Í bókinni Inside Rehab eftir Anne M. Fletcher er gerð úttekt á meðferðarkerfinu í Bandaríkjunum. Flestar meðferðarstofnanir vestra styðjast að einhverju leyti við meðferð sem sprottin er úr 12 spora kerfinu. Breyting er þó að verða á þessu eftir því sem auknar kröfur eru gerðar til þess að meðferð byggi á gagnreyndum aðferðum og þekkingu.
Í bókinni er gátlisti fyrir þá sem eru á leið í meðferð. Listinn er miðaður við Bandaríkin og kannski á ekki allt við hér. Hann er samt ágætt gæðaviðmiðunartæki. Við Rótarkonur myndum væntanlega bæta nokkrum spurningum við hann um málefni er varða kynjasjónarmið og öryggi kvenna í meðferð. Einnig spurningum um viðbrögð við áfallasögu.
En hér er listinn í lauslegri þýðingu:
- Hversu fljótt kemst fólk í meðferð eftir að hafa fengið greiningu og ákveðið að vilja fara í ykkar meðferð?
- Bjóðið þið upp á inniliggjandi- eða göngudeildarmeðferð eða bæði?
- Hvert er grundvallarviðhorf meðferðarinnar?
Sérstakar spurningar sem þú vilt kannski spyrja:
- Vinnið þið út frá sjúkdómslíkaninu eða út frá hugrænni atferlismeðferð?
- Byggir meðferðin á sporunum 12 og ef svo er, hvaða merkingu hefur það?
- Þurfa skjólstæðingar að sækja 12 spora fundi úti í bæ? Ef svarið er já, hversu oft? Eru haldnir 12 spora fundir í meðferðinni? Ef svarið er já, er ætlast til þátttöku í þeim og þá hversu oft?
- Kynnið þið skjólstæðinga fyrir öðrum valkostum en 12 spora hópum og leyfið þeim að sækja slíka fundi s.s. SMART Recovery eða Women for Sobriety? (Einnig má nefna Rational Recovery, Seeking Safety og LifeRing.)
- Hvernig eru áfengis- og vímuefnavandamál metin við fyrstu komu – hvaða greiningartæki notið þið til að meta alvarleika vímuefnaröskunar, hvort sem að hún þarfnast meðhöndlunar eður ei, og ef svo er, hvert á að senda skjólstæðinginn?
- Bjóðið þið upp á afeitrun? Ef svarið er já, hvernig er metið hvort að nýr sjúklingur þarf að fara í gegnum hana og hvað felst í henni?
- Þegar skjólstæðingar mæta í meðferð, fer þá fram leit í eigum þeirra og eru lyf gerð upptæk?
- Hvað stendur meðferðin lengi? Eða varir meðferðin í óákveðinn tíma?
- Lýsið notkun meðferðarinnar á eftirfarandi nálgunum/aðferðum:
- Hugrænni atferlismeðferð
- Áhugahvetjandi hvatningu
- Para- og/eða fjölskyldumeðferð
- Meðferð byggð á styrkingarskilmálum.
- Hvert er hlutfall starfsmanna á móti skjólstæðingum?
- Hversu mikill tími fær skjólstæðingur í hópmeðferð?
- Hversu mikill tími fær skjólstæðingur í einstaklingsmeðferð?
- Hvaða vottun/starfsþjálfun hafa þeir sem vinna sem aðal ráðgjafar?
- Er einhver ráðgjöf veitt af lærlingum eða nemum?
- Hvaða vottun/þjálfun hafa þeir sem stjórna og hafa eftirlit með klínískri meðferð hjá ykkur?
- Ef þörf er á læknishjálp, veitið þið hana? Hvaða heilbrigðisstarfsmenn starfa við meðferðina?
- Starfar geðheilbrigðisstarfsfólk hjá ykkur? Ef svo er, hver er þeirra sérgrein (t.d. sálfræðingar með sérfræðileyfi eða félagsráðgjafar) og hvernig er aðgengi skjólstæðinga ykkar að þeim?
- Hversu hátt hlutfall starfsfólksins er fólk í bata?
- Lýsið notkun ykkar á lyfjum til að hjálpa fólki við að ná tökum á fíkn. Sendið þið fólk heim á þessum lyfjum?
- Eru karlar og konur meðhöndluð í sitt hvoru lagi allan eða hluta af tímanum? Er meðferðin kynbundin?
- Hvað gerist ef að sjúklingur hrasar eða fellur á meðan á meðferðinni stendur?
- Hvernig undirbúið þið skjólstæðingana fyrir þann möguleika að þeir hrasi eða falli eftir að meðferð lýkur?
- Eruð þið með sér meðferð fyrir þá sem hafa verið í meðferð áður en fallið? Ef svo er, þarf fólk þá að byrja upp á nýtt eða er sérstök meðferð fyrir þá?
- Hversu hátt hlutfall skjólstæðinga lýkur meðferðinni?
- Hvernig aðstoðið þið fólk í eftirmeðferð eða áframhaldandi meðferð? Ef þið bjóðið upp á slík meðferð, þarf að greiða aukalega fyrir þátttöku í henni?
- Bjóðið þið upp á endurgreiðslur í einhverjum aðstæðum?
- Hvernig er gæða- og árangurseftirliti með meðferðinni háttað? Vinsamlega sendið mér þá tölfræði sem til er.
- Hversu hátt hlutfall skjólstæðinga ykkar kemur til meðferðar vegna dómsúrskurðar? Hversu hátt hlutfall kemur að eigin vilja?
- Gæti ég fengið að ræða við fólk sem farið hefur í gegnum meðferðina hjá ykkur?
- Hvaða reykingareglur gilda í meðferðinni? Ef reykingar eru ekki leyfðar, hvernig hjálpið þið reykingamönnum?
- Hver er stefna ykkar varðandi fíkniefnapróf á skjólstæðingum – hversu oft er það framkvæmt og við hvaða aðstæður?
- Hvaða húsreglur eruð þið með t.d. varðandi samband við umheiminn, varðandi lesefni, tölvur og netaðgang, umgengni við hitt kynið, reglur um mat (koffínneyslu t.d.) og kröfur um þátttöku í húsverkum?
Úr bókinni: Inside Rehab eftir Anne M. Fletcher.