Kolbrún Kolbeinsdóttir, kennari og kynjafræðingur, flytur erindið „„Eini staðurinn í samfélaginu þar sem ekki er horft niður á þig“: Reynsla kvenna af Konukoti“. Kolbrún lauk meistaranámi í kynjafræði nú í febrúar og er erindið byggt á lokaverkefni hennar þar sem hún fjallar um reynslu kvenna sem nýta sér þjónustu Konukots. Konur í Konukoti, neyðarskýli kvenna við Eskihlíð, er lítt rannsakaður hópur en hefur verið í deiglunni ásamt öðrum þeim sem glíma við heimilisleysi. Markmiðið með verkefninu er að vekja athygli á félagslegu misrétti sem hópurinn verður fyrir og draga þannig úr jaðarsetningu hans. Niðurstöður rannsóknar eru settar í samhengi við kenningar sem byggja á samtvinnun mismunabreyta og greininga á kynjakerfinu, ekki síst með tilliti til ofbeldis sem þrífst innan þess.
Kolbrún er nú framhaldsskólakennari við Tækniskólann og kennir meðal annars kynjafræði, áður starfaði hún við skólastjórnun þar. Hún hefur einnig unnið sem sjálfboðaliði í Konukoti og þar kviknaði hugmyndin að rannsókninni.
Umræðukvöld Rótarinnar eru öllum opin, boðið er upp á te og kaffi sem er fjármagnað með samskotum. Munið eftir klinkinu eða leggið inn á reikning Rótarinnar:
Kt. 500513-0470, bankanr. 0101-26-011472.
Viðburðurinn er á Facebook!
Staður: Kvennaheimilið, Hallveigarstöðum, Túngötu 14.
Ef þið vitið af áhugaverðum umræðuefnum og erindum, sendið okkur endilega línu á rotin@rotin.is.