0
Karfan þín

Áföll og áfengismeðferð – Opið bréf til heilbrigðisráðherra

14. janúar 2014

Í nóvember 2011 birti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin upplýsingablað um ofbeldi í nánum samböndum og áfengi þar sem kemur fram að rannsóknir á forvörnum sem beinast að áfengistengdu ofbeldi séu af skornum skammti. Einnig er lögð áhersla á mikilvægi forvarna og hlutverk heilbrigðiskerfisins í því að koma í veg fyrir ofbeldi í nánum samböndum, m.a. með því að fást við samband ofbeldis við áfengisneyslu. Ein afleiðing ofbeldis er að þolendur þess nota áfengi sem sjálfsmeðhöndlun (e. self-medicating) og auka þannig líkur á fíknivanda. Einnig segir að sú trú manna að áfengi valdi ofbeldishneigð sé jafnvel notuð sem afsökun fyrir ofbeldishegðun og að börn sem verða vitni að ofbeldi á milli foreldra sinna séu líklegri til að lenda í drykkjuvanda síðar á ævinni en önnur börn.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin setur svo fram ákveðnar tillögur um hvernig best er að fást við vandann þar sem skýrt kemur fram mikilvægi þess að fíkn, ofbeldi og áföll séu skoðuð og meðhöndluð í samhengi. Þar er lögð áhersla á að í meðferð sé gert ráð fyrir tengslum milli ofbeldis í nánum samböndum og áfengisdrykkju og að þar sem tekið sé á móti fórnarlömbum ofbeldis sé skimað fyrir áfengisvanda og ennfremur sé skimað fyrir ofbeldi þegar einstaklingar koma í áfengismeðferð og þeim vísað á viðeigandi úrræði í báðum tilfellum. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að um 80% kvenna sem leita sér lækninga vegna fíknar hafa orðið fyrir ofbeldi.

Einokun á þjónustu

Nú stendur fyrir dyrum að samningar ríkisins við SÁÁ verði endurnýjaðir. Fyrirkomulag meðferðarmála á Íslandi er þannig að ríkisvaldið hefur svo til alfarið falið einum aðila framkvæmd afvötnunar og SÁÁ hefur því einokun á þeirri þjónustu. Gæðaeftirlit og eftirfylgni með framkvæmd samninganna er mjög mikilvæg og að í samningunum sé kveðið á um rannsóknir og vísindastarf, en slíkt ákvæði hefur mikla þýðingu fyrir þann sjúklingahóp sem notar þjónustuna.

Rótin hefur áhyggjur af nokkrum veigamiklum atriðum í sambandi fyrirkomulagið. Má þar einkum nefna viðhorf fagaðila innan SÁÁ til áfalla. SÁÁ framleiddi þætti sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni ÍNN undir heitinu Áfram Vogur – þættir um störf og sögu SÁÁ haustið 2013. Í þáttunum koma fram viðhorf yfirmanna og starfsfólks SÁÁ, m.a. til tengsla áfalla og fíknar.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, heldur því þar fram, í fyrsta þættinum, að það sé misskilningur að áfengisvandi skapist af áföllum. Orðrétt segir hann að komið hafi í ljós að „margir okkar láta það ekkert á sig fá þó að þeir lendi í áföllum. Við erum mjög merkilegir mennirnir“ og að: „Það þýðir ekkert að hugsa um þessi áföll, maður þarf að fara út, maður þarf að ala upp börnin sín, maður þarf að takast á við vandamálin sín og þetta er það sem við erum að kenna sjúklingunum okkar.“ Að okkar mati er þetta mjög alvarleg yfirlýsing af hálfu yfirlæknis sjúkrahúss sem meðhöndlar fíknsjúkdóma.

Það fyrirkomulag sem er á meðferðarmálum hér á Íslandi hlýtur að vera einsdæmi. Einstaklingur sem á við fíknivanda að stríða greinir sig í rauninni sjálfur og óskar eftir innlögn á einkarekinn spítala þar sem ein greining og meðferð er í boði. Eitt af meginbaráttumálum Rótarinnar er að fíknsjúkdómar og afleiðingar áfalla séu meðhöndlaðar samhliða í samræmi við nýjustu rannsóknir og þekkingu. Slík meðferð samræmist áherslum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og skýrslu velferðarráðherra um ofbeldi gegn konum.

Árdís Þórðardóttir
Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Gunnhildur Bragadóttir
Gunný Ísis Magnúsdóttir
Kristín I. Pálsdóttir
Þórlaug Sveinsdóttir

Höfundar sitja í ráði Rótarinnar

DEILA: