Landsskýrsla INTERACT-verkefnisins varpar ljósi á helstu gloppur og tækifæri í málaflokki heimilislausra kvenna.
Verkefnisnúmer: 101172611 — INTERACT — ESF-2023-HOMELESS
Verkefnið Intersectional Approach to Combating Homelessness for Women (INTERACT) birti nýverið fyrstu áfangagögn verkefnisins – Landsskýrslu INTERACT. Hún veitir innsýn í það hvernig sex Evrópuríki, Þýskaland, Grikkland, Ísland, Ítalía, Portúgal og Rúmenía, nálgast málaflokk heimilislausra kvenna. Íslensku samstarfsaðilarnir eru RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og Rótin, félagasamtök.
INTERACT-verkefnið, sem stendur yfir frá 1. október 2024 til 30. september 2027, er styrkt af Félagsmálasjóði Evrópu (ESF+) og stýrt af UWAH – Union of Women Associations of Heraklion í Grikklandi. INTERACT er frumkvöðlaverkefni sem miðar að því að þróa og innleiða aðlögunarhæft samtvinnað, kynja- og áfallamiðað líkan til að bæta stefnumótun og íhlutanir í málaflokki heimilislausra kvenna í Evrópu.
Landsskýrsla INTERACT varpar ljósi á stöðu heimilisleysis í ríkjum samstarfsaðila í INTERACT-verkefninu. Hún nær meðal annars yfir tölfræði á lands- og sveitarstjórnarstigi, lög og stefnur á málefnasviðinu, hagsmunaaðila, þjónustu í boði og stöðu þverfaglegs samstarfs. Markmið hennar er að greina bæði sérstöðu hvers samstarfslands og þær sameiginlegu áskoranir sem móta reynslu kvenna af heimilisleysi víðs vegar í Evrópu.
Þrátt fyrir mismunandi aðstæður í löndunum sex, dregur skýrslan fram nokkur sameiginleg stef:
- Skortur á samþættingu jafnréttis- og kynjasjónarmiða: Flestar stefnumótandi áætlanir og mörg þjónustuúrræði ávarpa ekki kynjamun og kynbundnar orsakir heimilisleysis, þar á meðal áhrif kynbundins ofbeldis og umönnunarábyrgðar.
- Brotakennd þjónusta: Konur sem búa við heimilisleysi þurfa oft á húsnæði, félags-, heilbrigðis- og áfallastuðningi að halda á sama tíma. Núverandi kerfi eru sjaldan samþætt og margar konur fá ekki alla þá þjónustu sem þær þurfa á að halda.
- Skortur á kynja- og áfallamiðaðri nálgun: Þjónusta tekur oft ekki nægilegt tillit til áhrifa áfalla á líf kvenna, sem undirstrikar mikilvægi samþættrar kynja- og áfallamiðaðrar og skaðaminnkandi nálgunar.
- Ómarkviss gagnasöfnun: Mismunandi skilgreiningar og aðferðir við mælingar á heimilisleysi hindra kerfisbundna gagnasöfnun. Lélegt aðgegni að samanburðarhæfum gögnum hindrar einnig stefnumótunarvinnu, mat á aðgerðum og alþjóðlegan samanburð.
Með því að draga fram sameiginlegar áskoranir og lykilmun milli landa varpar Landsskýrslan ljósi á mikilvægi þess að innleiðing aðgerða í málaflokki heimilislausra kvenna taki mið af staðbundnum aðstæðum. Hún leggur grunn að þróun INTERACT-líkansins og tilraunaverkefni um innleiðingu þess í ólíkum aðstæður en með samræmdri nálgun. Þróun líkansins og innleiðingaráætlunar er meðal verkefna sem íslensku samstarfsaðilarnir, RIKK/HI og Rótin, bera ábyrgð á.
Landsskýrslan í heild sinni og stutt útgáfa hennar eru aðgengilegar á eftirfarandi tenglum:
(setjið inn tengla)
Frekari upplýsingar um verkefnið, veita Kristín I. Pálsdóttir – kristin@rotin.is – og Kristín Hjálmarsdóttir – kristinhjalmars@hi.is eða verkefnastjórn INTERACT – projects@kakopoiisi.gr.
Styrkt af Evrópusambandinu. Skoðanir og viðhorf sem sett eru fram í skýrslunni eru eingöngu á ábyrgð höfunda og endurspegla ekki endilega skoðanir Evrópusambandsins eða framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hvorki er hægt að kalla Evrópusambandið né styrkveitanda til ábyrgðar á skrifum þessum.
Tilvísunarnúmer verkefnis: 101172611 — INTERACT — ESF-2023-HOMELESS
Hér má nálgast gögnin:
Landsskýrsla INTERACT á ensku.
Landsskýrsla INTERACT á íslensku.
Landsskýrsla INTERACT – Stutt útgáfa á ensku.

