Okkur Rótarkonum bárust þrjár áhugaverðar spurningar á Facebook-vegginn okkar þann 26. nóvember 2013. Hér er svarið.
Sæll Björn Logi.
Takk fyrir áhuga þinn á áherslum Rótarinnar. Þar sem mér er kunnugt um að þú situr í framkvæmdastjórn SÁÁ svara ég þér á þeim nótum og vona að þér þyki það ekki verra. Svarið er nokkuð langt og því ákvað ég að setja það inn í Note’s.
Rótin er félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda. Hluti af okkar starfi er hagsmunabarátta fyrir konur í vanda og við höfum verið ötular að draga fram efni í umræðuna um fíknivanda kvenna. Okkar leiðarljós eru m.a. hugmyndir um valdeflingu skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar sem ganga út frá því að sjúklingar séu virkari og meira mótandi varðandi þá þjónustu sem þeim er boðin og axli um leið meiri ábyrgð á heilsu sinni. Þekkingaröflun er hluti af þessu ferli.
Við höfum fengið til okkar fjölda fyrirlesara, sérfræðinga á sviðum sem tengjast markmiðum félagsins, og á umræðukvöldunum okkar er jafnan góð blanda af fagfólki, sem vinnur að einhverju leyti með fólk með fíknivanda, og fólki sem hefur glímt við fíknivanda sjálft ásamt áhugafólki um málefnið. Við höfum t.d. fengið til okkar Berglindi Guðmundsdóttur yfirsálfræðing á Landspítala sem er sérfræðingur í áföllum, Sigrúnu Sigurðardóttur sem er að skrifa doktorsritgerð um áhrif ofbeldis á heilsufar og Hildigunni Ólafsdóttur afbrotafræðing sem hefur starfað við rannsóknir á fíknivanda í áratugi. Til að nefna einhverja. Við erum líka í góðu sambandi við konur með fíknivanda, sem margar leita til okkar og deila reynslu sinni með okkur.
1. Hvaða faraldsfræðilegu rannsókn leggið þið til grundvallar að telja að áfengissýki kvenna orsakist af stórum hluta af áföllum?
Í stuttu máli má segja að allt sem við lesum og heyrum styðji þá hugmynd að áföll hafi mikil áhrif á heilsufar, ekki síst fíknivanda. Í skýrslu sem velferðarráðherra (1) lagði fyrir þingið fyrir um tveimur árum kemur fram að 70-80% kvenna sem koma á Vog hafi orðið fyrir ofbeldi og í skýrslunni er mælst til þess að skimað verði eftir bæði þolendum og gerendum í meðferðinni og meðferð veitt við ofbeldisvandanum samhliða vímuefnameðferðinni og þá bæði til þolenda og gerenda. Þetta rímar við tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (2) sem hún sendi frá sér á upplýsingablaði árið 2011. Þar er lögð áhersla á samband áfengisneyslu og ofbeldis og m.a. bent á að áfengi sé notað til sjálfsmeðhöndlunar hjá þolendum ofbeldis. Eða eins og segir í upplýsingablaðinu:
„Áhrif ofbeldis í nánum samböndum eru víðfeðm. Áhrif á heilsu fórnarlambsins eru m.a. líkamlegir áverkar (sem geta hjá sumum konum leitt til vandamála á meðgöngu eða fósturláts), tilfinningaleg vandamál sem geta leitt til sjálfsmorðs, sjálfsmorðshugleiðingar eða þunglyndi og misnotkun áfengis eða fíkniefna sem sjálfsmeðhöndlun.“
Þá segir einnig:
„Enn fremur eru börn sem verða vitni að ofbeldi foreldra sinna (þar með talið hótunum um ofbeldi) líklegri til að þróa með sér ofbeldis-og afbrotahegðun í barnæsku og ofdrykkju, eða þróa með sér áfengisfíkn, síðar á ævinni sem eykur líkur á því að þau verði gerendur ofbeldis.“
Stofnunin listar svo upp hvernig beri að bregðast við vandanum og þú getur séð þýðingu á tilmælunum í greininni Harkaðu af þér! (3).
