Treading the Path to Human Rights. Gender, Substance Use and Welfare States er þverfagleg ráðstefna um mannréttindamiðaða nálgun í mótun fíknistefnu í velferðarríkjum sem verður haldin dagana 17.–18. október 2023. Á ráðstefnunni er sjónum beint að stöðu og framtíð í fíknistefnu og vímuefnanotkun í velferðarríkjum. Erlendir og innlendir sérfræðingar munu ræða stefnumótun í málaflokknum að því er varðar mannréttindi, skaðaminnkun og bæði kynjaða og félagslega áhrifaþætti vímuefnanotkunar. Sérstök áhersla er á fíknistefnu í velferðarríkjum og þá ekki síst norrænum.
Fjallað verður um mismunun á grundvelli kynþáttar, stéttar, kynferðis, kynhneigðar ásamt kynjamisrétti, í samræmi við áskoranir alþjóðastofnana og fólks sem notar vímuefni. Einnig verður áhersla á nauðsyn þess að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið í stefnumótun, með hliðsjón af bæði þörfum kvenna og hinsegin fólks og hvernig þær eru frábrugðnar þörfum gagnkynhneigðra sís karla.
Ráðstefnan er skipulögð af Rótinni og RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og fer fram á Hótel Reykjavík Grand.
Forskráning á ráðstefnuna er á vef RIKK.
Markmið ráðstefnunnar eru að vekja athygli á mikilvægi stefnumótunar í málflokknum, safna saman sérfræðingum, fagfólki, embættismönnum, stjórnmálafólki og öðrum sem áhrif hafa á stefnumótun eða vilja miðla þekkingu sinni og reynslu. Einnig að fá til landsins nýjustu strauma og stefnur um málefnið frá Evrópu.
Staðfestir fyrirlesarar eru í stafrófsröð:
Danilo Ballotta (MSc) aðal stefnumótunarsérfræðingur Eftirlitsmiðstöðvar Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn (EMCDDA) og fulltrúi í samskiptum við stofnanir Evrópusambandsins. Ballotta fjallar um fíknistefnu í Evrópu í nútíð og framtíð.
Emma Eleonorasdotter (PhD) lektor og rannsakandi í mannfræði við Háskólann í Lundi í Svíþjóð. Rannsóknir hennar veita menningarlega innsýn í misrétti, þá sérstaklega um löglega og ólöglega notkun vímuefna. Emma fjallar um hversdagslega notkun kvenna í Svíþjóð á vímuefnum út frá menningarlegu sjónarhorni með áherslu á kyn og stétt.
Matilda Hellman (DSocSci) er félagsfræðingur og dósent við Háskólann í Helsinki og ritstjóri NAD – Nordic Studies on Alcohol and Drugs – tímaritsins. Mathilda fjallar um vímuefnastefnu, skaðaminnkun og stefnumótun í velferðarríkjum.
Sarah Morton (PhD) er lektor og forstöðukona Community Drugs Programme, University College Dublin, og sérfræðingur í skaðaminnkandi nálgun, konum, heimilisofbeldi og stefnumótun. Morton fjallar um flókinn vanda kvenna sem nota vímuefni og innleiðingu breyttrar stefnu í þátttökuferli.
Sigrún Ólafsdóttir (PhD) er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún beint sjónum að heilsu, geðheilsu, ójöfnuði, stjórnmálum og menningu, þá sérstaklega hvernig stærri samfélagslegir þættir, svo sem velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið, hafa áhrif á líf einstaklinga.
Sigurður Örn Hektorsson er yfirlæknir hjá Embætti landlæknis og er sérfræðingur í heimilislækningum, fíknilækningum og geðlækningum. Hann hefur 40 ára reynslu af fjölbreytilegu klínísku læknisstarfi með fólki með vímuefnavanda og föngum.
Sólveig Anna Bóasdóttir (PhD) er prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er kristin siðfræði, femínísk siðfræði og kynlífssiðfræði. Hún fjallar um siðferðileg álitamál í mótun fíknistefnu.
Styrktaraðilar:
Heilbrigðisráðuneytið er aðalstyrktaraðili og ráðstefnan er einnig styrkt af Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.