Rótarkonur sendu í kvöld eftirfarandi bréf á heilsuræktarstöðvar:
Ágæti viðtakandi.

Þann 19. september sendi Rótin erindi til heilsuræktarstöðva og nokkurra opinberra aðila og óskaði eftir svörum við spurningum um siðareglur og hvernig persónulegs öryggis iðkenda væri gætt.

Ástæðan fyrir því að við sendum bréfið er sú að Rótin vill beita sér fyrir bættu persónulegu öryggi kvenna og ungmenna og margar stofnanir, félög og úrræði vísa skjólstæðingum sínum beint eða óbeint inn á heilsuræktarstöðvar.Oft er um að ræða fólk sem stendur að einhverju leyti höllum fæti sem nýtir líkamsrækt til að bæta lífsgæði sín. Fólk sem er atvinnulaust, er að koma úr áfengismeðferð, á við fötlun, þunglyndi eða aðrar geðraskanir að stríða.

Sautján heilsuræktarstöðvar fengu bréf frá okkur og svör hafa borist frá tíu þeirra. Boot Camp, Hreyfingu, Heilsuborg, Líkamsræktinni Bjargi Akureyri, Árbæjarþreki, Hress, World Class, Icecurves, The Pilates Studio og Artic.

Í svörum stöðvanna kemur fram að fjórar þeirra hafa einhverjar skráðar starfs- eða siðareglur. Hjá þremur stöðvum er fjallað um valdatengsl leiðbeinanda og skjólstæðings og hjá tveimur eru ákvæði um kynferðisleg samskipti þessara aðila. Flestar stöðvarnar sem ekki hafa siðareglur nú þegar hafa hug á að bæta úr því. Á einni stöð er krafist sakavottorðs þegar fólk er ráðið en nokkrar taka fram að þær kanni bakgrunn fólk og að ekki sé ráðið fólk með ofbeldisdóma.

Margra stöðvar þakka Rótinni fyrir að vekja athygli á málinu, bréfið hafi vakið ábyrgðarmenn til umhugsunar um að tímabært væri að koma þessum málum í ákveðinn farveg.Við Rótarkonur þökkum fyrir svörin og vonum að við höfum náð að vekja ábyrgðarmenn heilsuræktarstöðva til umhugsunar um mikilvægi þess að þjálfarar og aðrir leiðbeinendur séu meðvitaðir um að þeir eru í valdastöðu og að vald beri ávallt að umgangast af auðmýkt. Rótin telur viðbrögð stöðvanna bæði ánægjuleg og þakkarverð.  Hvetjum við þær til að þróa áfram vinnureglur sem gera það að verkum að iðkendur finni til öryggis, virðingar og vellíðunar í hvívetna á þessum vettvangi.

f.h. Rótarinnar,
Kristín I. Pálsdóttir
Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda

Vefsíða: www.rotin.is
Netfang: rotin@rotin.is
Share This