0
Karfan þín

Þöggun ofbeldis og hlutdrægni í dagskrárgerð

Rótin hefur sendi í dag, 30. júní 2020, eftirfarandi erindi til RÚV:

Til: Baldvins Þórs Bergssonar, dagskrárstjóra Rásar 2, Sigmars Guðmundssonar, dagskrárgerðarmanns og Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri

Efni: Þöggun ofbeldis og hludrægni í dagskrárgerð

Reykjavík 30. júní 2020

„Vandi SÁÁ snýst um yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum,“ segir í yfirlýsingu frá 57 starfsmönnum SÁÁ þar sem þeir frábiðja sér frekari afskipti Þórarins Tyrfingssonar af starfi félagsins. Af yfirlýsingunni má skilja að Þórarinn, sem hefur starfað hjá samtökunum í 42 ár, þar af í 20 ár sem bæði framkvæmdastjóri lækninga og formaður samtakanna, sé aðalgerandi í því ofbeldi sem starfsfólkið lýsir. Í Viðskiptablaðinu kemur einnig fram í máli Kristbjargar Höllu, starfsmanns SÁÁ að „ógnarstjórn sem hafi verið við lýði þegar hann var við stjórn.“

Í Morgunútvarpi Rásar 2 hinn 23. júní ræddi Sigmar Guðmundsson, dagskrárgerðar­maður, við mótframbjóðanda Þórarins, Einar Hermannsson, og segir m.a: „Þórarinn býr náttúrulega yfir þvílíkri reynslu, áratuga reynslu af öllu þessu. Væri ekki gott að hafa hann þarna inni úr því að hann vill það? Væri ekki gott að nota krafta hans heldur en að vera alltaf að ýta honum út af borðinu eins og hann sé bara eitthvað búllý eins og maður skilur þessa yfirlýsingu.“

Meira en helmingur starfsmanna SÁÁ hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem talað er tæpitungulaust um misbeitingu valds en starfsmaður RÚV getur ekki dulið aðdáun sína á Þórarni og gerir þar með lítið úr alvarlegum ásökunum starfsfólksins.

Sigmar hefur greint frá því opinberlega að hann hafi átt við vímuefnavanda að stríða og leitað sér meðferðar hjá SÁÁ sem hann segir bata sinn frá fíkn að þakka og að hann sé félagi í samtökunum. SÁÁ eru stór hagsmunasamtök sem fá um milljarð á fjárlögum á ári hverju og því er full ástæða til að umfjöllun um samtökin sé gagnrýnin en ekki lituð af þakklæti dagskrárgerðarmannsins sem verður til þess að þagga niður umræðu um ofbeldi á vinnustað og gera lítið úr reynslu þessa fólks.

Árið 2013 gerðum við Rótarkonur óformlega könnun á ritstjórnum stærstu fjölmiðla landsins um tengsl þeirra við SÁÁ. Í öllum þessum ritstjórnum voru blaðamenn, allt karlar,  sem höfðu setið í stjórn SÁÁ nema hjá RÚV, eftir því sem næst var komist. Páll Magnússon þáverandi útvarpsstjóri og núverandi þingmaður hafði þó setið í stjórninni.

Samtökin eru mjög öflug í sinni hagsmunabaráttu og að laða að sér fylgi valdamikils fólks, ekki síst stjórnmála- og fjölmiðlamanna, sem hafa þurft að leita á náðir þeirra vegna vímuefnavanda og verða svo í kjölfarið talsmenn samtakanna, hvort sem er formlega eða óformlega. Kannski hentar meðferð SÁÁ fjölmiðlamönnum og stjórnmálamönnum mjög vel, sérstaklega þeim sem eru karlkyns, þeir eru að minnsta kosti duglegir að breiða út fagnaðarerindi meðferðaraðilans.

Það samræmist hins vegar ekki góðum siðum í dagskrár- og fréttamennsku að láta félagsmenn og skjólstæðinga slíkra félaga sjá um umfjöllun um samtökin sbr. 5. gr. siðareglna BÍ þar sem segir: „Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum þar sem hann á sjálfur aðild.“

Þá hlýtur það að vera alvarlegt íhugunarefni fyrir RÚV að starfsmenn ríkisfjölmiðilsins geri svo lítið úr frásögnum meirihluta stafsfólks á stórum vinnustað sem opnar á umræðu um langvarandi ofbeldi og ógnarstjórn og samræmist varla 3. gr. siðareglnanna þar sem segir að blaðamenn eigi að forðast „allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.“

Sögurnar koma okkur í Rótinni ekki á óvart og við teljum löngu kominn tíma á það uppgjör sem nú á sér stað innan SÁÁ og í raun áhugavert að #Metoo-hreyfingin hafi ekki ýtt því úr vör fyrr.

Með góðri kveðju, f.h. ráðs Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir

 

 

DEILA: