Rótin lýsir miklum áhyggjum af þróun meðferðarmála í landinu í ljósi þeirra atburða sem nú eru að gerast innan SÁÁ, ekki síst með tilliti til aðstæðna í samfélaginu.
Til margra ára ríkti stöðnun í meðferðargeiranum hér á landi þar sem SÁÁ var allsráðandi með hið svokallaða „íslenska módel“. Landspítalinn breytti sinni nálgun í samræmi við nýjustu þekkingu upp úr aldamótum og fór að leggja áherslu á dag- og göngudeildarþjónustu og sálfræðilega meðferð.[1]
Gæðastarf og stefnumótun hjá SÁÁ fékk falleinkunn í hlutaúttekt Embættis landlæknis árið 2016. Bent var á að engin gögn væru til um árangur meðferðarinnar og engar þjónustukannanir.[2] Á sama tíma var félagið í stórtækum framkvæmdum á Vík með áherslu á inniliggjandi meðferð eftir gamla meðferðarlíkaninu sem að mestu er í höndum áfengis- og vímuefnaráðgjafa með litla menntun.[3] Erlendar rannsóknir sýni hins vegar að ekki er betri árangur af inniliggjandi meðferð en af dag- og göngudeildarmeðferð [4] og að fráhvarfsmeðferð, eins og hún hefur verið stunduð, sé ekki sérstaklega árangursrík aðferð heldur. [5]
Eftir að Rótin hóf sína baráttu hafa orðið ýmsar jákvæðar breytingar hjá SÁÁ, ekki síst eftir að Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir, og Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur, tóku við stjórnartaumunum á Vogi. Unnið hefur verið að aukinni fagmennsku í meðferðinni, kynjaskiptingu og innleiðingu áfallamiðaðrar nálgunar og aukinnar faglegrar þjónustu eins og sálfræðiþjónustu. Allt eru þetta skref í rétta átt.
Forsvarsmenn SÁÁ þreytast ekki á að hamra á því að fíknivandi sé „krónískur læknisfræðilegur sjúkdómur eins og hjartasjúkdómar og sykursýki“[6] það skýtur því verulega skökku við, og lýsir mikilli rörsýn á nútíma heilbrigðisþjónustu, að sjá Arnþór Jónsson, formann þessara stóru almannasamtaka, kvarta undan auknum faglegum metnaði og áherslum hjá forstjóra sjúkrahússins Vogs:
„Undanfarin ár hefur rekstrarkostnaður á meðferðarsviði SÁÁ vaxið mjög. Kostnaður fer upp þótt afköst þjónustunnar standi í stað eða minnki jafnvel og ástæðan er ráðningar háskólamenntaðs starfsfólks til að mæta faglegum áherslum forstjóra sjúkrahússins Vogs“.[7]
Formanni SÁÁ finnst sárt að segja upp körlum sem komnir eru á eftirlaunaaldur á meðan honum er það sársaukalaust að reka fagfólk eins og sálfræðinga. Þá er spurning hvort að ríkið þurfi ekki að endurskoða samninga við SÁÁ ef rétt reynist að þar sé kveðið á um að greiða fyrir vinnu áfengis- og vímuefnaráðgjafa en ekki háskólamenntaðs fagfólks:
„Öflugu starfsfólki sem var komið á aldur var einnig sagt upp, þar á meðal Þórarni Tyrfingssyni, fyrrverandi yfirlækni á Vogi og formanni SÁÁ. „Það var mjög sárt líka. Þetta voru menn með áratuga reynslu, kunnáttu og þekkingu. Það er mjög vont að missa þá,“ segir Arnþór og bætir við að ríkið borgi ekkert fyrir sálfræðiþjónustuna sem er veitt hjá SÁÁ. Hún sé öll í boði samtakanna og því kostnaðarsöm.“[8]
Rótin skorar á yfirvöld að tryggja að fólk sem notar vímuefni fái faglega þjónustu sem byggir á gagnreyndri þekkingu samkvæmt tilmælum alþjóðastofnana og tekur undir með þeim sem fordæma vinnuaðferðir framkvæmdastjórnar og formanns SÁÁ.
Rótin, sem býr yfir sérþekkingu á vímuefnavanda kvenna, er með útfærðar hugmyndir um þjónustu við konur með áfallasögu og/eða vímuefnavanda og áréttar að við erum tilbúnar til að leggja okkar af mörkum við uppbyggingu þjónustu við þennan hóp.
Heimildir:
[1] Bjarni Össurarson. 2005. „ Bætt aðstaða vímuefnadeildar LSH.“ Morgunblaðið, 15. mars. Sjá https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1006920/.
[2] Embætti landlæknis. 2016. Hlutaúttekt. Meðferðarstofnanir SÁÁ. Sjá https://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item29702/.
[3] Samkvæmt netfangalista starfsmanna 30. mars 2020 störfuðu 22 áfengis- og vímuefnaráðgjafar hjá SÁÁ, 4 dagskrárstjórar, sem líka eru ráðgjafar, 17 ráðgjafanemar, 13 sjúkraliðar, 2 sjúkraliðanemar, 4 sálfræðingar, 1 yfirsálfræðingur og 2 sálfræðinemar, 11 hjúkrunarfræðingar, 2 hjúkrunarfræðinemar, 3 læknaritarar, 3 móttökuritarar, 4 læknar, 1 yfirlæknir og svo starfsfólk á skrifstofu sem ekki vinnu við umönnun eða meðferð. Sjá https://saa.is/samtokin/netfong/.
[4] Dennis McCarty og fl. 2014. Substance Abuse Intensive Outpatient Programs: Assessing the Evidence, í Psychiatry Online. Sjá: http://ps.psychiatryonline.org/doi/full/10.1176/appi.ps.201300249
[5] Jason Luty. (2003). „What works in drug addiction?“ BJPsych Advances, 9(4). Sjá doi:10.1192/apt.9.4.280.
[6] Arnþór Jónsson. 27. nóvember2014. Fíkn er heilasjúkdómur. Sjá https://saa.is/fikn-er-heilasjukdomur/.
[7] Mbl.is. 28. mars 2020. Býðst til að stíga til hliðar. Sjá https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/28/bydst_til_ad_stiga_til_hlidar/.
[8] Mbl.is. 27. mars 2020. Segir neyðarástand ríkja hjá SÁÁ. Sjá https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/27/segir_neydarastand_rikja_hja_saa/.