0
Karfan þín

Óásættanleg meðferð á sjúkragögnum og lítilsvirðing við viðkvæman hóp

„Sjúkragögn frá SÁÁ sögð hafa farið á flakk“ var fyrirsögn fréttar sem birtist á Mbl.is hinn 23. júlí s.l. og eins og hún gefur til kynna fjallar fréttin um óvarlega og ólöglega meðferð sjúkragagna fólks sem þegið hefur meðferð á meðferðarstöð SÁÁ að Vík á Kjalarnesi.
Í fréttinni er vitnað í Arnþór Jónsson, formann SÁÁ s.l. 6 ár, og Hjalta Björnsson, sem starfaði sem dagskrárstjóri hjá samtökunum í áratugi, þar sem þeir vísa ábyrgð á ferðalagi þessara viðkvæmu sjúkragagna hvor á annan. Það þarf hins vegar ekkert að rífast um það hver ber ábyrgð á þessum gögnum því að það er skilgreint í 12. gr. laga nr. 55 um sjúkraskrár frá árinu 2009 að ábyrgðaraðili sjúkraskráa er „Heilbrigðisstofnun eða starfsstofa heilbrigðisstarfsmanna þar sem sjúkraskrár eru færðar“ og í reglugerð um sjúkraskrár segir:
„Ábyrgðaraðili sjúkraskráa hverrar stofnunar og starfsstofu heilbrigðisstarfsmanna skal sjá til þess að þar sé rekið öryggiskerfi sem tryggir vernd sjúkraskrárupplýsinga sem að lágmarki uppfylli fyrirmæli landlæknis um öryggi og gæði sjúkraskráa“, því er ljóst að SÁÁ ber því ábyrgð á þessum gögnum og Embætti landlæknis „skal hafa reglubundið eftirlit með því að heilbrigðisþjónusta sem veitt er hér á landi uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma.“
Í fréttinni kemur fram að sjúkragögnin séu nú í bílskúrnum við heimili Hjalta og verði þar þangað til hann kemur af fjöllum hinn 13. ágúst. Þá greini þessa fyrrverandi vinnufélaga hins vegar á um hvernig þau hafi borist þangað frá Vík. Í opinni færslu á Facebook-síðu sinni bætir Hjalti við þær upplýsingar sem fram koma á Mbl.is að gögnin nái yfir „innlagnir sjúklinga á meðferðarheimilið Vík frá upphafi til 2017“ eða frá árinu 1987-2017. Þar sem stærstur hluti þeirra sem þegið hafa meðferð á Vík undanfarna áratugi, um 300 á ári, eru konur, en kvennameðferð á Vík var fyrst boðin árið 1995, má ætla að sjúkragögn 3-4000 kvenna og nokkru færri karla séu í reiðuleysi í bílskúr úti í bæ.
Það er vægast sagt alvarlegt að ekki sé borin meiri virðing fyrir þeim viðkvæma hópi sem þarf að reiða sig á þjónustu SÁÁ en það að sjúkragögn séu ekki vistuð á löglegan og öruggan hátt er gríðarlega kvíðvænlegt og skapar mikið óöryggi hjá skjólstæðingum SÁÁ.
Ein spurninganna sem vaknar er hvernig á því stendur að sjúkragögn langt aftur í tímann hafi verið geymd á Vík? Önnur er hvort farið hafi verið að ákvæðum um skyldur ábyrgðaraðila og umsjónaraðila sjúkraskráa, í reglugerð nr. 550/2015 um sjúkraskrár, á meðferðarheimilinu Vík? Það er líka spurning af hverju slík gögn eru geymd á Vík þar sem enginn læknir, hjúkrunarfræðingur eða læknaritari hafði aðsetur?
Árið 2016 gerði Embætti landlæknis hlutaúttekt á meðferð barna/unglinga og kvenna hjá SÁÁ og þar kom meðal annars fram að „vinnulag og gæðastarf“ væri ófullnægjandi: „Árangur starfseminnar hvað varðar gæði og öryggi er ekki sýnilegur. Gæðahandbók er ekki fyrir hendi, ekki eru skriflegar verklagsreglur varðandi marga þætti starfseminnar.“
Svona leit matið út.

Í eftirfylgdarskýrslu frá Landlækni nokkru síðar segir að „forráðamenn á Vogi hafa tekið tillit til flestra ábendinga Embættis landlæknis og unnið töluverða umbótavinnu varðandi ýmsa þætti starfseminnar. Embættið gerir því ekki frekari athugasemdir en mun áfram fylgjast með framvindu mála.“
Margar okkar félaga hafa þegið meðferð á Vík og velta nú fyrir sér viðbrögðum við þessum alvarlegu atburðum. Fyrir utan þessa einu frétt á Mbl.is hefur fjórða valdið, fjölmiðlar, ekki, svo vitað sé, séð ástæðu til að eyða orði á þessa óásættanlegu og ólöglegu meðferð sjúkragagna. Rótinni er ekki kunnugt um að neinn hafi innt faglegan eftirlitsaðila ríkisins með þessu starfi, Embætti landlæknis, eftir því heldur.
Þar sem markmið Rótarinnar eru m.a. að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði þykir okkur rétt að vekja á athygli á málinu og kalla eftir umfjöllun um þessa alvarlegu misfellu í starfi SÁÁ.

Kristín I. Pálsdóttir, talskona
Áslaug Kristjana Árnadóttir
Björg Torfadóttir
Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Hulda Stefanía Kristjánsdóttir
Katrín Alfreðsdóttir
Þórlaug Sveinsdóttir

Höfundar eru í ráði og vararáði Rótarinnar

Greinin Birtist fyrst í Stundinni 13. ágúst 2019

DEILA: