Eftirfarandi erindi flutti Kristín I. Pálsdóttir, talskona og framkvæmdastýra Rótarinnar, á málstofunni Mannréttindi – innan lands og utan sem haldin var Mannréttindaskrifstofu Íslands 26. apríl 2023.
Kynjajafnrétti og vímuefnavandi
Kynjajafnrétti telst til grundvallarmannréttinda og á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á kynjajafnrétti þegar kemur að stefnumótun og þjónustu við konur, og þau sem ekki eru karlar, í alþjóðlegri stefnumótun í málefnum fólks með vímuefnavanda. Þetta á við hvort sem er á sviði meðferðar, stefnumótunar eða rannsókna.
Það er ekki að ástæðulausu þar sem hvert sem litið er þrífst kynjamisrétti og ekki síst í þeim hópum sem búa við skert félagsleg réttindi og stöðu, eins og á meðal fólks í skaðlegri vímuefnaneyslu og á meðal heimilislauss fólks.
Misrétti gegn konum hefst oft við fæðingu og mótar tilveru þeirra á öllum stigum lífsins. Þegar horft er til kvenna með vímuefnavanda er staðan oft þannig að vímuefnanotkun og ofbeldi haldast hönd í hönd.
Konur og fíknistefna
Á seinni hluta 20. aldar óx þeirri hugmynd mjög ásmegin að vímuefnavandi væri aðallega líkamlegur sjúkdómur sem hefði fáa snertifleti við félagslega þætti, þ.m.t. kyn eða gender. Ekki var minnst á ‚konur‘ eða ‚kyn‘ í alþjóðasamningum Sameinuðu þjóðanna um ávana- og fíkniefni frá árunum 1961 og 1971. Konur sem glímdu við fíknivanda voru ósýnilegar, jaðarsettar og bjuggu við félagslegt óréttlæti.[1]
Konur koma fyrst í kastljós fíknifræðanna eftir alþjóðlega kvennaárið 1975 og árið 1980 kom út fyrsta efnið um konur með vímuefnavanda. Þar er því haldið fram að rannsóknir á konum með vímuefnavanda séu í raun ekki til (e. non-field) og að hvergi væri minnst á kyn eða konur í fræðiefni eða stefnuskjölum.[2]
Vanþekking á þörfum kvenna
Hér á landi hefur hið svokallaða Minnesota-líkan sem flutt var inn frá Bandaríkjunum á áttunda áratugnum verið mjög ríkjandi í stefnumótun og þjónustu við fólk með vímuefnavanda.
AA-samtökin, þar sem Minnesota-líkanið er upprunnið, hafa haft gríðarleg áhrif á hugmyndir okkar um fíkn og fíkniefni. Skýringar samtakanna á alkóhólisma sem andlegum sjúkdómi, en þó jafnframt ólæknandi heilasjúkdómi, viðhalda úreltum staðalímyndum um kynþátt, stétt, kynjaða sjálfsmynd og viðhalda frekar en storka eðlishyggjuhugmyndum um að hvítir karlar hafi náttúruleg forréttindi.[3]
Félagsfræðingurinn Elisabeth Ettorre útskýrir Minnesota-líkanið, og þá sýn sem var ríkjandi á síðustu öld, og er því miður enn ríkjandi í stefnumótun á Íslandi, þannig að í því sé litið á vímuefnavanda sem heilasjúkdóm, einstaklingurinn sé í forgrunni og horft fram hjá stéttarstöðu, kyni, kynverund, aldri, þjóðernisuppruna og kynþáttamismunun. Þetta kallar hún hina klassíska nálgun á fíknivanda.[4]
Í dag þurfum við hins vegar að taka inn í reikninginn félagslegan ójöfnuð, kynþáttamismunun, stéttarstöðu, kyn og kynverund. Horfa til valdatengslakenninga og bregðast við ójafnrétti milli kynja í samræmi við leiðbeiningar og ákall alþjóðastofnana. Þessa nálgun kallar Ettorre póst-móderníska nálgun á fíkn.
