0
Karfan þín

Vímuefnavandi og hugleiðingar um hlutverk RÚV sem útvarps í almannaþjónustu

Hér glittir í dr. Nancy Poole

Rótin sendi eftirfarandi hugleiðingu á Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóra, í dag. 2. mars 2019.

Hér koma hugleiðingar um viðbragðaleysi RÚV við ráðstefnu sem Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum, Rótin, Jafnréttisskóli Háskóla SÞ og Jafnréttisstofa héldu í vikunni undir yfirskriftinni „Drögum kynjatjöldin frá: Til móts við kynjaða heildarsýn á áföll og fíkn“. Á ráðstefnuna komu sérfræðingar í fremstu röð á heimsvísu frá Kanada, Írlandi, Finnlandi og Belgíu.

Svandís Svavarsdóttir ávarpaði ráðstefnuna í upphafi þar sem hún boðaði framsæknar breytingar í málaflokknum. Erlendu gestirnir höfðu á orði hversu framsækin og metnaðarfull ræða hennar hefði verið. Heilbrigðisráðuneytið stefnir greinilega að því að skapa kerfi sem tekur tillit til þeirra kollhnísa sem átt hafa sér stað í samfélaginu á undanförnum árum, #metoo-byltingarinnar, kröfu kvenna um bætt úrræði í ofbeldismálum, betri meðferðarúrræði, ekki síst fyrir ungt fólk, uppbyggingu heildstæðra úrræða eins og Bjarkarhlíðar til að stuðla að öryggi kvenna, barna og annarra þolenda ofbeldis, og þeirri staðreynd að núorðið er viðurkennt að ofbeldi og önnur persónuleg áföll eru stórt heilbrigðisvandamál sem skoða þarf í víðu samhengi.

Bæði aðstandendur ráðstefnunnar og upptendraðir gestir gerðu tilraunir til að vekja athygli RÚV á henni en að því undanskildu að við Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor og einn fyrirlesara ráðstefnunnar, vorum boðnar í Mannlega þáttinn á þriðjudag, fjallaði RÚV ekki einu orði um ráðstefnuna, svo mér sé kunnugt, né vildi nýta sér tækifærið til að tala við þessa sérfræðinga sem með víðtækri þekkingu, öflugum úrræðabanka og gríðarlegri yfirsýn færðu mörk hins mögulega í hugum ráðstefnugesta, sem flestir voru fagfólk úr heilbrigðis-, velferðarkerfi og stjórnsýslu.

Í morgun gerði ég lokatilraun og talaði við vakt fréttastofu þar sem enn var tækifæri til að tala við þær Nancy Poole og Söruh Morton sem fara í fyrramálið af landi brott. Vaktstjóri talaði um að svona fólk eins og ég væri alltaf að reyna að koma einhverju að og því miður væri ekki hægt að verða við því. Ég spurði þá hvort að væri einhver hjá RÚV hefði sérþekkingu á heilbrigðis- geðheilbrigðis- og vímuefnastefnu sem mögulega gæti metið fréttagildi þessa viðburðar, en hann sagði það ekki vera. Ég benti honum á að þetta væri þekking sem ekki er til staðar á Íslandi, nema að litlu leyti, og hversu takmarkaður fréttaflutningur í þessum málaflokki er hjá stofnuninni og tilhneiging til að velja viðmælendur með ákveðna rörsýn til að tjá sig um málefnið, án þess að ég vildi fara að nefna nöfn, enda snýst þessi umræða um framtíðarsýn en ekki áhorf í baksýnisspegil.

Forvarnir, stefnumótun, vímuefnaúrræði og annað er tengist málaflokknum er reglulega hér til umræðu en flestar fréttirnar fjalla um fjárskort eins aðila í þjónustu við fólk með vímuefnavanda eða jafnvel tilfinningaknúna umræðu um einstaklinga, jafnvel á siðferðilega vafasaman hátt.

Nú var tækifæri til að víkka sjónarhornið og tala við sérfræðinga með gríðarlega alhliða reynslu í málaflokknum. RÚV sýndi slíkri umfjöllun algjört áhugaleysi og er umhugsunarefni af hverju slíkur doði gagnvart brýnu samfélagsmálefni sem brennur á fólki í dag stafar. Er þar þekkingarskorti um að kenna eða er hreinlega verið að þagga niður umfjöllun sem ekki fellur að þeim viðhorfum sem hafa verið ríkjandi hér á land? Aðrar skýringar koma mér ekki í hug. Slíkt fréttamat stangast bæði á við jafnréttiskröfu samtímans og almannahagsmunahlutverk RÚV að okkar mati.

Þetta bréf er ekki skrifað til að etja þér sem útvarpsstjóra í að skipa fréttamönnum fyrir verkum, ljóst er að það er ekki þitt hlutverk, enda er skipið siglt. Hins vegar vonast ég til að bréfið geti orðið til þess að vekja starfsmenn RÚV til umhugsunar um hlutverk sitt sem útvarp í almannaþjónustu í þessum málaflokki og hvatt til þess að umfjöllun stofunarinnar taki mið af bestu og nýjustu þekkingu í málaflokknum.

„Það er árið 2015“, sagði forsætisráðherra Kanada þegar hann var spurður hvers vegna helmingur ráðuneytis hans væri konur. Við minnum að sama skapi á að það er árið 2019 málefnum fólks með vímuefnavanda og víð sýn á vanda þessa hóps er krafa samtímans en ekki þröng og umdeild sýn á vímuefnavanda sem heilasjúkdóm.

Virðingarfyllst,

f.h. Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir, talskona

GSM 8939327

 

Um lykilfyrirlesara ráðstefnunnar:

Dr. Nancy Poole, er forstöðukona British Columbia Centre of Excellence for Women‘s Health, þar sem starfa 50 sérfræðingar við rannsóknir á vímuefnavanda, áfallafræða, ofbeldisvarna, ráðgjöf við stefnumótun og uppbyggingu meðferðarúrræða og aðra þekkingaruppbyggingu á heilsu kvenna og stúlkna. Eða eins og segir á vef þeirra:

The mission of the Centre of Excellence for Women’s Health (CEWH) is to improve the health of women by fostering multidisciplinary and action-oriented research on girls’ and women’s health and to introduce sex and gender into all health research. The CEWH pays particular attention to research and knowledge exchange that will improve the health status of girls and women who face health inequities due to socioeconomic status, race, culture, age, sexual orientation, geography, disability and/or addiction.

We specialize in bringing evidence to practice and policy in health and social services. We generate and synthesize knowledge about health and create innovative knowledge products to close the loop between research and action. We develop gender-transformative practice and policy in partnership with researchers, health and social service practitioners, health system planners and community-based health advocates.

Nancy er með fulla verkfærakistu til að deila með þeim sem starfa að stefnumótun, uppbyggingu meðferðarúrræða, við skaðaminnkun, við forvarnir vegna vímuefnavanda og ofbeldis, í velferðarþjónustunni og heilbrigðiskerfinu.

Dr. Sarah Morton er lektor við University College Dublin þar sem hún leiðir m.a. Community Partnership Drugs Programme, hefur þróað nám um konur og vímuefnavanda, situr í stjórn stærstu meðferðarstofnunar Írlands, hefur leitt breytingar er varða stefnumótun, enduruppbyggingu meðferðarúrræða og var þróunarstjóri Safe Ireland í 10 ár, sem eru landsamtök um öryggi kvenna og barna, ásamt ráðgjöf við félagasamtök, sveitarfélög og stjórnvöld í málum er varða vímuefni, ofbeldi og samslátt þessara vandamála.

Elizabeth Ettorre, prófessor emerita við Liverpool-háskóla, er einn virtasti fræðimaður Evrópu á sviði kynjafræða vímuefnavandans og starfaði við rannsóknir á honum alla sína starfsævi og hefur ritað fjölda bóka um efnið meðal annars bókina „Gendering Addiction“, með Nancy Campbell, þar sem hinir kynjuðu þættir fíknar eru kortlagðir með ítarlegri rannsókn á þróun fíknimeðferðar í Bandaríkjunum og Bretlandi á 20. öld. Í bók hennar og Campbell er nálgun á fíknivanda kvenna greind í tvær nálganir þar sem sú stefna sem hér hefur verið ríkjandi er flokkast undir „classical approach“, þ.e. heilasjúkdómskenningin um fíkn, einstaklingsbundnar skýringar á neysluvanda og kynjablinda. Hina nálgunina kallar hún „postmodern approach“ þar sem tekist er á við félagslegan fjölbreytileika sem byggir á stétt, kyni, þjóðerni og hæfni (ens: ability). Elizabeth hélt fræðilegan inngangsfyrirlestur ráðstefnunnar.

 

 

 

DEILA: