0
Karfan þín

Sláandi niðurstöður um reynslu kvenna af fíknimeðferð

Fréttatilkynning

Talskona Rótarinnar, Kristín I. Pálsdóttir, kynnti fyrstu niðurstöður rannsóknar á reynslu kvenna af fíknimeðferð á ráðstefnu SÁÁ í dag, mánudaginn 2. október.

Markmið rannsóknarinnar er að fá innsýn í reynslu kvenna af meðferðarúrræðum og upplýsingar um líðan þeirra og öryggi í meðferð. Enn fremur að skoða sögu kvennanna með sérstöku tilliti til erfiðrar upplifunar í æsku og hvort að þær eigi sögu um ofbeldi í nánum samböndum.

Spurningalisti var sendur á 305 félaga í Rótinni og bárust 110 svör og höfðu þar af 96 konur átt við fíknivanda að stríða. Alls hafa 88,7% þátttakendanna leitað sér aðstoðar vegna fíknivanda. Stærsti hluti hópsins, 38,2%, hefur aðeins leitað sér aðstoðar einu sinni en 15,7% hafa farið ítrekað í meðferð eða frá fjórum til tíu sinnum. Alls hafa 88% farið í meðferð hjá SÁÁ og 29% á Landspítala Háskólasjúkrahúsi. 58% höfðu eingöngu sótt meðferð hjá SÁÁ.

Reynsla af meðferð

Konurnar voru spurðar út í reynslu og viðhorf til meðferðarinnar. 66,3% töldu að meðferðin hefði ekki verið nægjanlega einstaklingsmiðuð. Þá töldu 75,9% að vinna með áföll og annað sem hefur áhrif á andlega heilsu hafi verið ófullnægjandi. Rúmum 60% töldu meðferðina hafa verið árangursríka en rúmum 15% töldu hana ekki hafa borið árangur. Um 43% þátttakenda fannst starfsfólk meðferðarinnar sýna sér skilningsleysi.

Áreitni og ofbeldi í meðferð

Þátttakendur voru spurðir hvort þeir hefðu orðið fyrir áreitni og ofbeldi í meðferð eða orðið vitni að slíku. Alls 23% sögðust hafa orðið vitni að einelti í meðferðinni, 21% að óhóflegri valdbeitingu starfsfólks, 45% voru vitni að ófaglegum eða óviðeigandi athugasemdum starfsfólks í meðferðinni og 35% ofbeldi gegn öðrum þátttakanda í meðferðinni, af hendi annarra þátttakenda, og 15% að hótun.

Þegar spurt var um ofbeldi og áreitni sem konurnar höfðu sjálfar orðið fyrir sögðust 34,6% hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í meðferð, 12% fyrir kynferðislegu ofbeldi, tæp 14% fyrir einelti og 28% fyrir andlegu ofbeldi. Einnig höfðu 6% orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og tæp 4% fyrir fjárhagslegu ofbeldi.

Ofbeldi á fullorðinsárum, ótengt meðferð

Einnig var spurt um ofbeldi sem konurnar höfðu orðið fyrir á fullorðinsárum, ótengt meðferð, og höfðu rúm 80% þátttakenda orðið fyrir kynferðislegri áreitni, tæp 75% fyrir kynferðislegu ofbeldi, 88% fyrir andlegu ofbeldi, tæp 56% fyrir líkamlegu ofbeldi og rúm 46% fyrir fjárhagslegu ofbeldi og sama hlutfall hafði orðið fyrir einelti.

Áföll í æsku

Einnig var spurt út í mótlæti og áföll í æsku og voru niðurstöður þar ekki síður sláandi. Lagður var fyrir spurningalisti ACE-rannsóknarinnar (acestudy.org). Samkvæmt niðurstöðunum höfðu 55% þátttakenda upplifað andlegt ofbeldi á heimili sínu í æsku, 34% líkamlegt ofbeldi, 51% kynferðislegt ofbeldi, 70% sögðu að skort hefði upp á ást og umhyggju í uppvextinum og 37% sögðust hafa verið vanrækt. Þá voru 35% svarenda skilnaðarbörn, og 20% höfðu upplifað líkamlegt ofbeldi gegn móður. Í 65% tilfella var einhver á heimili með áfengis- eða fíknivanda og í 60% tilfella var einhver þunglyndur, andlega veikur eða aðili sem reyndi að fyrirfara sér á heimilinu. Í rétt tæplega 14% tilfella hafi heimilismeðlimur farið í fangelsi.

Hvað vilja konurnar?

Konurnar voru spurðar að því hvað þær teldu mikilvægast í meðferð og hvernig þjónustu þær vildu sjá í auknum mæli og nefndu flestar einstaklingsmiðaða meðferð, að meira sé unnið með áfallasögu, að kynjaskipting væri mjög mikilvæg og þá kom fram að þær teldu þörf á betur menntuðu starfsfólki á meðferðarstöðunum.

Nánari upplýsingar veitir Kristín I. Pálsdóttir í síma 8939327 eða í netfanginu kristin@rotin.is.

Um rannsóknina

RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands hefur umsjón með framkvæmd rannsóknarinnar sem framkvæmd er í samstarfi við Rótina – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda en hún er styrkt af Jafnréttissjóði Íslands.

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Erla Kolbrún Svavarsdóttir prófessor í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.

Rannsóknin er bæði eigindleg og megindleg, en Kristín kynnti í dag frumniðurstöður úr megindlegum hluta hennar. Unnið var úr gildum svörum. Flestar voru konurnar á aldrinum 46-55 ára eða 40% svarenda. Niðurstöður sýndu að menntunarstig þátttakenda var hátt, 67% höfðu lokið háskólaprófi og 17,2 starfsnámi. 55% kvennanna voru í launuðu starfi og 9,4% sjálfstætt starfandi en 24% voru öryrkjar. Fjárhagur þátttakenda var ágætur en 23,9% áttu erfitt með að ná endum saman.

DEILA: