0
Karfan þín

Að sleppa tökunum á rananum

Annette Messager, My Vows
21. maí 2018

Í vikunni sótti ég þrjá viðburði sem snertu á málum fólks með fíknivanda. Vissulega er jákvætt að upplifa þá vakningu sem er í málaflokknum og sívaxandi meðvitund um að heilsa okkar og líðan sé ekki meitluð í genamengið okkar, heldur sé hún beintengd umhverfi, atlæti og upplifun á mótunarárum æskunnar. Ástæðan fyrir því að nú eru fundir og málþing á hverju strái er m.a. #metoo-byltingin, aukin meðvitund um afleiðingar kynferðisofbeldis og bráður vandi ungmenna með fíknivanda. Mikið úrræðaleysi hefur einkennt meðferð ungmenna og lengi hefur verið gagnrýnt það fyrirkomulag að hafa börn í meðferð á sama stað og fullorðna.

Erfðir eða umhverfi

ACE-rannsóknin, sem hófst á Kaiser Permanente-heilbrigðisstofnuninni í Kaliforníu árið 1997 (sjá t.d. http://hugarafl.is/afoll-skipta-thau-mali/), markar upphaf endurreisnar kenninga um áhrif umhverfis og atlætis á líðan okkar og heilsu eftir tímabil tvíhyggju í heilbrigðisvísindum þar sem sál og líkami voru aðskilin og einblínt á líffræðilega þætti. Þessi aðskilnaðarstefna hefur mest verið ríkjandi innan læknisfræðinnar en síður í kvennastéttum eins og meðal hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra.

Tvíhyggjan var svo til einráð í fíknimeðferðarkerfinu hér á landi þangað til við konurnar, sem síðar stofnuðum Rótina, fórum að hafa hátt um þessi mál, við lítinn fögnuð þeirra sem flutt höfðu einræður um fíkn sem svo heyrðust enduróma frá þeim sem þáðu meðferð. Einstefnan hefur verið slík að það jaðrar við trúarbrögð. Hangið hefur verið á þeirri hugmynd að fíknivandi hljóti að vera sjúkdómur, því að hinn möguleikinn sé að hann sé aumingjaskapur, en auðvitað eru fleiri möguleikar til útskýringa á fíkn og þessi er frekar úr sér genginn.

Í haust hélt ég erindi á ráðstefnu í tilefni 40 ára afmælis SÁÁ. Þar var aðaláherslan á heila- og taugalækningar. Mér vitanlega starfar þó enginn úr þeirri grein við meðferð hjá samtökunum. Enginn sálfræðingur eða félagsráðgjafi hélt erindi á ráðstefnunni enda virðist skilgreining Samtaka áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann sú að ekkert sé vísindalegt nema að það sé læknisfræðilegt. Sem er svolítið úrelt líka.

Stigvaxandi umræða hefur þó verið innan læknastéttarinnar um mikilvægi umhverfisþátta, eins og áfallasögu, á heilsufar og má þar nefna Jóhann Ágúst Sigurðsson sem hélt erindi hjá Rótinni haustið 2014 (sjá: https://www.rotin.is/hver-er-thinnar-gaefu-smidur).

Á málþingi Geðhjálpar í vikunni kynnti svo Margrét Ólafía Tómasdóttir, heimilislæknir, doktorsritgerð sína um tengsl erfiðleika í æsku og heilsufars og segir hún í viðtali við RÚV:

„Við getum eiginlega nú í dag sagt að vísindin eru búin að sýna vel fram á það eru mikil og sterk tengsl, sérstaklega áfalla í æsku og svo langvinnra heilsufarsvandamála á fullorðinsárum. Nýrri rannsóknir sýna líka að mikil streita og erfiðleikar á fullorðinsárum spila þungt hlutverk varðandi þróun sjúkdóma“. Nýnæmið í rannsókn Margrétar Ólafíu er að hún skoðar ekki bara hvernig áföllum fólk lendir í heldur er sjónum beint að upplifun hvers og eins, það sem hefur mikil árif á eina manneskju hefur lítil áhrif á aðra.

