0
Karfan þín

Menntun áfengis- og vímuefnaráðgjafa

Rótin hefur sent eftirfarandi erindi til ráðherra heilbrigðis- og menntamála:

Ágæti ráðherra, Kristján Þór Júlíusson / Illugi Gunnarsson.

Áfengis- og vímuefnaráðgjafar eru stór hluti þeirra sem vinna við meðhöndlun vímuefnavanda eins og sjá má á heimasíðu SÁÁ en samtökin eru stærsti meðferðaraðili hér á landi þegar kemur að afvötnun og meðferð í verktöku fyrir ríkið: „Áfengis- og vímuefnaráðgjafar SÁÁ eru í dag um 40 og bera hitann og þungan af meðferðinni á öllum sjúkrastofnunum SÁÁ nema á Sjúkrahúsinu Vogi þar sem störf þeirra eru líka mjög mikilvæg.“[1]

Einnig er kveðið á um hlutverk ráðgjafa í samningi milli samninganefndar heilbrigðisráðherra og SÁÁ um áfengis- og vímuefnameðferð. Í núgildandi samningi um dagdeild segir að þjónustan skuli „unnin á dagdeild verksala af áfengisráðgjöfum sem hlotið hafa viðurkenningu heilbrigðisstjórnar til að meðhöndla áfengis- og vímuefnasjúklinga og starfa undir um stjórn lækna“. Í samningi ríkisins við sömu aðila um rekstur göngudeildar kemur einnig fram að þjónustan skuli m.a. unnin af áfengisráðgjöfum.

Í reglugerð 1106/2012 um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuvarnaráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi kemur fram að landlæknir gefur út starfsleyfi ráðgjafa og að leyfið megi veita þeim sem lokið hafa námi sem landlæknir metur gilt.

Við eftirgrennslan hjá landlækni, sem gefur út starfsleyfi heilbrigðisstétta og þar með áfengis- og vímuefnaráðgjafa, kom fram að embættið hefur ekki gert tillögur um menntunina og hvernig henni skuli hagað, samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar, en að embættið telji nauðsynlegt að „endurskoða þær námskröfur sem gerðar eru til þessarar stéttar og taka þá mið af menntun sambærilegra stétta í nágrannalöndum okkur.“ Jafnframt kemur fram að sú vinna sé ekki farin af stað.

Á 139. löggjafarþingi Alþingis 2010–2011 lagði velferðarráðherra fram skýrslu um aðgerðir samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum. Í henni segir: „Þannig var talið að a.m.k. 70 – 80% þeirra kvenna sem stríddu við fíkn hefðu verið beittar einhverju ofbeldi.“ Í sömu skýrslu segir einnig um menntun heilbrigðisstarfsmanna:

„Fræðsla til starfsmanna heilbrigðisþjónustu

Fræðsla um ofbeldi í nánum samböndum er hluti af námi verðandi hjúkrunarfræðinga. Þá fá félagsráðgjafar slíka menntun í sínu námi. Aðrir sem starfa á heilbrigðisstofnunum fá ekki slíka menntun í sínu grunnnámi og þyrfti að koma henni á.

Við viljum líka hvetja til þess að nám í þessum fræðum sé fært á háskólastig.“

Með hliðsjón af því háa hlutfalli kvenna sem koma til áfengismeðferðar sem hafa orðið fyrir ofbeldi og fyrrgreindum tilmælum um að heilbrigðisstarfsmenn fái menntun um ofbeldi í sínu grunnnámi mælist Rótin til þess að við endurskoðun ráðgjafanámsins og námskrárgerð í því fagi verði þessi mikilvægu skilaboð höfð til hliðsjónar.

Áfengis- og vímuefnafíkn er flókinn og margþættur andlegur, líkamlegur og félagslegur vandi sem krefst þess að vel menntað fagfólk meðhöndli hann. Rótin telur því mikilvægt að lagaumhverfi og eftirlit með námi áfengis- og vímuefnaráðgjafa sé skýrt, að lögbundin námskrá fyrir námið sé gerð við fyrsta tækifæri og að kröfur til kennara séu einnig ljósar.

Við óskum því við svörum við eftirfarandi spurningar:

  1. Hvaða skólastigi tilheyrir nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa, framhaldsskóla eða framhaldsfræðslu? Heyrir námið undir heilbrigðis- eða menntamálaráðuneyti eða er það á sameiginlegri ábyrgð ráðuneytanna?
  2. Er endurskoðun á námi ráðgjafa hafin?
  3. Stendur til að fara að tilmælum úr áðurnefndri skýrslu velferðarráðherra um að fræðsla um ofbeldi verði hluti af námi ráðgjafa?
  4.  Hvaða kröfur eru gerðar til kennara áfengis- og vímuefnaráðgjafa?
  5. Stendur til að koma á fót námi í áfengis- og fíkniráðgjöf á háskólastigi?

DEILA: