Nýverið fékk heilbrigðisráðuneytið afhent stöðumat á vímuefnameðferðarkerfinu sem unnið var af erlendum sérfræðingi, dr. Thomasi Kattau, sem nýlega lauk störfum sem aðstoðarframkvæmdastjóri Pompidou-hópsins, sem er samstarfsvettvangur Evrópuráðsins í vímuvörnum.
Í stöðumatinu er áhersla á að bæta þurfi aðgengi og afkastagetu kerfisins, klára þurfi nýja vímuefnastefnu, koma á gæðaviðmiðum fyrir meðferð, bæta menntun í málaflokknum m.a. með samstarfi við erlendar menntastofnanir, tengja Ísland betur við alþjóðlega sérfræðiþekkingu t.d. með samstarfi við European Union Drugs Agency – EUDA – og þá er bent á styrkjamöguleika Evrópustofnana sem gætu orðið góður stuðningur við þróun meðferðarstarfs hér á landi.
Mikilvægt er að nýta stöðumatið til þess að bæta meðferðarkerfið hér á landi, en þar eru mörg sóknarfæri eins og segir í skýrslu Thomasar:
„Skortur á kerfisbundnu eftirliti með eftirspurn eftir meðferð vegna áfengis- og vímuefnavanda á Íslandi skapar verulegar gloppur í skilningi á vandanum og í því að takast á við hann. Þó að reynt sé að fylgjast með almennri þróun og útbreiðslu vímuefnanotkunar skortir núverandi aðferðir þá dýpt og samræmi sem þarf til að fylgjast með breytingum í rauntíma og mismunandi stöðu eftir landshlutum. Þessi skortur á fullnægjandi eftirliti kemur í veg fyrir að brugðist sé á áhrifaríkan hátt við aukinni notkun og breyttu neyslumynstri, að fjármagni sé úthlutað á skilvirkan hátt og að markviss inngrip séu þróuð. Þegar heildstæð gögn um eftirspurn eftir meðferð eru ekki til staðar er hætta á að horft sé fram hjá því að ákveðna þjónustu skorti. Þetta getur leitt til þess að fólk með fíknivanda fái þjónustuna seint eða á ófullnægjandi hátt. Skortur á réttu eftirliti grefur því undan forvarnarstarfi, skapar álag á heilbrigðisþjónustu og gerir langtíma félagsleg og efnahagsleg áhrif vímuefnaneyslu þungbærari á Íslandi.
Mikilvægt að veita eftirfarandi lykilatriðum sérstaka athygli:
Þó að Ísland njóti góðs af nánu samfélagi fagfólks, þá eru verulegar áskoranir í því að veita árangursríka meðferð, skaðaminnkun og endurhæfingarþjónustu. Skortur á úrræðum, sérhæfðri umönnun fyrir jaðarhópa og takmörkuð meðferðarúrræði hafa áhrif á aðgengi, framboð og gæði meðferðarþjónustu. Þröskuldar og biðlistar sem takmarka aðgang ásamt kerfisbundnum samhæfingar- og samvinnuvanda innan heilbrigðiskerfisins stuðla að töfum og skaðlegum afleiðingum, þar með talið dauðsföllum sem hægt er að koma í veg fyrir. Auk þess geta hugmyndafræðileg áhrif og pólitísk hagsmunagæsla hindrað nauðsynlegar umbætur. Skortur á alþjóðlegum tengslum og gagnasöfnun takmarkar enn frekar möguleikana til að innleiða og tileinka sér nútímalegar aðferðir til skaðaminnkunar. Ef tekist er á við þessar áskoranir með samvinnu og á heildrænan hátt mun það auka skilvirkni þeirrar þjónustu sem veitt er.“
Eftirfarandi eru svo helstu niðurstöður og tillögur stöðumatsins:
Í hnotskurn
Verulegur árangur hefur náðst í að draga úr vímuefnaneyslu ungs fólks á Íslandi, þökk sé markvissum forvarnaáætlunum og aukinni samfélagsþátttöku. Þessar aðgerðir hafa stuðlað að áhrifaríkri vitundarvakningu og heilbrigðari ákvörðunum. Til að byggja á þessum árangri þarf hins vegar þarf að beina sjónum að ákveðnum kerfislægum áskorunum innan meðferðarkerfisins. Með því að efla samhæfingu, bæta aðgengi og auka gæði þjónustunnar getur Ísland haldið áfram að draga úr vímuefnanotkun og þeim skaða sem henni fylgir.
Lykilniðurstöður
Tækifæri til úrbóta: Þó að hagaðilar séu meðvitaðir um að framfarir hafi orðið í forvörnum, er víðtæk samstaða um þörf á aukinni samhæfingu og skýrari stefnumótun. Núverandi meðferðarkerfi býr að mörgum verðmætum þáttum en umbætur og aukin þjónusta myndi leiða til betri árangurs.
Þörf fyrir nýjan stefnuramma: Uppfæra þarf landsstefnu Íslands í áfengis- og vímuvarnamálum, sem rann út árið 2020, til að endurspegla núverandi þróun í notkun vímuefna. Ný, heildræn stefna myndi auka aðgengi að meðferð, bæta bráðaþjónustu og efla stuðningskerfi fyrir þá sem hafa orðið fyrir neikvæðum áhrifum fíknivanda.