Þær Ettorre og Nancy Campbell, sem rannsakað hafa sögu meðferðar og þjónustu við konur og stúlkur í Bandaríkjunum og Evrópu, benda á að hún sé iðulega veitt á grunni vanþekkingar á meðferðarþörfum þeirra, og byggi því á epistemologies of ignorance. Þær sækja hugtakið í þann anga kvennahreyfingarinnar sem hefur unnið að úrbótum í hag heilsu kvenna en það lýsir því hversu lítil þekking er í raun á þörfum kvenna í heilbrigðis- og velferðarkerfum.[5]
Hegðunarmótun
Meðferð hefur oft verið hegðunarmótandi, ekki síst meðferð stúlkna, eins og Rótin hefur t.d. bent á í skýrslu um greinargerð Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um Varpholt/Laugaland þar sem stúlkur voru vistaðar við illan leik til ársins 2007.[6]
Þó að vinna með hegðun sé hluti meðferðar skal varast ofuráherslu á hlýðni, það sem á ensku er kallað compliance[7] en það virðist hafa verið helsta markmið meðferðar í Varpholti. Flestar stúlkur sem koma til meðferðar vegna vímuefnavanda eða „hegðunar“ eiga sér sögu þar sem hægt er að leita skýringa á vanda þeirra, sem kallar á valdeflandi nálgun. Markmið meðferðar á Laugalandi og Varpholti á árunum 1997-2007 virðist hins vegar hafa miðað að því að búa til þægar og undirgefnar stúlkur og markvisst virtist unnið að því að brjóta niður vilja þeirra og sjálfstæði.
Af framansögðu má vera ljóst að nauðsynlegt er að vinna skipulega að því að breyta og bæta stefnumótun og þjónustu en kannski ekki síst menntun og að efla rannsóknarstarf í málaflokknum, því án þess öðlumst við ekki gagnreynda þekkingu sem er undirstaða góðs heilbrigðis- og velferðarkerfis sem byggir á mannréttindum.
GREVIO-nefndin
Nefnd Evrópuráðsins um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (GREVIO), gaf út skýrslu sína[8] á síðasta ári um stöðu málaflokksins hér á landi en nefndin hefur eftirlit með framkvæmd Istanbúl-samningsins[9]. Þar segir að kerfi hérlendis séu ekki nægilega í stakk búin til að bregðast við ofbeldi gegn jaðarsettum hópum, svo sem konum af erlendum uppruna, konum með fötlun eða konum með vímuefnavanda. Þá segir að nefndin „mælist eindregið til þess að íslensk stjórnvöld grípi til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að konum með vímuefnavanda og konum í vændi sé tryggð örugg gistiaðstaða ásamt lagalegri og sálfræðilegri ráðgjöf og stuðningi, sem mætir þörfum þeirra sem þolendum ofbeldis. Þá skal þeim veitt önnur sú þjónusta sem þær þurfa á hátt sem þeim hentar.“
Þá er bent á að konur með vímuefnavanda hafi ekki aðgang að Kvennaathvarfinu, og ég bæti því við að það skýtur vægast skökku við þar sem fáir hópar eru í meiri þörf fyrir kvennaathvarf en þær enda segir í einnig: “Ákvæði 4. gr. 3. mgr. Istanbúl-samningsins um vernd þolenda krefst þess að öllum konum sem búa við eða eru í hættu á að verða fyrir ofbeldi sé framkvæmd án nokkurrar mismununar. Sérstaklega skal gætt að þeim sem eru í hættu vegna samtvinnunar mismunabreyta, eins og kvenna með vímuefnavanda og kvenna í vændi, sé ekki mismunað.“[10] Í skýrslunni er bent á almennt séu konur sem búa við fjölþætta mismunun, eins og konur með vímuefnavanda, ekki teknar með í stefnumótunarskjölum hins opinbera á skipulagðan hátt.
Jaðarsett fólk, jaðarsettur málaflokkur
Fólk með vímuefnavanda er ekki bara jaðarsett, málaflokkurinn er það líka. Þjónusta við fólk með fíknivanda er mjög oft í höndum félagasamtaka en ekki innan hins almenna heilbrigðis- eða velferðarkerfis. Eftirlit og gæðakröfur eru ekki fullnægjandi, stefnumótun vantar, klínískar leiðbeiningar, leiðbeiningar og viðmið við rekstur úrræða eru ekki heldur til staðar. Þá vantar víða samráð við notendur t.d. með þjónustukönnunum og ef þessar upplýsingar eru á annað borð til eru þær ekki opinberar. Nú er t.d. búið að vinna að því í mörg ár að koma skráningu á Vogi inn í lögbundna vistunarskrá sjúkrahúsa án þess að það hafi klárast[11] og Landlæknisembættið gefur ekki upplýsingar um atvikaskráningu á meðferðarstöðvum.
Opinberir aðilar eru oft ekki með skýr viðmið um hvaða þjónustu skal kaupa eða hvernig hún á að vera. Þannig eru t.d. sumar af stærstu meðferðarstöðvum landsins ekki með stjórnendur sem hafa starfsleyfi frá Landlækni né menntun við hæfi. Rótin hefur síendurtekið vakið athygli á menntunarmálum áfengis- og vímuefnaráðgjafa sem yfirvöld viðurkenna að séu í ólestri en ekkert gerist. Á meðan er langt því frá að fólk með vímuefnavanda fái þjónustu sem fellur undir þau grunnmannréttindi sem felast í bestu mögulegu heilsu.
Þá er einnig algengt að í þjónustu félagasamtaka felist krafa um að mæta á trúarlegar eða aðrar samkomur sem fela í sér hugmyndafræðilega undirgefni og til að allir skuli „frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar“, í samræmi við 18. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sþ, ættu stjórnvöld að innleiða í stefnumótun að kaupa ekki slíka þjónustu.[12]
Konukot
Rótin rekur nú Konukot – neyðarskýli fyrir heimilislausar konur – í samstarfi við Reykjavíkurborg sem hefur gert skaðaminnkandi stefnu leiðarljós í sinni vinnu með fólk með vímuefnavanda og hefur einnig brugðist vel við áskorunum Rótarinnar um að skoða þjónustu við konur sérstaklega.
Í kröfulýsingu sem fylgir samningi Rótarinnar við Reykjavíkurborg segir að þjónustan í Konukoti skuli byggjast á mannréttindum og skal mannréttindastefna Reykjavíkurborgar höfð að leiðarljósi. Þjónustan skal vera „áfalla- og kynjamiðuð og fylgja viðmiðum um öryggi, trúverðugleika og gagnsæi, jafningjastuðning, samvinnu og gagnvirkni, valdeflingu og val“. Hún á líka að vera í samræmi við hugmyndafræði skaðaminnkunar, einstaklingsmiðuð, valdeflandi og viðhafa samvinnu og notendasamráð. Þegar Rótin tók við starfseminni í Konukoti kom inn í kröfulýsingu, að ósk félagsins, að þar yrði unnið eftir áfalla og kynjamiðaðri nálgun og „konur sinna konum“-viðmiði.
Rótin hefur unnið ötullega að auknum mannréttindum gesta Konukots í samstarfi við Reykjavíkurborg, bæði í okkar rekstri og með því að þrýsta á yfirvöld, bæði borgina og ríkið. Þetta hefur strax skilað sér í bættum gæðum í starfinu, færri atvikum og bættri þjónustu. Hluti af þessu ferli var að bæta kjör starfskvenna með samningum við Eflingu sem tryggja þeim sömu kjör og öðru starfsfólki neyðarskýla Reykjavíkurborgar, með ráðningu teymisstjóra og fræðsluáætlun.
Stefna skiptir miklu máli og lýðheilsa og mannréttindi þurfa að vera grunnurinn, hvort sem er í lítilli einingu eins og Konukoti, í sveitarfélögunum, á landsvísu eða í alþjóðastarfi.
Breytingar á fíknistefnu
Miklar sviptingar eiga sér nú stað í fíknistefnu í heiminum. Í Evrópu er verið að innleiða skaðaminnkunar- og mannréttindastefnu og snúa frá refsistefnu. Hafa bæði Evrópuráðið og EMCDDA, European Monitoring Center on Drugs and Drugs Addiction (sem væntanlega verður breytt í European Drug Agency í nánustu framtíð og hlutverk stofnunarinnar útvíkkað) unnið að því að snúa kompásnum í mannréttindaátt og hluti af þeirri vinnu, hjá báðum stofnunum, er útgáfa á leiðbeiningum um innleiðingu stefnu og þjónustu við konur með vímuefnavanda.[13] Hægar gengur hjá fíknistofnunum Sameinuðu þjóðanna að taka upp mannréttamiðaða stefnu þar sem valdamikil, ríki sem höll eru undir valdstjórn, koma í veg fyrir það.
Fíknistefna á Íslandi
Hér á landi hefur gengið hægt að breyta stefnunni á landsvísu en við skynjum vilja hjá stjórnvöldum að herða á breytingum í átt til nútímalegrar stefnu sem byggir á nýjustu þekkingu þar sem skaðaminnkun, mannréttindi og jafnrétti er í fyrirrúmi en svo virðist sem kjarkinn bresti þegar til á að taka.
Skaðaminnkun er sérstaklega mikilvæg fyrir konur í þungri neyslu og með mikinn félagslegan vanda en það þarf að innleiða hana miðað við að við erum jafnréttissinnað velferðarríki og það þarf að aðlaga hana að því. Alþjóðlega skaðaminnkunarhreyfingin hefur fram að þessu ekki verið mjög kynjameðvituð.
Mesta fyrirstaðan í breytingum á fíknistefnu eru stjórnmálamenn sem eru mótaðir af eldri hugmyndum um vímuefnamál og eru ekki tilbúnir til breytinga. Miklar breytingar hafa þó orðið á undanförnum árum og sú þróun heldur vonandi áfram. Öll Norðurlöndin standa í þeim sporum að þurfa að endurskoða sína fíknistefnu og í Evrópu á sér stað mikil breyting í mannréttindaátt.
Ansi langt er í land víða að um lönd að jafnrétti og mannréttindi séu ríkjandi í málefnum kvenna með vímuefnavanda. Íslendingar sem eru heimsmeistarar í jafnrétti hafa tækifæri til að beita sér í alþjóðastarfi á þessu sviði og nýta sérþekkingu okkar til að stuðla að auknum mannréttindum kvenna og kvára með vímuefnavanda. Við gerum það með öflugri stefnumótun, framkvæmd og rannsóknum hér á landi, við erum jú hið fullkomna „pilot-verkefnis“ land í slíkt verkefni.
[1] Elizabeth Ettorre. 2007. Revisioning women and drug use: gender, power and the body, Macmillan, bls. 5.
[2] Kalant O. J. (1980), Alcohol and drug problems in women, Research Advances in Alcohol and Drug Problems, Vol. 5, Plenum Press, New York/London.
[3] Lori Rotskoff. 2003. Love on the Rocks. Men, Women, and Alcohol in Post-World War II America.
[4] Elizabeth Ettorre. 2007. Revisioning women and drug use: gender, power and the body, Macmillan, bls. 9-13.
[5] Campbell, N. D. & E. Ettorre. 2011. Gendering Addiction. The Politics of Drug Treatment in a Neurochemical World. Houndmills, England: Palgrave Macmillan.
[6] Kristín I. Pálsdóttir. 2022. Greinargerð um réttlæti og reynslu kvenna af vistun í Varpholti/Laugalandi: https://www.rotin.is/heimsokn-og-greinargerd-til-forsaetisradherra-vegna-varpholts/.
[7] Larry K. Brendtro. 2004. From coercive to strength-based intervention: Responding to the needs of children in pain https://cyc-net.org/profession/readarounds/ra-brendtro.html.
[8] GREVIO. 2022. Basaline Evaluation Report. Iceland. Sjá: https://www.coe.int/en/web/istanbul-convention/-/grevio-publishes-its-report-on-iceland.
[9] Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. 2011 Sjá: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=0f41ca88-7e72-11e7-941c-005056bc530c.
[10] Group of Experts on Action against Violence against Women and Domestic Violence (GREVIO). 2022 GREVIO Evaluation Baseline Report. Iceland. https://rm.coe.int/grevio-inf-2022-26-eng-final-report-on-iceland/1680a8efae.
[11] Ríkisendurskoðun. 2022. Geðheilbrigðisþjónusta. Stefna – skipulag – kostnaður – árangur. Stjórnsýsluúttekt, bls. 14. Sjá: https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2022-gedheilbrigdismal.pdf.
[12] Mannréttindayfirlýsing Sþ. Sjá: https://www.humanrights.is/is/mannrettindi-og-island/helstu-samningar-og-yfirlysingar/sameinudu-thjodirnar/mannrettindayfirlysing-sameinudu-thjodanna
[13] EMCDDA. 2023. Women and drugs: health and social responses: https://www.emcdda.europa.eu/publications/mini-guides/women-and-drugs-health-and-social-responses_en og CoE, Pompidou Group. 2022. Implementing a gender approach in different drug policy areas: from prevention, care and treatment services to law enforcement and the criminal justice system: https://rm.coe.int/2022-ppg-implementing-a-gender-approach-in-drug-policies-a-pg-handbook/1680a66835.