Á krossgötum

Við stöndum reyndar á krossgötum þar sem skilaboðin skjótast í ýmsar áttir og ég upplifði það nokkuð sterkt á málþingi Geðhjálpar. Annars vegar voru afbragðs erindi, eins og Margrétar Ólafíu, um mikilvægi þess að skoða sögu fólks og vinna með hana í meðferð, en hins vegar erindi notenda sem ekki voru í takt við þessi mikilvægu skilaboð. Amerískur hvatningarfyrirlesari hvatti til þess að fólk axlaði ábyrgð á sjálfu sér, væri jákvætt og fyndi lausnirnar í breytingum á sjálfu sér (Barbara Ehrenreich hefur greint þessa hugmyndafræði öðrum betur í bók sinni Bright-sided: How Positive Thinking Is Undermining America) og ung íslensk kona sem var ljómandi skemmtileg var á svipuðum nótum og vísaði í 12 spora kerfið sem lausn.

Þetta fundust mér alls ekki góð skilaboð til fólks með geðrænan vanda og íhugunarefni á hvaða forsendum samtökin fá notendur til að tjá sig, ef ekki til að sýna fram á að hægt sé að fá góð og gagnreynd úrræði. Sem sagt að lifa í lausninni, svo að ég fái lánaðan gamalkunnan frasa úr 12 spora kerfinu.

Rannsóknir á Landspítala

Á föstudag hlustaði ég líka á Hjördísi Tryggvadóttur, sálfræðing og teymisstjóra á Teigi, dagdeild fíknimeðferðar á Landspítala, kynna nýja rannsókn sem unnin var á deildinni. Niðurstöður hennar sýna að næstum allir sem leita sér þar hjálpar eiga sér áfallasögu og hefur hver kona að jafnaði upplifað 5,2 mismunandi tegundir áfalla og 72% kvennanna greinst með einkenni áfallastreitu (ég vona að ég fari rétt með þetta). Hjördís hefur langa reynslu af vinnu með fólk með fíknivanda og hún er einnig í hlutastarfi á Neyðarmóttöku nauðgana. Hún talaði um hversu vel sú starfsreynsla nýttist henni í vinnu með fólk með fíknivanda og kemur það heim og saman við niðurstöður rannsókna sem sýna að þekking í áfallafræðum er nauðsynleg í fíknimeðferð.

Niðurstöður rannsóknar Hjördísar og félaga rímar vel við niðurstöður þeirra fáu rannsókna sem gerðar hafa verið á konum í meðferð, rannsókn okkar Rótarkvenna og rannsókn Ásu Guðmundsdóttur frá tíunda áratugnum, um að hátt hlutfall kvenna í meðferð eigi alvarlega áfallasögu sem nauðsynlegt sé að taka á í meðferð. Reyndar var rannsókn Hjördísar og félaga ekki bara gerð á konum og þar sem ég hef séð færri rannsóknir um áfallasögu karla kom mér á óvart hve lítill munur kom fram á milli kynja í rannsókninni.

Barnaverndarstofa, fjölkerfameðferð

Þriðji viðburður vikunnar sem tengdist fíknivanda var svo fundur um stöðu mála að því er varðar ungmenni í fíknivanda sem SÁÁ hélt á fimmtudag. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, og Halldór Hauksson, frá Barnaverndarstofu, héldu erindi og lýstu úrræðum stofnananna. Síðan voru umræður undir stjórn fyrrverandi yfirlæknis, Þórarins Tyrfingssonar. Nokkuð hár meðalaldur var á fundinum og ég get ekki sagt að umræðurnar eftir erindi hafi verið áhugaverðar.

Samkvæmt svari sem Rótin fékk frá BVS haustið 2015 er stofnuninni ljóst að vímuefnavandi er ekki frumvandi barna og unglinga sem í honum lenda og að ekki er heldur líklegt til árangurs að einangra fíkniþáttinn og meðhöndla hann. Þá segir í svarinu að bæði rannsóknir og reynsla stofnunarinnar hafi leitt í ljós að beita verði marghliða aðferðum við fjölbreyttum vanda og að 12 spora meðferð hafi verið aflögð hjá stofnuninni vegna lélegs árangurs (https://www.rotin.is/barnaverndarstofa-svarar-rotinni/).

Það er ljóst að hér vantar bráðaþjónustu til að hjálpa börnum úr sjálfskaðandi aðstæðum og veita fyrstu meðferð. Allir virðast sammála um það. Heyra má á starfsfólki BVS að það sé ánægt með þau úrræði sem í boði eru, fyrir utan skort á bráðaúrræði, en þegar foreldrar þessa hóps tjá sig heyri ég mikla óánægju og ef ég skynja ástandið rétt vantar meira samtal og stuðning við foreldra barna með alvarlegan fíknivanda.

SÁÁ og fíknsjúkdómurinn

SÁÁ er hins vegar mjög fast í læknisfræðilega tvíhyggjumódelinu og það kom mér á óvart að heyra síendurtekið talað um að ungmenni sem kæmu á Vog væru með ættgengan „fíknsjúkdóm“. Ég hélt satt að segja að það væri ekki lengur verið að stimpla börn og ungmenni á þennan hátt, þar sem þau eiga flest við annan undirliggjandi vanda að stríða eins og fram kemur í svari BVS.

Í nýlegu viðtali við unga konu sem hafði farið ung á Vog kemur rækilega fram að henni hefur verið kennd mantran um að hún sé með „sjúkdóminn“, eins og virðist fastur liður í meðferð þar. Minnir þetta að mörgu leyti á trúarlega innrætingu, ekki síst vegna þess hversu sterk rök hníga að því að fíkn ungmenna eigi sér iðulega upphaf í öðrum vanda, eins og ACE-rannsóknin gefur hrópandi vísbendingar um. Það getur líka hreinlega verið banvænt fyrir börn og unglinga þegar meðferð er beint að einkennum, eins og fíkn, kvíða og þunglyndi, ef undirliggjandi vandi er t.d. kynferðisofbeldi með þeirri miklu skömm og sjálfsásökunum sem því fylgir.

Öll þekkjum við dæmisögu Esóps um blindu mennina sex sem beðnir voru að lýsa fíl. Hver og einn þeirra þreifaði á þeim hluta fílsins sem næstur var og færði út frá því rök fyrir því hvað einkennir fíl.

Er ekki kominn tími til að stærsta meðferðarúrræðið á landinu sleppi tökunum á rananum á fílnum og fari að skoða heildarmyndina?

Ábyrgð ríkisins

Ég hef áður skrifað um tengsl læknisfræðilega módelsins um fíkn við 12 spora kerfið. Ein mýtan sem þaðan er komin snýr að því að eitt helsta einkenni fólks í fíknivanda sé að afneita honum, þó að nýjar rannsóknir sýni að fólk sem hættir að drekka sé oft vel meðvitað um stöðu sína.

Mér sýnist þó ljóst að þeir sem stýra stærstu meðferðarúrræðum á Íslandi eigi við þann vanda að stríða að afneita nýjustu vísindaþekkingu um fíkn með því að viðurkenna ekki að áfallasaga er stór þáttur í þróun og lækningu fíknar. Á meðan ekki er tekið á þessari afneitun SÁÁ á ríkið ekki að treysta samtökunum fyrir fólki í viðkvæmu ástandi.

Margir í heilbrigðis- og meðferðarkerfinu hafa þekkingu og reynslu sem gagnast í meðferð ungmenna og ég vona að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra nýti hana í viðleitni sinni til að skapa nýtt úrræði fyrir þennan hóp en leiti ekki bara til þeirra sem halda dauðahaldi í ranann á fílnum og byggja meðferðina á allt að því trúarlegri nálgun á heilasjúkdómskenningu um fíkn.

Tími slíkrar rörsýni er liðinn.

Kristín I. Pálsdóttir er talskona Rótarinnar

DEILA: