Fyrstu tveir hóparnir fóru í gegnum námskeiðið „Konur studdar til bata“ á liðnu hausti og tókst mjög vel til eins og greint var frá í þessari frétt um mat þátttakenda á námskeiðinu. Nú er hafið þriðja námskeiðið og sjálfshjálparhópur að auki og að þessu sinni er það haldið í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg.
Einnig barst félaginu eftirfarandi umsögn frá þátttakanda og þökkum við auðmjúklega fyrir þessi fallegu og hvetjandi orð:
Þetta námskeið er stórkostlega magnað að öllu leyti. Ég ætla að vera alveg heiðarleg með það að námskeiðið var mér mjög erfitt og krafðist mikillar vinnu af mér og tók oftar en ekki gríðarlega mikið á andlega og því mikilvægt að hlúa jákvætt að sér.
Ég hef tekið þátt í fjölmörgum námskeiðum, verið í endurhæfingu á mismunandi stöðum s.s. Reykjalundi og NLFÍ. Að öllum ólöstuðum þá hef ég aldrei upplifað neitt þessu líkt, þar sem bókstaflega er farið ofan í kjölinn á öllum sviðum á okkar lífsskeiði. Tekið á hverri frumu líkamans og öllum æviskeiðum.
Þagnarskylda okkar er lesin upphátt í fyrsta tíma svo dæmi sé tekið. Gríðarlega mikilvægt. Í fyrsta tímanum fann ég að ég treysti hverri einustu konu 100%. Mjög sérstök upplifun að gera frá fyrstu byrjun. Þökk sé höfundi og leiðbeinendunum fyrir hversu miklir snillingar þær eru að semja og taka á þessu mjög svo vandmeðfarna málefni. Spurt hvort maður borði hollt og hvort maður þrífi sig sem dæmi.
Námskeiðið framkallaði svita, tár, reiði, gleði, hlátur, „bölv og ragn“ og allt þar á milli.
Það er lagt upp með að maður sé algjörlega heiðarlegur gagnvart sér í öllu viðfangsefnum sem tekið er á. Höfundur efnisins og leiðbeinendurnir okkar gera þetta á algjörlega snilldarlega góðan hátt.
Samsetning hópsins gaf mér gríðarlega mikið. Við spönnuðum yfir fjóra áratugi í aldri og alls konar vinklar komu fram út frá því sem gaf mér mikið.
Leiðbeinendurnir Katrín Guðný og Guðrún Ebba eru algjörir snillingar í meðförum þessa vandmeðfarna efnis. Þær nálguðust okkur af næmni, varfærni, innsæi, fagmennsku, virðingu, raunsæi, trausti skilningi og á jafningjagrunni. Þær náðu að draga fram og vinna með hlutina á svo réttsýnan, hlýjan og fölskvalausan hátt.
Höfundurinn leggur efnið gríðarlega vel upp. Hver mínúta skipulögð hvort sem það var að hlusta á leiðbeinendur, vinna mismunandi verkefni í sjálfsvinnu eða leika hlutverkaleiki saman. Heimavinnan mjög mikilvæg. Leiðbeinendurnir gerðu skýra grein fyrir því áður en námskeiðið hófst til hvers væri ætlast af manni og að þetta krefðist mikillar vinnu sem var mjög mikilvægt að vita áður. Því það gerir þetta námskeið svo sannarlega.
Janúar 2019.