Varðandi rannsóknir þá höfum við póstað ýmsu efni á Facebook og þar á meðal rannsóknum sem þú finnur með nánari skoðun á síðunni. Einnig er mjög ítarleg heimildaskrá með áðurnefndu upplýsingablaði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
Við sækjum upplýsingar okkar almennt til viðurkenndra aðila eins og alþjóðastofnana, ráðuneyta og háskóla sem við metum sem áreiðanlegar heimildir. Við höfum ekki verið að skoða ákveðnar tegundir rannsókna heldur treystum við því að þær upplýsingar sem fram koma í gögnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, velferðarráðuneytis og fleiri stofnana séu byggðar á traustum rannsóknum og upplýsingum. Með því að gúggla „epidemiological research on ptsd and alcoholism women“ koma t.d. upp 393.000 niðurstöður sem bendir til þess að víða sé hægt að finna efni um áfallastreituröskun og alkóhólisma. Ég sé líka að fyrstu skjölin virðast vera frá frá stjórnvöldum, opinberum stofnunum, háskólum eða öðrum áreiðanlegum aðilum.
Ástralir virðast hafa verið duglegir að rannsaka samband áfengis og áfalla/ofbeldis og hér er t.d. skýrsla stjórnvalda þar í landi (National Drug & Alcohol Research Centre) (4) sem byggir á ítarlegum rannsóknum, m.a. faraldsfræðilegum (sjá t.d. Dr. Catherine Mills: (5)) þar sem m.a. segir að mikil áhersla hafi verið á það hingað til að finna út hvaða röskun eða sjúkdómur komi fyrst fram þegar um fjölkvilla (e. comorbid) er að ræða. Jafnframt segir að rannsóknum beri ekki saman um það í hvaða röð sjúkdómar koma fram:
„Rannsóknargögn um það í hvaða röð raskanir/sjúkdómar koma fram eru ekki samdóma. En svo virðist þó sem félagsfælni, sérstök fælni, víðáttufælni og áfallastreituröskun (e. PTSD) komi á undan áfengis- og vímuefnamisnotkun (e. AOD use disorder) í flestum tilfellum; almenn kvíðaröskun(e. GAD) virðist hins vegar koma fram á eftir áfengis- og vímuefnamisnotkun.“
Þá má benda á Stephanie Covington sem hefur í áratugi rannsakað konur með fíknivanda, og er t.d. höfundur bókarinnar A Womans Way Through the Twelve Steps. Hún hefur skrifað mikið um tráma, konur og fíkn, t.d. þessa grein: Working with Substance Abusing Mothers (6). Við höfum líka oft bent á að Hazelden meðferðarstöðin hefur boðið upp á kynjaskipta meðferð síðan 1956 og nefnir stofnunin sína meðferð „addiction and trauma treatment“.
Í rannsókn á áhrifum meðferðar vegna fjölkvilla (7) kemur fram að áfallameðferð virkar vel fyrir fólk með fíknivanda en fíknimeðferð virkar hins vegar ekki á áfallavandann. Þessar niðurstöður stangast á við það sem hingað til hefur verið haldið fram að fyrst þurfi að vinna með fíknivandann og taka síðan á öðrum vanda síðar. Þessi rannsókn bendir til þess að áfallastreitumeðferð bæti gæði áfengismeðferðar. Að lokum bendi ég á þessar ráðleggingar um vímuefnameðferð kvenna: Substance Abuse Treatment. Addressing the Specific Needs of Women (8) þar sem margt forvitnilegt er að finna.
Rótin hefur hvergi haldið því fram að „áfengissýki kvenna orsakist af stórum hluta af áföllum“, eins og segir í spurningu þinni. Við erum meðvitaðar um það að fíknivandi er flókinn og margþættur vandi þar sem saman fara sálræn, líkamleg og atferlisleg einkenni. Það eru margir þættir sem spila inn í þróun hans og ekki einhugur á meðal fræðimanna og stofnana um orsakir hans eða skilgreiningar. Við teljum hins vegar að of lítil áhersla hafi verið hér á landi á þætti sem snúa að félagslegum þáttum alkóhólisma og einnig er mjög lítið um rannsóknir á fíknivanda kvenna almennt.
Við höfum hins vegar haldið því fram að áföll hafi áhrif á þróun alkóhólisma og að konur séu þar í miklu meiri hættu en karlar. Konur verða almennt fyrir miklu meira ofbeldi en karlar og ofbeldi, sérstaklega kynferðisofbeldi, er stærsti áhættuþátturinn varðandi áfallastreituröskun.
Rannsóknir sýna líka að börn sem verða fyrir kynferðisofbeldi eru í miklu meiri hættu en aðrir á að fara út í misnotkun vímugjafa. Við höfum m.a. bent á skýrslu UNICEF frá því í vor til að varpa ljósi á það samhengi. (9).
Í þeim gögnum sem við höfum verið að skoða er almennt álitið að skoða þurfi betur samband áfalla og áfengis- og vímuefnavanda og að það vanti mikið upp á rannsóknir á sérstökum vandamálum kvenna. Þetta kemur m.a. fram í grein í Harvard Mental Health Letter (10) um konur og fíkn þar sem þrjú lykilatriði greinarinnar eru að:
- Hefðbundin meðferð við fíknisjúkdómum hafi verið þróuð með rannsóknum á karlmönnum.
- Hjá konum þróast læknisfræðilegar og félagslegar afleiðingar fíknar hraðar en körlum, þær eiga erfiðara með að hætta og eru í meiri fallhættu.
- Þessi kynjamunur hefur áhrif í meðferð en rannsóknir á því hvernig á að bæta árangur eru ennþá á byrjunarreit.
Niðurstaða okkar er sú að mikið vanti upp á að kynjasjónarmið séu tekin til skoðunar í meðferð SÁÁ og, þó að verið sé að gera margt gott í kvennameðferð SÁÁ, þá er ekki áhugi innan samtakanna á því að skoða hlutina út frá kynjasjónarmiðum nema að mjög takmörkuðu leyti. Ekkert virkt jafnréttisstarf er innan samtakanna og á meðan svo er kemur það niður á meðferðarstarfi þeirra af því að það er eins með jafnréttið og edrúlífið; ekkert gerist án framkvæmda. Þórarinn Tyrfingsson benti á það sjálfur á samtalskvöldi um konur og alkóhólisma í Von vorið 2012 að meðferðin væri öll samin af körlum og að komið væri að konum að axla ábyrgð. Þegar á reyndi voru samtökin ekki tilbúin í alvöru sjálfskoðun hvað þetta varðar, eins og þér er kannski kunnugt um, og því var ekki annað fyrir okkur, sem stofnuðum Kvenfélag SÁÁ, að gera en að finna annan starfsgrundvöll til að reyna að hafa jákvæð áhrif á þróun meðferðarmála hér á landi.
2. Hvaða rannsókn leggið þið til grundvallar að telja að nærvera karlmanna í upphafi meðferðar skipti klínísku máli að minnka batalíkur kvenna og því þurfi að kynjaskipta að öllu meðferð?
Við teljum að sú afstaða sem kemur aftur og aftur fram í máli forsvarsmanna SÁÁ gagnvart áhrifum áfalla á fíknivanda sé til vitnis um skeytingarleysi gagnvart þeim stóra hópi fórnarlamba ofbeldis og áfalla sem koma til meðferðar hjá samtökunum. Jafnframt er þessi afstaða í andstöðu við fyrrgreinda stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og fyrirmæli velferðarráðherra um að meðhöndla eigi afleiðingar ofbeldis samhliða fíknivanda. Hún stangast líka á við reynslu fjölda kvenna, sem hafa farið í meðferð, sem ekki hafa fengið viðeigandi svör og viðbrögð þegar þær hafa opnað á erfið mál.
Við höfum talað við konur sem hafa fengið þau svör hjá ráðgjöfum að þær séu „að mikla hlutina fyrir sér“. Við höfum hlustað á sögur kvenna sem hafa lent í áreiti í meðferð, sem hefur haft mjög slæm áhrif á þær og batagöngu þeirra, og við höfum heyrt að það sé ekki tekið á slíkum tilvikum af nærgætni og fagmennsku í meðferðinni. Margar konur upplifa það því að ekki sé tekið mark á þeim. Við höfum líka heyrt um ungar stúlkur sem reknar eru úr meðferð vegna þess að þær lenda í kynferðissambandi í meðferðinni. Við þekkjum líka sögur um konur sem kvarta yfir áreiti og fá þau viðbrögð að þær eru spurðar hvort að þær vilji eyðileggja meðferðina fyrir körlunum sem eru að áreita þær. Í allt of mörgum sögum sem við heyrum sitja svo konurnar uppi með ábyrgðina á ofbeldi og áreiti sem þær verða fyrir.
Við trúum þessum konum og teljum fulla ástæðu til að bregðast við umkvörtunum þeirra. Allt þetta væri hægt að losna við með því að kynjaskipta meðferðinni. Við höfum hvergi haldið því fram að nærvera karla útaf fyrir sig sé hættuleg konum í meðferð en fyrir þær konur sem eiga sögu um ofbeldi getur verið mjög truflandi að vera í blandaðri meðferð, jafnvel með mönnum sem hafa beitt viðkomandi ofbeldi.
3. Af hverju fjallið þið svona lítið um kvennameðferð SÁÁ, talið eins og það sé ekki til sérstök meðferð fyrir konur hjá SÁÁ.
Því fer fjarri að við höfum talað eins og ekki sé nein kvennameðferð hjá SÁÁ. Hins vegar höfum við bent á meðferðin er ekki kynjaskipt og að í henni er ekki verið að takast á við afleiðingar áfalla eða vinna með þá staðreynd að stærsti hluti kvenna sem kemur til meðferðar á sér ofbeldissögu. Á Vík eru t.d. líka karlmenn, sem þýðir að eina kynjaskipta meðferðin sem SÁÁ er með er á Staðarfelli þar sem eingöngu eru karlar. Það má líka benda á að þó að við séum að tala fyrir konur þá teljum við almennt gott að vera með kynjamiðaða meðferð, líka fyrir karlana. Það er ekki síður mikilvægt fyrir þá að í boði sé meðferð sem tekur tillit til þekkingar á ofbeldishegðun, þar sem að karlar með fíknivanda eru mun líklegri til að beita ofbeldi en aðrir karlar.
Til er heilmikil þekking á afleiðingum ofbeldis, áhrifum þess á líðan fórnarlamba og batalíkur, sem lítill áhugi virðist vera að kynna sér innan SÁÁ. Kynjaskipting er ekki lausn út af fyrir sig heldur er hún hluti af því að viðurkenna það að stór hluti ykkar skjólstæðinga er í óheppilegum valdatengslasamböndum sem hafa áhrif á bata. Þeir sem hafa upplifað ofbeldi eru oft mjög viðkvæmir fyrir hverskyns valdbeitingu og eitt tilvik þar sem ung kona kemst í samband við ofbeldismann í meðferð með alvarlegum afleiðingum ætti að vera nóg til að vekja spurningar um núverandi fyrirkomulag. Hvernig metum við fórnarkostnaðinn af slíkum atvikum?
Oft er sagt að alkóhólismi sé líkamlegur, félagslegur og andlegur sjúkdómur og það má segja að Rótin hafi einbeitt sér að hinum félagslega þætti hans. Við höfum trú á því að það séu mjög mikil sóknarfæri í því að bæta meðferð við fíknivanda og ná fyrr til fleiri kvenna, og karla líka, með því að skoða hann á heildrænni hátt og ekki út frá jafnt þröngt skilgreindu sjúkdómshugtaki og okkur sýnist að hafi verið línan í meðferðarfræðum hér á landi til skamms tíma.
Við vitum ekki til þess að neitt mark hafi verið tekið á okkar gagnýni innan SÁÁ. Það var allavega ekki gert á meðan við vorum þar innanborðs og við fengum engin viðbrögð við bréfi sem við sendum á stjórn samtakanna áður en við yfirgáfum félagið. Almennt má segja að samskipti okkar við yfirstjórn SÁÁ hafi einkennst af undirskipun okkar. Við áttum að taka við skipunum að ofan en ekki var raunveruleg samræða í gangi. Svo virtist sem á okkur væri litið sem börn, sem þyrftu föðurlega leiðbeiningu, en ekki fullfærar manneskjur.
Við vitum að það er verið að gera marga góða hluti víða. Við höfum séð á umræðukvöldunum okkar að það er fullt af fólki með þekkingu og áhuga að vinna að bættri meðferð og stöðu fólks í fíknivanda. Við erum ungt félag og eigum margt ógert en við teljum að okkur hafi tekist vel að standa undir því markmiði félagsins að halda uppi umræðu. Við erum ekki með eina endanlega lausn en við viljum sjá opnari umræðu um málaflokkinn og við viljum stuðla að því að rannsóknir fari fram hér á landi á fíknivanda kvenna. Enn er mörgum spurningum ósvarað.
Okkur er alveg sama hvort að fólk skilgreinir áfengisvandann sem undanfara eða afleiðingu tilfinningalegs vanda og áfalla, bara ef tekið er á honum samkvæmt nýjustu og bestu þekkingu og af virðingu við hvern og einn einstakling sem leitar sér meðferðar.
Bestu kveðjur f.h. ráðs Rótarinnar,
Kristín I. Pálsdóttir
Heimildir:
- Skýrsla velferðarráðherra um aðgerðir samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum. 2010-2011. Sjá: http://www.althingi.is/altext/139/s/pdf/1214.pdf.
- Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin. 2011. Intimate Partner Violence and Alcohol Fact Sheet. Vefslóð: http://www.who.int/violence_injury_prevention/violence/world_report/factsheets/ft_intimate.pdf.
- Halla Sverrisdóttir og Kristín I. Pálsdóttir. 2013. Harkaðu af þér! á vefritinu Knúz, sjá fyrri hluti: http://knuz.is/2013/11/21/harkadu-af-ther-fyrri-hluti/ og seinni hluti: http://knuz.is/2013/11/22/harkadu-af-ther-seinni-hluti/.
- National Drug & Alcohol Research Centre. Guidelines on the management of co-occurring alcohol and other drug and mental health conditions in alcohol and other drug treatment settings (National Comorbidity Clinical Guidelines). Sjá: http://ndarc.med.unsw.edu.au/sites/default/files/ndarc/resources/Ch2.pdf.
- Catherine Mills: http://ndarc.med.unsw.edu.au/people/dr-katherine-mills.
- Stephanie Covington. 2007. Working with Substance Abusing Mothers. A Trauma-Informed, Gender-Responsive Approach. Sjá: http://www.stephaniecovington.com/pdfs/Final%20Source%20article.pdf.
- NCBI. 2010. Multi-site randomized trial of behavioral interventions for women with co-occurring PTSD and substance use disorders. Sjá: http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2795638/#!po=38.6364.
- NCBI. 2009. Substance Abuse Treatment: Addressing the Specific Needs of Women. Sjá: http://www.ncbi.nlm.nih.gov/books/NBK83252/.
- Unicef. 2013. Réttindi barna á Íslandi: Ofbeldi og forvarnir. Sjá: http://unicef.is/rettindibarna/UNICEF_Rettindi_barna_ofbeldi_og_forvarnir.pdf.
- Harvard Health Publications. 2010. Addiction in women. Sjá: http://www.health.harvard.edu/newsletters/Harvard_Mental_Health_Letter/2010/January/addiction-in-women.