Auka eftirlit og gagnasöfnun: Vöntun á kerfisbundnu eftirliti með eftirspurn eftir meðferð felur í sér verulegar áskoranir við að skilja og takast á við vímuefnavanda. Aukin og bætt gagnasöfnun, sérstaklega að því er varðar eftirspurn eftir meðferð og mismunandi stöðu eftir landshlutum, myndi skapa svigrúm fyrir gagnvirkari og upplýstari stefnumótun.
Að takast á við takmarkanir úrræða: Meðferðarkerfið stendur frammi fyrir skorti á úrræðum, þar á meðal takmarkaðri afkastagetu og skorti á sérhæfðu starfsfólki. Langur biðtími eftir meðferð og mati á þjónustuþörfum er áhyggjuefni. Lykillinn að því að mæta vaxandi eftirspurn eftir þjónustu er að vinna skipulega að því að auka afkastagetu.
Að færast í átt að fjölbreyttari þjónustu: Viðurkennd og nauðsynleg þörf er á að skipta frá þjónustumiðaðri umönnun yfir í sjúklinga/einstaklingsmiðaða umönnun. Að sníða meðferðaráætlanir að einstökum þörfum einstaklinga, frekar en að sníða þær inn í fyrirliggjandi líkön, myndi bæta skilvirkni inngripa og styðja við langtímabata.
Auka skaðaminnkunarþjónustu: Sú skaðaminnkunarþjónusta sem þegar er fyrir hendi á Íslandi hefur verið jákvætt skref fram á við. Hins vegar, með vaxandi ópíóíðavanda, þarf að auka þessa þjónustu og laga hana til að mæta núverandi og nýjum áskorunum, sérstaklega fyrir yngra fólk.
Efling samhæfingar og samstarfs: Náið samfélag fagfólks á Íslandi hefur stuðlað að óformlegu samstarfi en vaxandi þörf er á formgera það. Skýrari hlutverka- og ábyrgðarskipting allra hagsmunaaðila myndi tryggja samræmdari og skilvirkari þjónustu.
Tillögur
1. Bæta aðgengi og afkastagetu: Setja ætti í forgang að stytta biðtíma og auka aðgengi að meðferð. Þessu er hægt að ná með því að færa inntökuferla til nútímalegra horfs, auka göngudeildarþjónustu og nýta fjarheilbrigðislausnir, sérstaklega fyrir þá sem eru á afskekktum svæðum.
2. Samþykkja nýja áfengis- og vímuefnastefnu: Ísland myndi njóta góðs af endurnýjaðri stefnu þar sem markmið og tilgangur vímuefnameðferðar kemur skýrt fram, með áherslu á batamiðaða nálgun. Slík stefna myndi vera leiðbeinandi við nýtingu úrræða og tryggja að þjónustan sé sniðin að fjölbreyttum þörfum notenda.
3. Útfæra heildstæða aðgerðaáætlun: Aðgerðaráætlun sem dregur skýrt fram hlutverka- og ábyrgðarskiptingu allra hagsmunaaðila og er studd af viðeigandi úrræðum, myndi styrkja samhæfingu og samvinnu á meðal hagaðila. Slík áætlun myndi stuðla að samvinnu og aukinni ábyrgð þvert á málefnasviðið.
4. Auðvelda samskipti og ábyrgð hagsmunaaðila: Formlegur stýrihópur, undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins, myndi efla samskipti og samhæfingu milli hagsmunaaðila, tryggja samfellu og stuðla að skilvirkari þjónustu á réttum tíma.
5. Setja viðmið fyrir meðferð: Heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við viðeigandi hagsmunaaðila, ætti að þróa innlend viðmið fyrir meðferð sem byggist á bestu alþjóðlegu starfsvenjum. Slík viðmið myndu tryggja samræmi, gæði og skilvirkni í þjónustu.
6. Auka getu til að þjálfa fagfólk: auka hæfni sem fyrir er, taka upp samstarf við menntastofnanir í öðrum löndum, virkja hagsmunaaðila til að byggja upp hæfni og nota fjarnám og námsleiðir á netinu.
7. Taka þátt í alþjóðlegu vísindastarfi: Ísland ætti að íhuga samstarf við Vímuefnastofnun Evrópusambandsins (EUDA) til að njóta góðs af sérfræðiþekkingu við að takast á við nýjar áskoranir í þróun vímuefnamála. Þátttaka í viðvörunarkerfum EUDA myndi styrkja getu Íslands til að sjá fyrir og bregðast við þróun vímuefnamála.
8. Kanna möguleika á alþjóðlegum styrkjum: Sem aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) hefur Ísland aðgang að ýmsum styrkáætlunum ESB. Með því að kanna þessi tækifæri væri hægt að auka úrræði til að styrkja lýðheilsuverkefni, þar með talið meðferð og forvarnir við vímuefnanotkun.
Niðurstaða
Ísland hefur sterkar undirstöður til að takast á við vímuefnavanda og mikilvæg tækifæri til að byggja á. Með aukinni samhæfingu, bættu aðgengi að meðferð og með því að taka upp sjúklinga/einstaklingsmiðaða nálgun getur Ísland haldið áfram að draga úr skaða vegna vímuefnanotkunar. Nýr stefnurammi sem studdur er heildstæðri aðgerðaáætlun og frekara samstarfi hagsmunaaðila, er lykillinn að því að ná betri árangri og tryggja heilbrigðari framtíð fyrir alla.
Sjá nánar á vef heilbrigðisráðuneytisins.
Ath. Efnið er hér sett fram í þýðingu Rótarinnar.