0
Karfan þín

Rökstuðningur vegna slita Kvenfélags SÁÁ – Til stjórnar SÁÁ

Myndaniðurstaða fyrir "kvenfélag SÁÁ"

Eftirfarandi bréf var sent til stjórnarmanna í stjórn SÁÁ 20. febrúar 2013. Engin viðbrögð hafa borist við bréfinu.

Til stjórnar SÁÁ.

Á fundi í ráði Kvenfélags SÁÁ sem haldinn var föstudaginn 15. febrúar 2013 var samþykkt að boða til félagsfundar og leggja þar fram þá tillögu að félaginu verði slitið skv. lögum félagsins.

Ástæður fyrir slitum eru einkum þessar:

  • Samstarfserfiðleikar við Gunnar Smára Egilsson formann SÁÁ. Sjá nánar meðfylgjandi spurningar sem sendar voru með tölvupósti til Gunnars Smára 11. febrúar en ekki hafa fengist nein svör við.
  • Síendurteknar ásakanir frá Gunnari Smára um að Kvenfélagið vinni gegn SÁÁ, starfi í andstöðu við fagfólkið og veiki þar með starfsemi SÁÁ án þess að nokkur rökstuðningur fylgi og þrátt fyrir að ítrekað hafi verið óskað eftir honum.
  • Trúnaðarbrestur eftir að formaður SÁÁ sendi tölvupóst, sem augljóslega var eingöngu ætlaður ráði Kvenfélagsins, til allra stjórnarmanna SÁÁ.

Meðfylgjandi eru tölvupóstar sem tengjast málinu.

Frekari rökstuðningur fyrir ákvörðun um slit Kvenfélags SÁÁ:

Undirbúningur að stofnun Kvenfélags SÁÁ hófst vorið 2012. Konur innan SÁÁ fengu hvatningu frá forráðamönnum félagsins um að taka málin í sínar hendur og stofna með sér félag. Við tókum þessu tækifæri fagnandi enda margar vísbendingar um að opnast væri fyrir breytingar og dýpri sýn á kvennaveruleikann í tengslum við vímuefnavanda.

Það var strax ljóst hverjar áherslur okkar yrðu. Við viljum að áhrif ofbeldis og áfalla á konur með fíknivanda séu skoðuð og meðhöndluð í tengslum við meðferð á fíkn. Flest af því sem við höfum unnið að síðan kemur fram í þessu viðtali við Guðrúnu Kristjánsdóttur í maí 2012.

Ef eitthvað er hefur trú okkar styrkst á þá nálgun að ekki sé hægt að meðhöndla konur vegna fíknar án þess að horft sé til þeirra félagslegu áhrifa sjúkdómsins alkóhólisma sem t.d. valdaójafnvægi kynjanna veldur. Það er gert víða á virtustu meðferðarstofnunum heims sbr. Hazelden-stofnuninni í Bandaríkjunum. Alkóhólismi er, jú, andlegur, líkamlegur og félagslegur sjúkdómur og svo virðist sem mikið vanti uppá að félagslegar hliðar sjúkdómsins og andlegar afleiðingar þeirra, allavega að því er varðar konur, hafi verið nægilega rannsakaðar og meðhöndlaðar.

Frá stofnun félagsins höfum við unnið í fullu samræmi við markmiðin í lögum þess. Svo virðist sem forráðamenn SÁÁ hafi haft aðrar hugmyndir um félagsstarfið og fljótlega fór að bera á því að okkur væri ekki fyllilega treyst til að haga félagsstarfinu þannig að það félli að einhverjum óljósum viðmiðum um viðtekin vinnubrögð hjá SÁÁ. Við höfum síður en svo talið að þörf væri á slíkri stýringu þar sem markmið félagsins eru mjög skýr. Gagnrýnin á starfsemi Kvenfélags SÁÁ hefur verið óvægin og órökstudd og við höfum ekki enn fengið skýr svör við því á hvern hátt starf okkar stangast á við fagleg sjónarmið forystu SÁÁ.

Við stofnuðum félag áhugafólks, innan samtaka áhugafólks, en eftir undangengna reynslu erum við orðnar mjög undrandi á því hvernig SÁÁ starfar og okkur sýnist að ekki sé neitt svigrúm innan samtakanna fyrir lýðræðislega grasrótarstarfsemi. Ef marka má samskipti okkar við formanninn mætti ætla að um læknisfræðileg samtök væri að ræða sem hefðu það hlutverk helst að senda frá sér vísindalegar niðurstöður. Það stangast hins vegar á við margt í rekstri samtakanna, samanber það að margt er rætt undir þeirra hatti sem ekki telst vísindalega sannað.

Einnig stangast þessi túlkun á við orð Þórarins Tyrfingssonar á síðu SÁÁ þar sem hann segir að SÁÁ séu „fyrst og fremst pólitískur vettvangur fyrir einstaklinga til að vinna að áfengis- og vímuefnavörnum.“

Vinna okkar hefur víða vakið athygli. Við fáum hvatningu úr öllum áttum. Stofnanir og fræðasamfélagið hafa sýnt okkur áhuga og konurnar í félaginu hafa tekið þessu tækifæri til að koma góðu til leiðar fagnandi.

Aðeins á einum stað hefur starfi okkar verið tekið af mikilli tortryggni og neikvæðni og það er hjá forráðamönnum SÁÁ. Þaðan höfum við ekki fengið neina hvatningu. Lítið er gert úr okkar mikilvægu mannréttindabaráttu fyrir hönd kvenna með því að kalla málefnið „áhugamál“. Formaðurinn sakaði okkur meira að segja um að tilgangur okkar sé sá að búa til óvini eða eins og hann orðar það í tölvupósti: „Það má sjálfsagt búa til hvaða skepnu sem er úr SÁÁ ef fólki vantar andstæðing að glíma við.“ Á fundi þar sem ráðskonur báðu Gunnar Smára að rökstyðja þessi ummæli axlaði hann enga ábyrgð á þeim og hefur síðan ekki svarað okkur einu orði um þær ásakanir og dylgjur sem við höfum fengið frá honum.

Steininn tók svo endanlega úr þegar formaðurinn sá sig knúinn til að senda tölvupóst, sem hann var vel meðvitaður um að væri ekki til hans, á alla stjórn og lykilstarfsmenn SÁÁ. Eftir það var ljóst að við höfum ekkert meira að ræða undir hatti SÁÁ. Engin leyndarmál voru í tölvupóstinum, eingöngu upplýsingar um að greinargerðin, sem ráðið hefur sent frá sér til að kynna sín málefni í samræmi við markmið félagsins, hafi verið send á nokkra aðila sem fjalla á einhvern hátt um konur, fíkn og/eða ofbeldi. Greinargerðin hefur verið opinber á netinu síðan 6. febrúar þegar hún var send á allar félagskonur og er langt því frá eitthvert leyniskjal heldur tæki til að ná fram okkar markmiðum; bættum hag kvenna með fíknivanda og til að halda uppi umræðu um málefnið.

Okkur ráðskonum er hulin ráðgáta af hverju formaðurinn telur að efni tölvupóstsins hafi verið kveikja að umræðu innan stjórnar SÁÁ. Við höfum nú ákveðið að taka ekki þátt í þeirri umræðu en sendum þetta kveðjubréf á stjórn og stjórnarfund.

Við höfum ekki áhuga á að nýta orku okkar í baráttu fyrir málfrelsi og sjálfákvörðunarrétti né sættum við okkur við ritskoðun. Okkar grasrótarhreyfing byggist á opnum, heiðarlegum og lýðræðislegum vinnubrögðum sem ekki virðist rými fyrir innan SÁÁ.

Reykjavík 20. febrúar 2013

Árdís Þórðardóttir,

Guðrún Ebba Ólafsdóttir,

Guðrún Kristjánsdóttir,

Gunnhildur Bragadóttir,

Ilmur Kristjánsdóttir,

Katrín Björk Eyjólfsdóttir,

Kristín I. Pálsdóttir og

Þórlaug Sveinsdóttir.

Gögn er varða slit Kvenfélags SÁÁ

4. mars 2013

Vegna margra fyrirspurna um ástæður þess að verið er að leggja Kvenfélag SÁÁ niður og stofna Rótina birtum við hér þau gögn sem send voru á félagskonur í Kvenfélaginu og á stjórn SÁÁ eftir ákvörðun um að leggja fram tillögu um slit félagsins:

Bréf til GSE með ósk um skýringar, 11. febrúar 2013.

Bréf til stjórnar SÁÁ vegna slita félagsins.

Bréf til félaga í Kvenfélagi SÁÁ vegna slita félagsins.

Tölvupóstsamskipti GSE og Kvenfélags SÁÁ.

Tölvupóstsamskipti í aðdraganda slita Kvenfélags SÁÁ.

Greinargerð um stofnun Kvenfélags SÁÁ.

DEILA: