Rótin býður nú upp á námskeið fyrir konur sem upplifað hafa fjölskylduslit í kjölfar þess að hafa opnað umræðu um ofbeldi í skjóli fjölskyldu. Námskeiðið hefst miðvikudaginn 8. maí en kynningarfundur verður haldinn 9. apríl kl. 20 í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg.
Fyrir hverjar?
Námskeiðið er fyrir konur sem hafa upplifað fjölskylduslit eftir að hafa sagt frá ofbeldi sem átt hefur sér stað í skjóli fjölskyldu, hvort heldur er í kjölfar sifjaspells, kynferðisofbeldis, líkamlegs eða andlegs ofbeldis.
Markmið
Markmið námskeiðsins er að konur sem hafa upplifað fjölskylduslit, vegna þess að þær hafi sagt frá ofbeldi í skjóli fjölskyldu sinnar, finni fyrir þeim krafti sem býr innra með þeim og stuðningi hver frá annarri til þess að m.a. að létta á skömm og sektarkennd. Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist betri þekkingu og skilning á aðstæðum sínum.
Aðferð
Námskeiðið byggist annars vegar á fræðilegum kenningum og rannsóknum og hins vegar á reynslu þátttakenda í ljósi fræðanna. Farið verður yfir söguna eins og þátttakendur eru tilbúnir að segja frá henni. Styrkleikar þátttakenda eru kortlagðir og við deilum reynslu okkar, styrk og seiglu. Rætt verður um afleiðingar þess að hafa orðið fyrir ofbeldi í skjóli fjölskyldu sinnar og þeirra sem við treystum, skömm og sektarkennd og um hvaða áhrif það hefur að upplifa höfnun af hendi fjölskyldumeðlima. Þá er fjallað um fyrirgefningarhugtakið en stundum er krafan um fyrirgefningu notuð til að stjórna þolendum. Að lokum er fjallað um leiðina til bata að tilgangsríku lífi í sátt við okkur sjálfar.
Skipulag
Námskeiðið eru 4 skipti, 90 mínútur í senn og er haldið klukkan 17.15–18.45 miðvikudagana 8., 15., 22. og 29. maí í Bjarkarhlíð við Bústaðarveg. Þátttökugjald er 27.000 kr. Sérstakur kynningarfundur verður þriðjudaginn í Bjarkarhlíð, 9. apríl kl. 20, og boðið verður upp á framhald næsta haust.
Leiðbeinendur
Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Katrín G. Alfreðsdóttir, þær sitja báðar í ráði Rótarinnar.
Guðrún Ebba Ólafsdóttir er kennari og með diplóma í starfstengdri leiðsögn. Saga hennar, Ekki líta undan kom út 2011. Guðrún Ebba sat í stjórn Blátt áfram og stofnaði ásamt fleiri konum Drekaslóð og Rótina. Hún hefur leitt hópa fyrir Stígamót og Drekaslóð.
Katrín Alfreðsdóttir er félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og ProfCert í konum og vímuefnanotkun. Katrín er einnig EMDR meðferðaraðili og rekur Vegvísi, ráðgjafarstofu í Hafnarfirði.