0
Karfan þín

Fíknimeðferð barna og unglinga – Erindi til BVS

Rótin sendi eftirfarandi erindi til Barnaverndarstofu 30. júní 2015:

„Rótin er félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda. Markmið félagsins eru einkum að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi en félagið vill að komið verði á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið beitir sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og hefur í þeim tilgangi m.a. sent erindi til Umboðsmanns barna, Landlæknis (sjá Skráning atvika og önnur gæðamál í meðferðarstarfi, erindi vegna náms áfengis- og vímuefnaráðgjafa, opið bréf til landlæknis vegna öryggis kvenna í meðferð (einnig sent á velferðar-ráðherra), Velferðarráðuneytis (erindi vegna skimunar á ofbeldi)og Úrskurðarnefndar um upplýsingarmál (erindið er send vegna óánægju með svör Embættis landlæknis um gæðamál). Einnig höfum sent inn athugasemdir við frumvörp og þingsályktunartillögur og bendum sérstaklega á tillögur okkar og athugasemdir við tillögur starfshóps um áfengis- og vímuvarnir sem við athendum í janúar 2015.

Ráð Rótarinnar hefur heimsótt ýmsar stofnanir í þeim tilgangi að kynna starfsemi félagsins og efna til umræðna um málefni er varða konur, börn og ungmenni með áfengis- og fíknivanda. Meðal annars höfum við átt fundi með starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur og Umboðsmanni barna.

Þó að Rótin fjalli einkum um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda deilir hún áhyggjum fjölmargra um stöðu barna sem glíma við þennan vanda og hefur til dæmis lýst yfir efasemdum um að hafa eigi börn í meðferð á Vogi þar sem mikill samgangur er við fullorðna sem eru þar í meðferð. Í þessu sambandi er rétt að benda á að í lögum nr. 74 frá árinu 1997 um réttindi sjúklinga segir í 27. gr. að umhverfi og aðbúnaður sjúkra barna á heilbrigðisstofnunum skuli hæfa aldri þeirra, þroska og ástandi.

Þá er einnig ljóst að eftirliti með meðferðarstofnunum er ábótavant eins og draga má ályktun af í nýlegum dómi Hæstaréttar í meiðyrðamáli Týs Þórarinssonar gegn Braga Guðbrandssyni.

Rótin óskar eftir svörum hjá Barnaverndarstofu við eftirfarandi spurningum:

  1. Hver er meðferðarstefnan á heimilum Barnaverndar t.d. varðandi fíknivanda?
  2. Er áfallasaga barnanna skoðuð og veitt meðferð í samræmi við það?
  3. Hvaða rök lágu að baki því að samið við fyrirtæki eins og Götusmiðjuna sem ekki hafði faglega forystu eftir Byrgismálið kom upp?
  4. Hefur vinnureglum varðandi aðkeypta meðferð barna verið breytt eftir að vandamál með Götusmiðjuna urðu ljós?
  5. Hvernig er samstarfi Barnaverndarstofu og SÁÁ háttað?

Einnig óskar ráð Rótarinnar eftir að eiga fund með starfsfólki Barnaverndarstofu.“

Erindið má sjá hér í PDF-skjali.

Svar barst við erindinu 13. október 2015 og má lesa það hér í PDF-skjali.

DEILA: