Umsögn Rótarinnar um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (varsla), 23. mál

Með tölvupósti þann 17. október síðastliðinn óskaði nefndasvið Alþingis eftir umsögn Rótarinnar um ofangreint frumvarp. Ráð rótarinnar hrósar flutningsmönnum fyrir að taka tillit til nýjustu sannreyndra gagna við vinnslu frumvarpsins þar sem skaðaminnkun í stað úreltra kennisetninga er höfð í fyrirrúmi. Þá telur ráð Rótarinnar að velferðarnefnd sem mælti á síðasta þingi með því að varsla neysluskammta ólöglegra ávana- og fíkniefna yrði undanskilin refsingu, hafi sannarlega staðið undir nafni þar sem velferð þeirra sem misnota og þar með hljóta mestan skaða af ávana- og fíkniefnum var höfð í fyrirrúmi.

Sú breyting á lögum sem hér er mælt fyrir um er til mikilla bóta til þess að hægt sé að veita neytendum ólöglegra ávana- og fíkniefna aðstoð á forsendum sem neytendur geta fellt sig við, svo sem eins og heilbrigðisþjónustu, félagslega aðstoð eða meðferð til að draga úr/stöðva neyslu og vinna úr undirliggjandi erfiðleikum. Í greinagerð með frumvarpinu er farið vel yfir hvaða kosti það hefur í för með sér að varsla neysluskammta verði ekki lengur refsisverð og tekur ráð Rótarinnar undir þann rökstuðning.

Ráð Rótarinnar vill auk þess halda því til haga að margt bendir til þess að misnotkun ávana- og fíkniefna, löglegra eða ólöglegra, sé í mörgum/flestum tilfellum tilraun til þess að deyfa og forðast andlegan sársauka sem ekki hefur tekist að vinna úr. Þetta á sérstaklega við um konur og í rannsókn Rótarinnar og RIKK, á reynslu kvenna af fíknimeðferð, frá 2017 kemur fram að 75% kvennanna í rannsókninni hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og 88% fyrir andlegu ofbeldi. Forsenda fyrir því að hætta að misnota ávana- og fíkninefni getur því verið að vinna úr áföllum og erfiðri reynslu og rannsóknir sýna að best er að árangur næst ef áföllin/erfiða reynslan og misnotkun ávana- og fíkniefna er meðhöndlað saman. Þá er mikilvægt að konur geti leitað sér aðstoðar til þess að vinna úr áföllum án þess að þær verði að fela misnotkun á ávana- og fíkniefnum sem er hluti vandans, eða eigi á hættu að vera sektaðar, fangelsaðar og/eða lenda á sakaskrá fyrir það. Þá eiga konur í neyslu sérstaklega á hættu á að vera beittar frekara og endurteknu ofbeldi og núverandi refsirammi gerir þeim erfiðara fyrir að leita sér hjálpar vegna þess. Því er mikilvægt að hafa í huga að tryggja að þess sé gætt að lögin stuðli að auknu jafnrétti (e. gender-transformative):

[1]

Ennfremur er rétt að benda enn einu sinni á það sem margoft hefur komið fram að portúgalska leiðin sem vísað er í í greinagerð með frumvarpinu, er líklegri til þess að valda samfélagi og einstaklingum minni skaða en harðlínuleiðir (e. zero tolerance) eins og sú sænska þar sem þeir sem misnota ávana- og fíkniefni er refsað harkalega fyrir vörslu neysluskammta. Í Svíþjóð eru dauðsföll af völdum ávana- og fíkniefna með því hæsta sem gerist í Evrópu en í Portúgal með því lægsta.[2] Enda hafa Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Sameinuðu þjóðirnar mælst til þess að lönd endurskoði lög um refsingar vegna vörslu neysluskammta og neyslu ávana- og fíkniefna[3] þar sem í því felst alvarleg mismunun í aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

[1] Gender Equity through Health Promotion. Sjá https://promotinghealthinwomen.ca/online-course/unit-3-approaches-to-integrating-gender-in-health-promotion/gender-transformative/.
[2]European Monitoring Centre for Drugs and Drug Addiction (2019). Drug-related deaths and mortality in Europe. July 2019. Sjá: http://www.emcdda.europa.eu/system/files/publications/11485/20193286_TD0319444ENN_PDF.pdf.
[3] Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Sameinuðu þjóðirnar. Joint United Nations statement on ending discrimination in health care settings. 27.06.2017. Sjá: https://www.who.int/en/news-room/detail/27-06-2017-joint-united-nations-statement-on-ending-discrimination-in-health-care-settings.

Share This