Rótin sendi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra eftirfarandi erindi hinn 12. júlí 2013:
„Ágæti innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda lýsir áhyggjum vegna handtöku ölvaðrar konu á Laugavegi um síðustu helgi.
Ekki verður betur séð af myndbandsupptöku en að lögregla hafi beitt óhóflegu valdi við handtöku konunnar sem var ofurölvi. Stafaði þremur hraustum lögregluþjónum sem komu að handtöku hennar ekki mikil ógn af konunni. Ekki getur talist eðlilegt að slíku ofbeldi sé beitt af lögreglu gagnvart minni máttar sem hvorki ógna einstaklingum eða samfélagi.
Ráðskonur Rótarinnar undrast að atvikið sé útskýrt með tilvísun til ákveðinnar handtökuaðferðar. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að mannvirðingar sé gætt, líka gagnvart fólki sem hefur neytt áfengis óhóflega og að þeir sem stunda löggæslu í miðborg Reykjavíkur um helgar hafi ákveðna þekkingu á fíknivanda. Það er ekki hlutverk lögreglunnar að refsa fólki fyrir óæskilega eða ólöglega hegðun, það er hlutverk dómstóla.
Þeir sem gæta eiga almannahagsmuna, eins og lögreglumenn, skulu gæta meðalhófs og sanngirni við störf. Ef slík gildi ráða ekki för í daglegum störfum lögreglunnar er hætta á að traust almennings til hennar veikist og slíkt væri mjög óæskilegt fyrir samfélagið.
F.h. ráðs Rótarinnar,
Kristín I. Pálsdóttir ritari
GSM 893-9327.“
Eftirfarandi svar barst frá Hönnu Birnu samdægurs:
„Kæra Kristín,
Innilega þakkir fyrir bréfið. Ég tek heilshugar undir þau sjónarmið ykkar að öllum sem koma að almannaþjónustu beri að gæta meðalhófs og sanngirni við störf. Hvað varðar þetta einstaka tilvik þá get ég ekki tjáð mig um það á meðan rannsókn stendur yfir hjá Ríkissaksóknara, en treysti því að málið fái eðlilega og réttláta meðferð þar.
Með góðum kveðjum og þakklæti fyrir mikilvæga vinnu í þágu ykkar skjólstæðinga.
Hanna Birna“