Rótin tekur heilshugar undir þá kröfu foreldra Heklu Lindar Jónsdóttur að lærdómur verði dreginn af aðstæðum við andlát hennar og gerðar verði nauðsynlegar breytingar á verklagsreglum Lögreglu og Neyðarlínu.
Ungt fólk með vímuefnavanda á Íslandi býr við algjörlega ófullnægjandi úrræði og stuðning til að losna út úr sjálfskaðandi hegðunarmynstri og saga Heklu Lindar þarf að verða stjórnvöldum hvatning til að bretta upp ermar og gera stórátak í því að bæta þjónustu við þennan berskjaldaða hóp. Hluti af því átaki þarf að felast í faglegri stefnumótun, að stórauka fræðslu og þjálfun í heilbrigðis- og réttarkerfi, markviss vinna gegn fordómum og aukin þekking á réttum viðbrögðum, t.d. við því þegar ung manneskja lendir í geðrofi vegna neyslu.
Rótin undrast það mikla afl sem fílefldir lögregluþjónar hafa beitt við handtöku Heklu Lindar sem var lítil og nett og varla verið ógn við nokkurn mann nema sjálfa sig í því ástandi sem hún var í við handtökuna. Þá er það stórkostlegt undrunarefni að það sé „mat sérfræðinga“ að þær aðferðir sem notaðar voru við handtökuna og áttu að mati réttarmeinafræðings „umtalsverðan þátt í dauða Heklu“ séu „viðurkenndar aðferðir“. Ef svo er þá er full ástæða til að endurmeta hvað er „viðurkennd aðferð“ við handtöku fólks í geðrofi.
Þá vekja þau orð aðstoðarframkvæmdastjóra Neyðarlínunnar furðu að sjúkraflutningamenn séu ekki kallaðir á vettvang ef fólk veikist í „miklu partýstandi og miklum æsingi frá mörgum“. Það hlýtur að að vera hægt að senda báða aðila á vettvang í slíkum tilvikum enda hefur fólk í partýum full mannréttindi og rétt til heilbrigðisþjónustu og er brýnt að endurskoða verklag sem skiptir fólki þannig upp í forgangshópa.
Atvikið minnir á annað atvik þegar mjög ölvuð kona var handtekin með ofurafli á Laugavegi árið 2013 en þá var því borið við að um svokallaða norska handtökutækni væri að ræða og hún væri lögleg og samþykkt af stjórnvöldum! (Sjá: https://www.rotin.is/ekki-hlutverk-logreglunnar-ad-refsa-folki-erindi-vegna-handtoku/). Lögreglumaður var svo síðar dæmdur fyrir að hafa „farið offorsi við handtökuna“. (Sjá: https://www.visir.is/g/2014141219744).
Þegar litið er til þriðja málsins þar sem kona varð næstum úti, vegna sinnuleysis viðbragðsaðila, eftir að hafa upplýst Neyðarlínuna um að hún hefði drukkið áfengi áður en hún datt og missti meðvitund birtist mynstur sem bendir til þess að meðalhófs og sanngirni sé ekki gætt þegar Lögregla og Neyðarlínan meðhöndla fólk sem er undir áhrifum vímuefna. (Sjá: https://www.ruv.is/frett/missir-ekki-mannrettindi-vid-afengisneyslu).
Allt sem hér er rakið hnígur að því að tími sé til kominn að verklagsreglum Lögreglunnar og Neyðarlínunnar verði breytt til að þær þjóni öllum þegnum án mismununar hvort sem þeir eru í partýi eður ei.
F.h. Rótarinnar – félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda
Kristín I. Pálsdóttir, talskona