0
Karfan þín

Rótin valin til þátttöku í Snjallræði

Rótin var eitt þeirra átta vinningsteyma sem valin voru til þátttöku í samfélagshraðlinum Snjallræði sem kynnt voru 10. október 2019. Teymin fengu stuðning til þess að þróa áfram hugmyndir sínar. Alls bárust 46 umsóknir um þátttöku í Snjallræði en að hraðlinum stóðu Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Höfði – friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóli Íslands með það að markmiði að veita fólki sem brennur fyrir bættu samfélagi vettvang til þess að þróa hugmyndir sínar áfram og finna þeim sjálfbæran farveg svo þær geti blómstrað og dafnað.

Hraðalinn fór fram frá 7. október-28. nóvember og fengu teymin  vinnuaðstöðu í Setri skapandi greina við Hlemm, stuðning við að þróa hugmyndina áfram og koma henni í framkvæmd ásamt þjálfun frá fremstu sérfræðingum á sviði samfélagslegrar nýsköpunar og aðgangi að neti mentora sem styðja við einstök verkefni. Hluti af ferlinu var vikuvinna undir handleiðslu Svöfu Grönfeldt og samstarfsfélaga hennar frá MIT DesignX í svokölluðum Sprett. Þar sannreyndu teymin hugmyndir sínar og krufu þær til mergjar í krefjandi vinnustofum sem byggðar voru á fjórum grunnstoðum MIT DesignX: Understand – Solve – Envision – Scale. Spretturinn var styrktur af MIT Industrial Liaison Program (ILP) í gegnum samstarf Háskólans í Reykjavík við Snjallræði.

Markmið Rótarinnar í verkefninu var að undirbúa stuðningssetur fyrir konur og koma samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð fyrir konur, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. vinnu. Í ferlinu var ákveðið að kalla þjónustuna Ástuhús. Í Ástuhúsi verður boðið upp á margvíslega þjónustu og meðferð og einnig verður konum vísað í þau úrræði sem fyrir eru í samfélaginu þegar við á. Markmið þjónustunnar er öryggi, nærgætni og skaðaminnkun ásamt stuðningi við konur til að endurheimta styrk sinn og sjálfstæði. Auk áherslu á að styrkja konurnar til sjálfshjálpar og sjálfstæðis er ætlunin að huga sérstaklega að samspili fíknar og heimilisofbeldis. Hér má sjá kynningu Rótarinnar á Ástuhúsi á lokahátíð Snjallræðis.

DEILA: