Rótin tók við rekstri Konukots 1. október og auglýsti í kjölfarið eftir forstöðukonu í neyðarskýlinu. Alls bárust 32 umsóknir. Nú hefur verið gengið frá ráðningu Halldóru R. Guðmundsdóttur í starf forstöðukonu en hún starfar nú sem forstöðumaður í sértækri búsetu fyrir fólk með einhverfu og hegðunarfrávik. Halldóra er með menntun í sálfræði, heilsuhagfræði og þjónandi leiðsögn. Hún hefur einnig verið sjálfboðaliði hjá skaðaminnkunarúrræðinu Frú Ragnheiði.
Halldóra hefur störf hinn 1. desember og býður ráð Rótarinnar hana velkomna til starfa og þakkar Þóreyju Einarsdóttur, umsjónarkonu í Konukoti, sem hefur starfað í afleysingum sem forstöðukona, hennar störf.