Rótin styður félaga á lokað námskeið í áfallamiðuðu jóga. Námskeiðið hentar þeim sem hafið hafa bataferli vegna fíknar og eru með áfallasögu.
Áfallamiðað jóga hentar einstaklingum sem hafa upplifað áföll og lifa með afleiðingum þess. ÁMJ er ætlað einstaklingum sem hafa orðið fyrir flóknum áföllum og er sérstaklega þróað með þá í huga. Flókin áföll (e. complex trauma) hafa djúpstæð áhrif og tengjast erfiðri reynslu, samskiptum og aðstæðum, ekki síst þeim sem gerðust í æsku.
Áföll geta haft mikil áhrif á líkamlega líðan, upplifun á eigin líkama og tengingu við hann. Helstu áhersluþættir í ÁMJ er að einstaklingur upplifi að hann hafi sjálfur stjórn, hafi raunverulegt val og tengist líkama sínum í öruggu umhverfi. Hugað er að þessum þáttum með því að gefa þátttakendum möguleika á að beina athygli að innri skynjun, að velja og ákveða fyrir sig, finna eigin mörk og vera hér og nú. Farið er rólega í æfingar og þær gerðar á forsendum hvers og eins. ÁMJ getur hentað sem stuðningur samhliða áfallameðferð hjá fagaðila.
Áfallamiðað jóga hefur verið í þróun hjá Trauma Center í Boston frá 2003 og byggir á rannsóknum og nýjustu þekkingu í áfallafræðum og taugavísindum. Upplýsingar um ÁMJ – (e. Trauma-sensitive yoga) – er meðal annars að finna á eftirfarandi vefsíðum: www.traumasensitiveyoga.com og http://www.traumacenter.org/clients/yoga_svcs.php.
Leiðbeinandi er Margrét Gunnarsdóttir jógakennari, sjúkraþjálfari og sálmeðferðarfræðingur MSc. Ef óskað er nánari upplýsinga vinsamlega sendið tölvupóst á netfangið afallamidadjoga@gmail.com eða hringið í Margréti í síma 864-1466.
Námskeiðið hefst fimmtudaginn 2. nóvember og stendur í sjö vikur, í eitt skipti á viku kl. 17.50-18.50 á fimmtudögum nema að fjórði tíminn verður þriðjudaginn 21. nóvember í stað 23. nóvember.