26. nóvember 2015
Þögnin sem ríkti um kynferðisafbrot hefur verið rofin með byltingu. Þolendur slíkra glæpa finna styrkinn í samstöðunni og stuðningnum sem þeir fá þegar þeir segja frá. Rótin fagnar þessu og ekki síst því sem snýr að valdeflingu þolenda.
Hagnýtar leiðbeiningar
Rótin telur gríðarlega mikilvægt að stuðla að uppbyggilegri umræðu um kosti þess og galla að fara með reynslu sína í opinbera umræðu. Góður undirbúningur getur dregið úr erfiðum tilfinningum sem því geta fylgt og af því tilefni hefur Rótin gefið út bæklinginn „Ef fjölmiðlar hafa samband. Leiðbeiningar fyrir brotaþola og aðstandendur“. Bæklingurinn er þýddur úr ensku með góðfúslegu leyfi Canadian Resource Centre for Victims of Crime. Mannréttindaráð Reykjavíkur og Sorpa/Góði hirðirinn styrktu gerð bæklingsins.
Það á að sjálfsögðu að vera á valdi þolenda hvort og hvenær þeir ræða sína sögu við fjölmiðla og eins og kemur fram í leiðbeiningunum hefur slík umræða marga kosti. Tilgangur Rótarinnar er því ekki að draga úr þeim sem kjósa að deila sinni sögu opinberlega heldur að skapa umræðu um kosti þess og galla fyrir brotaþola.
Möguleg áhætta
Í bæklingnum eru nefnd nokkur atriði um mögulega áhættu við að segja frá opinberlega.
Fyrir suma getur það aukið á áfallaviðbrögð af völdum ofbeldis að tala opinberlega um það sem kom fyrir þá. Það tekur tíma að vinna sig út úr afleiðingum ofbeldis, að ekki sé talað um það að höndla lögreglurannsókn, dómsmeðferð og ágenga fjölmiðla. Ekki er hægt að sjá fyrir hvernig fjallað verður um málið. Sum mál fá meiri umfjöllun en önnur, t.d. ef gerandinn er þekktur eða tengist valdaöflum í samfélaginu.
Ef fréttaflutningur er ónærgætinn, ónákvæmur eða í æsifréttastíl getur fólki fundist að brotið sé á því á nýjan leik. Eins er ráðlegt að fara varlega í að tjá sig í fjölmiðlum ef rannsókn lögreglu er í gangi eða þegar málið er fyrir dómstólum, það getur stefnt málinu í hættu.
Strax eftir glæpinn eru fjölmiðlar á stöðugri vakt og saga brotaþola jafnvel áberandi í fréttum. Að lokum taka aðrar fréttir við og þá getur brotaþola þótt hann einn og yfirgefinn. Einnig er rétt að hafa í huga að þegar einu sinni er búið að birta upplýsingar opinberlega er mjög erfitt að bera þær til baka eða eyða þeim. Þá er óvíst að fjölskyldan styðji þolandann og þörf hans til að ræða við fjölmiðla. Einnig getur verið að fjölskyldan vilji ekki opinbera ákveðnar upplýsingar.
Kostir þess að deila sögu sinni opinberlega
En því fylgja sem betur fer margir kostir að fara með mál sitt í opinbera umræðu. Þolandinn getur vakið athygli á ófullnægjandi stefnu stjórnvalda og haft áhrif á breytingar á réttarkerfinu. Umfjöllun um einstaka brotaþola getur hjálpað öðrum að skilja hvaða afleiðingar ofbeldi hefur bæði á þá sem fyrir því verða og ástvini þeirra. Það getur hjálpað brotaþolum framtíðarinnar að vinna úr álagi og kvíða. Sagan getur verið drifkraftur fyrir þá sem vinna við að aðstoða fólk sem brotið hefur verið á. Framkoma í fjölmiðlum getur nýst öðrum og hjálpað þeim að skilja bein áhrif ofbeldisglæpa. Þegar þolandi deilir sínu sjónarhorni með öðrum getur það orðið öðrum hvati til að kæra glæp og leita sér stuðnings.
Það getur verið mjög valdeflandi að segja sögu sína og jafnframt hafa áhrif á réttarkerfið auk þess sem það getur orðið þess valdandi að stuðningur við þjónustuúrræði við þolendur verði aukinn.
Bæklingurinn er aðgengilegur á heimasíðu Rótarinnar: http://www.rotin.is/ef-fjolmidlar-hafa-samband/.
Þessi grein er hluti af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.
Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín Pálsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir, í ráði Rótarinnar.