0
Karfan þín

Þingmenn heimsækja Rótina – Umræðukvöld 21. janúar

14. janúar 2015

Rótin býður alþingismönnum á umræðukvöld hinn 21. janúar kl. 20-21.30 í Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum.
Mikil umræða hefur verið um málefni fólks með fíknivanda undanfarin misseri og fyrir þinginu liggja tvær tillögur sem tengjast málefninu. Annars vegar tillaga til þingsályktunar um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu og hins vegar frumvarp um verslun með áfengi og tóbak o.fl. Einnig er nú unnið að stefnu í áfengis- og vímuvörnum í velferðarráðuneyti.
Rótin hefur sent athugasemdir og tillögur við öll þessi mál og verið virk í umræðu um málefni tengd áfengi og fíkniefnum, sérstaklega að því er varðar konur, og hefur m.a. haldið úti öflugu fyrirlestrahaldi á líflegum umræðukvöldum.


Við teljum að straumhvörf séu nú að verða um margt sem tilheyrir þeim málaflokkum sem tengjast áfengi og fíkn og að tími sé til rækilegrar endurskoðunar á aðkomu ríkisins t.d. að meðferðarmálum.
Talskona Rótarinnar, Kristín I. Pálsdóttir, flytur erindi og fulltrúar allra þingflokka fá tækifæri til stuttrar framsögu og svo verða almennar pallborðsumræður.

Fundarstjóri: Margrét Marteinsdóttir.

Allir, konur og karlar, eru velkomnir á viðburðinn!

Boðið er upp á te og kaffi en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.

Viðburðurinn er á Facebook.

Fylgiskjöl:

Umræðukvöld Rótarinnar 2013-14.

Athugasemdir við frumvarp um vímuefnavarnir.

Athugasemdir við frumvarp um verslun með áfengi og tóbak.

Tillögur til starfshóps velferðarráðuneytis.

DEILA: