0
Karfan þín

Erfið reynsla í æsku og afleiðingar – Umræðukvöld

Gyða Eyjólfsdóttir er sálfræðingur með doktorsgráðu í ráðgjafarsálfræði frá The University of Texas í Austin og verður gestur Rótarinnar á næsta umræðukvöldi, 12. mars kl. 20, ásamt Moniku Skarphéðinsdóttur sálfræðingi.

Gyða skrifaði doktorsritgerðina sína um sálfélagslegar hliðar grindargliðnunar á meðgöngu og fékk þá áhuga á erfiðum upplifunum í æsku og áhrifum þeirra á einstaklinginn síðar á lífsleiðinni. Hún ákvað að læra EMDR áfallameðferð til að geta aðstoðað einstaklinga við að vinna úr áföllum og þessum erfiðu upplifunum og hefur sérhæft sig í EMDR áfallameðferð. Þannig vinnur hún með skjólstæðingum sínum að úrvinnslu áfalla, bæði stórra og smáa, auk þess sem hún handleiðir aðra EMDR meðferðaraðila og heldur námskeið í tengslum við EMDR áfallameðferð. Hún hefur líka sérhæft sig í tilfinningahliðum ófrjósemi.

Monika Skarphéðinsdóttir er sálfræðingur með cand. psych. gráðu frá Háskóla Íslands. Frá útskrift hefur hún unnið með Þórdísi Rúnarsdóttur, Psy. D., sálfræðingi og Gyðu Eyjólfsdóttur sálfræðingi í málum sem hafa með sérsvið þeirra að gera. Þannig vinnur hún að ófrjósemis- og áfallamálum með Gyðu og hjónamálum með Þórdísi. Monika hefur sérstakan áhuga á áfallamálum, tengslum atburða í æsku við líðan skjólstæðinga og úrvinnslu þeirra. Monika er að ljúka námi í EMDR áfallameðferð og hyggur á frekari námskeið á því sviði til að bæta við sína sérhæfingu. Sjá nánar: www.emdr.is.
Saman fóru Gyða og Monika á alþjóðaráðstefnu EMDRIA síðasta haust þar sem áhersla var lögð á áhrif erfiðra upplifana í æsku á heilsu og vellíðan einstaklingins síðar á lífsleiðinni (The ACE study). Í þeirri rannsókn var reiknað út svokallað ACE gildi sem er heildarfjöldi erfiðra upplifana í æsku fyrir hvern einstakling. Eftir því sem þetta gildi hækkar því meira hækkar áhættan á eftirfarandi:

  • Alkahólisma
  • Þunglyndi
  • Fíkniefnanotkun
  • Hjartasjúkdómum
  • Heimilisofbeldi
  • Reykingum
  • Sjálfsvígshættu
  • Unglingameðgöngu
  • O.fl.

Gyða og Monika ætla að fara yfir niðurstöður þessarar rannsóknar með fundargestum, þýðingu niðurstaðnanna og hvað sé til ráða. Fundargestir munu geta reiknað út sitt eigið ACE gildi.

Allir, konur og karlar, eru velkomnir á umræðukvöld Rótarinnar sem nú eins og fyrr er haldið að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, Reykjavík.

Boðið er upp á te og kaffi en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.

Viðburðurinn er á Facebook!

DEILA: