20. febrúar 2014
Fréttatilkynning
Móðir ungrar konu sem glímir við áfengis- og vímuefnafíkn auk annarra geðrænna erfiðleika leitaði til Rótarinnar eftir að dóttir hennar lenti í atviki inni á afvötnunarsjúkrahúsinu Vogi. Móðirin taldi að sú meðferð sem dóttir hennar fékk á sjúkrahúsinu hafi ekki verið í samræmi við gæðakröfur sem gera má til sjúkrahúsa né í samræmi við lýsingar á starfsemi á heimasíðu rekstraraðila sjúkrahússins (sjá: http://www.saa.is/islenski-vefurinn/medferd/fyrir-unglinga/). Í kjölfarið sendi móðirin spurningalista til Embættis landlæknis um vinnuferli á sjúkrahúsinu. Í erindi hennar er m.a. spurt:
- Hvort að Vogur hafi mótað sér stefnu um hvort sjúkrastofnunin sé í stakk búið til að huga að ungmennum sem eru með geðraskanir?
- Til hvaða aðgerða er gripið vegna ungmenna sem greind eru með geðraskanir, sem eru óháðar neyslu.
- Hvort að kallaður sé til læknir fari sjúklingur í þannig geðrænt ástand ,að starfsmenn, sjá sér ekki fært að sinna honum.
Til að fylgja erindi móðurinnar eftir ákvað Rótin einnig að senda erindi til Embættis landlæknis. Í erindi Rótarinnar, sem er í níu liðum, er óskað eftir upplýsingum er varða gæðamál á meðferðarstöðvum á árunum 2009-2013. M.a. er óskað eftir:
- Lista yfir stofnanir/aðila sem veittu fíknimeðferð/afvötnun, hversu mörg atvik umræddar stofnanir/aðilar skráðu á tímabilinu.
- Upplýsingum um hvernig Embætti landlæknis brást við þeim atvikum sem upp komu, hvernig eftirfylgni embættisins er háttað og hvaða árangur hún bar.
- Upplýsingum hvernig viðkomandi stofnanir/aðilar brugðust við þeim atvikum sem upp komu og hversu margar kvartanir bárust Embætti landlæknis á tímabilinu í heild vegna stofnana/aðila sem veita fíknimeðferð/afvötnun.
- Upplýsingum um hvort að breyting hafi orðið á flokkun atvika og hvernig Embætti landlæknis háttar gæðaeftirliti sínu með stofnunum/aðilum sem veita fíknimeðferð/afvötnun?
Í viðhengi er:
1. Erindi Rótarinnar til Embættis landlæknis dags. 14. febrúar 2014
2. Útdráttur úr fyrirspurn móðurinnar til Embættis landlæknis