0
Karfan þín

Meðferðarheimili BVS – Yfirlýsing

Yfirlýsing frá Rótinni, félagi um konur, áföll og vímugjafa, vegna umfjöllunar Stundarinnar um meðferðarheimili Barnaverndarstofu

Nokkrar hugrakkar konur stíga fram og segja reynslu sína af meðferðarheimilum Barnaverndarstofu í Stundinni 29. janúar sl.

Rótin krefst þess að gerðar séu upp þær ófaglegu og oft ofbeldisfullu aðferðir sem liðist hafa í meðferð bæði barna og fullorðinna. Litlar úttektir hafa verið gerðar á meðferðarkerfinu þar sem talað er við fólkið sem var í meðferð og t.d. var bara talað við yfirmenn í úttekt Embættis landlæknis á þremur meðferðarstöðum árið 2016 þar sem þær fengu allar falleinkunn.

Rótin sendi Landlækni erindi vegna yfirlýsingar frá meirihluta starfsfólks SÁÁ 22. júlí sl. „um yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum“ með ósk um að heilbrigðisráðuneyti og Embætti landlæknis skoði málið. Einnig óskar félagið eftir því að áhrif þessarar ógnarstjórnar á þá sem sóttu sér meðferðar hjá SÁÁ, ekki síst á barnsaldri, verði sérstaklega skoðuð.

Öryggi kvenna og barna í meðferð er mikið baráttumál Rótarinnar og rót þess að félagið var stofnað 8. mars 2013. Félagið veit fjölda dæma þess að konur eru ekki öruggar í meðferð hér á landi og þátttakendur í rannsókn á reynslu kvenna af meðferð á vegum RIKK – Rannsókna-stofnunar í jafnréttisfræðum og Rótarinnar (2016-2017) staðfesta það. Í rannsókninni sögðu konur frá miklu ofbeldi og áreitni sem þær höfðu orðið vitni að eða upplifað á sjálfum sér í íslenska meðferðarkerfinu. Auk þess sem rannsóknin leiddi í ljós, eins og fleiri rannsóknir á þessu sviði, að stærsti hluti kvenna sem farið hafa í áfengis- og vímuefnameðferð á sögu ofbeldis og áfalla.

„Ef öryggi konu í vímuefnameðferð er virt að vettugi getur það komið í veg fyrir að hún nái nokkurn tíma bata. Ef ekki er unnið jöfnum höndum með vímuefnanotkun og ofbeldi, sem konan hefur orðið fyrir, getur það orðið til þess að hún finni aldrei til öryggis. (Marai Larasi, framkvæmdastjóra Imkaan-samtakanna í London)“

Rótin hefur ítrekað óskað eftir tölfræði um lögboðna atvikaskráningu í meðferðarkerfinu og hefur verulegar áhyggjur af því að hún skuli ekki vera aðgengileg, ef hún er þá til. Hvernig er hægt að halda uppi gæðaeftirliti í meðferðarkerfinu án atvikaskráningar þar sem nákvæmum gögnum er safnað um öll frávik, svo sem áreitni og eins þegar konum er refsað með brottvikningu úr meðferð með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum? Slík tilvik eru alvarlegur öryggisbrestur í meðferð.

Miklir hagsmunir eru fólgnir í réttlæti til handa þeim sem beittir hafa verið ofbeldi innan stofnana sem reknar eru eða kostaðar af opinberum aðilum. Svo til öll börn sem þróa með sér vímuefnavanda glíma við undirliggjandi vandamál, eins og konurnar sem voru í Varpholti lýsa sjálfar. Vímuefnanotkunin er í raun viðvörunarmerki um að þau þurfi aðstoð fagfólks og velferðarkerfis. Mikilvægt er að gert sé upp við það óréttlæti og ofríki sem beitt hefur verið innan slíkra stofnana hér á landi og slíkt uppgjör er tímabært.

Fyrirhugaður er fundur með Landlækni þar sem félaginu gefst kostur á að fylgja erindum sínum eftir og ræða kröfur þess um að öryggi barna, kvenna og allra einstaklinga í meðferð sé tryggt.

DEILA: