Að segja frá – Námskeið

Námskeiðið Að segja frá er ætlað konum sem hafa hug á að opna umræðu um ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi glíma oft við flóknar afleiðingar þess. Ein leið til valdeflingar og bættra lífsgæða er að rjúfa þögnina sem oft ríkir um kynferðisbrot. Það getur átt við að segja frá, t.d. innan fjölskyldu, vinum, samstarfsfólki, á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum.

Markmið
Markmið námskeiðsins er að konur geti sagt frá því ofbeldi sem þær hafa verið beittar og afleiðingum þess, eins og til dæmis fíkn og áfallastreitu, að þátttakendur finni fyrir kraftinum sem býr innra með þeim og veiti hverri annarri stuðning til þess að t.d. létta á skömm og sektarkennd.

Aðferð
Námskeiðið byggist annars vegar á fræðilegum kenningum og rannsóknum og hins vegar á reynslu þátttakenda í ljósi fræðanna. Notaðar eru kenningar um samkennd og sjálfsumhyggju og gerðar æfingar sem hjálpa þátttakendum að jarðtengjast og hlúa að sér.

Farið er m.a. í eftirfarandi: að rjúfa þögnina; við hverja viljum við tala; undirbúningur fyrir samtölin – líka við þau sem eru okkur hugsanlega óvinveitt; að búa sig undir hugsanleg viðbrögð og að hlúa að sjálfri sér. Einnig hvernig hægt er að undirbúa sig ef fjölmiðlar hafa samband.

Námskeiðið byggir á bókinni The Courage to Heal eftir Ellen Bass og Laura Davis, efni frá dr. Stephanie Covington og bæklingnum „Ef fjölmiðlar hafa samband“. Námskeiðið skiptist í fræðslu, umræður og undirbúning undir það að segja frá. Inn á milli eru gerðar æfingar til að slaka á og jarðtengjast. Þær sem vilja, fá tækifæri til að undirbúa sig að segja frá.

Skipulag
Námskeiðið verður haldið laugardaginn 15. febrúar kl. 10:00-16:00.

Skráningu í hópinn lýkur 12. febrúar.

Verð
18.000 kr.

Leiðbeinendur og verkefnisstjórn
Námskeiðið fer fram í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg. Leiðbeinendur eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Katrín G. Alfreðsdóttir. Verkefnisstjóri er Kristín I. Pálsdóttir. Sjá nánar.

Þátttakendur eru hvattir til að sækja fundi í Rótarhópnum á miðvikudögum kl. 19.15 að loknu námskeiðinu.

Share This