvel þó að ekki væri lengur um líkamlega fíkn að ræða.
NIDA kynnti þessa skoðun víða jafnvel þó að engar sannanir væru (og eru ekki enn þann dag í dag) fyrir því að niðurstöðurnar, hvort sem er í rottum eða mönnum, hefðu nokkuð með mannlega fíkn að gera. Það eru engin tilfelli sem hægt er að sýna fram á að sé afleiðing þeirra kerfa sem NIDA heldur fram að séu að verki. Áköf útbreiðsla NIDA á kenningu sinni var þess vegna óvenjuleg. Vísindafólk sýnir alla jafna mikla varkárni í því að halda því fram að hægt sé að alhæfa út frá litlu úrtaki, að ekki sé talað um þegar úrtakið eru rottur og niðurstöðurnar færðar yfir á menn. Það kom líka í ljós að þessar fljótfærnislegu ályktanir voru kolrangar og ekki voru studdar gögnum eða nægjanlega ígrundaðar.
Af hverju fellur taugalíffræðin á prófinu?
„Sjálfvirknihegðunin“ sem sást í rottum hefur ekkert að gera með mannlega fíkn. Rottur eru með mjög einfalt áreitis- og svörunarkerfi. Þegar þær verða fyrir áreiti bregðast þær við. (Heili rottu er um það bil 1,5 sm og 3 gr.). Fólk hleypur hins vegar ekki um í leit að vímuefnum við slíkt áreiti. Til dæmis bíður fólk oft eftir drykknum sínum (t.d. til loka vinnudags áður en farið er á barinn) jafnvel þó að ákveðið hafi verið að fá sér drykk. Sú hegðun er ósamræmanleg þeirri hugmynd að fíkn byggi á dópamín-innspýtingu sem kemur fram við áreiti.
Þar að auki er mannleg fíknihegðun venjulega ekki viðbragð við umhverfisáreiti. Mjög sjaldan er það orsök fíknihegðunar að sjá mynd af drykk eða öðru vímuefni í sjónvarpi. Ef rannsakendurnir hefðu rannsakað manneskjur hefðu þeir komist að því að fíknihvatar eru næstum alltaf viðbragð við tilfinningaálagi. Sambandsslit, ótti við átök, uppgjöf, niðurlæging, sorg og aðrir sálfræðilega mikilvægir þættir hafa allir forspárgildi fyrir fíknihegðun hjá fólki.
Jafnvel þó að rannsakendurnir hefðu ekki vitað mikið um mannlega fíkn hefðu þeir aldrei komist að þessum niðurstöðum ef þeir hefðu veitt hinum yfirgripsmiklu talnagögnum sem eru til, og eru í mótsögn við niðurstöður þeirra, athygli. Ein fyrsta rannsóknin var gerð á áttunda áratugnum. Hermenn sem snéru frá Víetnam sem háðir voru heróíni reyndust eiga auðvelt með að hætta að nota það þegar þeir komu heim úr stríðinu, öfugt við það sem óttast var. Þessi niðurstaða hefði ekki verið möguleg ef stórir heróínskammtar í langan tíma hefðu haft í för með sér að þeir hefðu þróað með sér „ólæknandi heilasjúkdóm“. Ef við orðum þetta á annan hátt þá sýndi rannsókn á hermönnunum að vímuefnanotkunin olli eingöngu líkamlegri ánetjun, sem er hægt að lækna með fráhvarfsmeðferð. Fólk verður ekki háð vímuefnum af því einu að nota þau.
Sama á við um þá staðreynd að tugmilljónir fólks gat ákveðið að hætta að reykja sígarettur þegar því varð ljós áhættan sem fylgdi reykingum, þrátt fyrir að hafa andað að sér vímuefninu nikótíni í áraraðir. Það er líka í mótsögn við kenninguna um að fíkn sé „heilasjúkdómur“. Hið sama má segja um þær milljónir sjúklinga sem fá ávanabindandi verkjalyf en verða aldrei háðir þeim.
Nægar sannanir eru til gegn taugalíffræðilegum kenningum. Það er algengt að fólk skipti úr fíkn í efni yfir í hegðunarfíkn, og stundum fram og til baka (fjárhættuspil og áfengisfíkn eru algeng skipti en við vitum líka af mörgum tilfellum þar sem fólk hættir að nota vímuefni og byrjar að þrífa heimilið á áráttukenndan hátt eða fær kaupæði í staðinn). Þetta passar ekki við taugalíffræðilegu kenninguna um vímuefni-áreiti. Og, að sjálfsögðu, fyrir utan að skipta fram og til baka á milli fíknar, er ekki hægt að skýra hegðunarfíkn sem hefur sömu birtingarmyndir og vímuefnafíkn (spilafíkn, fíkn í klám, mat, líkamsrækt o.s.fr.) með taugalíffræðilegum kenningum.
Taugalíffræðihugmyndin er ekki bara byggð á ósönnuðum fullyrðingum heldur minnir hún sorglega mikið á þær siðaumvandanir sem við höfum búið við í árþúsundir. Í gegnum mannkynssöguna hefur því verið trúað að fólk með vímuefnavanda sé nautnasjúkt fólk sem ekki geti hætt að drekka vegna sjálfselsku. Taugalíffræðilega hugmyndin um fíkn er óhugnanlega lík. Með henni er því haldið fram að fólk sem þjáist af fíknivanda sé að bregðast við örvun í umbunar/ánægjubrautum heilans. Því er haldið fram að fólk, eins og rottur, leiti tafarlausrar umbunar. Jafnvel mestu tossar sálfræðideildanna skilja að við erum ekki skepnur með smáheila sem svara áreiti stjórnlaust. Við erum ekki bara knúin áfram af hvötum heldur líka vörnum gegn þeim, af hugsjónum sem við viljum virða, af innri átökum mótsagnakenndra tilfinninga, af flóknum persónuleikum sem hafa hæfni til margslunginnar aðgreiningar þegar við glímum við okkur sjálf og heiminn.
Taugalíffræðingar NIDA hafa gert fólki með fíknivanda og greininni allri mikinn óleik með því að halda því fram að rotturannsóknir þeirra útskýri mannlega fíkn. Til að skilja þau áráttukenndu einkenni sem við köllum fíkn verðum við að skilja manneskjur.
Höfundur greinarinnar er Lance Dodes, geðlæknir og emeritus sem stjórnaði rannsóknum við Boston Psychoanalytic Society and Institute og var dósent í klínískum geðlækningum við Harvard Medical School. Hann starfar nú við New Center for Psychoanalysis (Los Angeles). Hann var forstöðumaður fíknimeðferðardeildar McLean spítala, sem er hluti af Harvard-háskóla, forstöðumaður áfengismeðferðardeildar við Spaulding Rehabilitation Hospital (sem nú er hluti af Massachusetts General Hospital) og forstöðumaður Boston Center for Problem Gambling. Hann hefur skrifað fjölda greina um vímuefnavanda og fíknihegðun og er höfundur bókanna The Heart of Addiction (HarperCollins, 2002), Breaking Addiction: A 7-Step Handbook for Ending Any Addiction (HarperColliins, 2011) og The Sober Truth: Debunking the Bad Science Behind 12-Step Programs and the Rehab Industry.
Kristín I. Pálsdóttir þýddi greinina og aðlagaði. Hún er birt með samþykki Lance Dodes. Bestu þakkir til Guðrúnar Ebbu og Lilju Sifjar fyrir yfirlestur og góðar ábendingar.
Upprunalega grein má nálgast hér og fyrri grein Lance um sálfræðilega þætti fíknar má nálgast hér.