28. apríl 2016
Rótin hefur sent erindi til siðanefndar Læknafélags Íslands vegna ummæla geðlæknis í fjölmiðlum:
„Rótin, félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, óskar eftir áliti siðanefndar Læknafélags Íslands á því hvort ummæli Óttars Guðmundssonar, í viðtali við Fréttablaðið 22. apríl, 2016, samræmist þeirri ábyrgð gagnvart einstaklingum og samfélagi sem fylgir starfi læknis samkvæmt siðareglum Læknafélags Íslands. Við horfum þá sérstaklega til III. kafla í Codex Ethicus LÍ.
Viðtalið nefnist „Enginn má lenda í neinu“ (sjá: http://www.visir.is/enginn-ma-lenda-i-neinu/article/2016160429698). Mörg ummæli þess grafa undan fórnarlömbum ofbeldis, gera lítið úr áhrifum kynferðisofbeldis á þolendur og skilgreiningarvaldi þeirra á ofbeldi sem þeir verða fyrir, ásamt því að gera lítið úr meðferð við áföllum.
Þá dregur Óttar í efa að áföll hafi áhrif á fíknivanda. Sívaxandi fræðastarf bendir til hins gagnstæða og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, Sameinuðu þjóðirnar og heilbrigðisyfirvöld víða um heim styðja það að sterkt samhengi sé á milli fíknivanda og erfiðra upplifana.
Að lokum má benda á að á að þó að Óttar geri lítið úr áhrifum áfalla og getu þolenda til að meta aðstæður virðist sú undantekning þar á að ásökun um kynferðisofbeldi hafi „gríðarleg áhrif á alla framtíð þessa einstaklings“ (sem ásakaður er um ofbeldið.)
Við teljum sérstaklega skaðlegt að ummælin komi frá geðlækni.
Við bendum á eftirfarandi ummæli og höfum feitletrað þau sem við teljum nauðsynlegt að skoða í ljósi siðareglnanna:
„En er ekki bara allt í lagi að fólk fái áfallahjálp ef það verður fyrir áfalli? „Auðvitað er það í lagi. Ég er bara ekki viss um að það sé betra. Ég held það sé líka ágætt að vinna sjálfur úr ákveðnum hlutum og sætta sig við að svona er lífið. Maður sé ekki alltaf að kalla eftir aðstoð hins opinbera, það eigi ekki alltaf einhver annar að bera ábyrgð á fólki.“
„Svo gerðist ég áfengislæknir – fór að vinna hjá SÁÁ við fíknilækningar.“
En eins og með fíknisjúkdóma, nú hefur mikið verið rætt um að áföll hafi kannski eitthvað með fíknisjúkdóma að gera. „Við höfum nú alltaf vitað það að það er ekki til sá alkóhólisti sem hefur ekki ástæðu fyrir því að hann drekkur. Ég er sjálfur alkóhólisti og hef aldrei fundið þann alkóhólista sem getur ekki sagt mér í löngu máli eða stuttu af hverju hann varð alkóhólisti og er ég nú búinn að upplifa þá marga.
Auðvitað er alltaf verið að reyna að finna skýringu á öllu, hvort sem það er vegna þess að mamma og pabbi skildu þegar viðkomandi var fimm ára eða það var hundur í næsta húsi sem urraði á hann þegar hann var sjö ára og síðan hefur hann verið alkóhólisti. Það er alltaf hægt að finna eitthvað og nú er komin þessi ofuráhersla á gildi áfalla. Þetta er oft hluti af afneitun alkóhólistans. Það er mikið fjölmiðlamál. Þið eruð skotin í áföllum. Áföll eru ykkar eftirlætisefni,“ útskýrir Óttar og segir viðtöl í blöðunum of oft snúast um áföll.“
„Þetta er orðið þannig að það er alltaf eitthvað sérstakt sem gerir það að verkum að líf viðkomandi er eins og það er. Þetta er ný hugsun því fólk var mikið æðrulausara hér áður. Áföll voru bara hluti af lífinu sjálfu. Nú lifum við í þessu verndaða umhverfi.“
Það er ekki samasemmerki milli þess að hafa lent í einhverju áfalli á lífsleiðinni og að maður hafi einhvern geðsjúkdóm eða greiningu. Eigi að fara á lyf eða í svo og svo mörg viðtöl. Maður verður að horfast í augu við það að maðurinn er lífvera sem hefur ansi mikið þol og getur alveg lifað af allt mögulegt.“
„Ég veit ekki hversu gott það er þegar stór hluti kvenna og ákveðinn hluti karlmanna segist hafa lent í kynferðislegri áreitni. Spurningin er, hversu alvarleg er þessi áreitni? Nú er það bara einstaklingurinn sem skilgreinir það. Þá eru mörkin milli daðurs og ákveðinna kynferðislegra samskipta kynjanna sem alltaf hafa verið til og áreitni orðin ótrúlega óljós. Þá koma upp öll þessi mál sem síðan er verið að vísa frá dómstólum. Fólk skilgreinir þetta orðið á svo mismunandi vegu.“
Vandinn hlýtur að liggja hjá þeim sem áreitir en ekki þeim sem segja frá slíkri áreitni? „Það liggur hjá báðum í sjálfu sér. Það er ofsalega alvarlegur hlutur að vera ásakaður um kynferðisbrot. Það er mannskemmandi og hefur gríðarleg áhrif á alla framtíð þessa einstaklings hvort sem hann er sakfelldur eða ekki. Að vera úthrópaður kynferðisbrotamaður á Facebook er ótrúlega mikil refsing.“
Er ekki alvarlegra að vera sá sem brotið er á? „Jú, það er mjög alvarlegt. En vandinn er sá að skilningurinn á eðli brotsins er orðinn ólíkur. Það er þar sem við lendum í miklum vandræðum, sem læknar, dómarar, lögfræðingar og bara í samfélaginu.“
Erindið í PDF-skjali má nálgast hér.
Talskona Rótarinnar fór í viðtal vegna erindisins í morgunútvarp Rásar 2, 3. maí 2016.