Nú styttist mjög í ráðstefnu um konur, fíkn, áföll og meðferð, hinn 1. og 2. september 2015, á Grand Hótel í Reykjavík. Á ráðstefnunni verða fyrirlesarar frá Bandaríkjunum, Svíþjóð, Grænlandi og Íslandi. Skráning þátttöku er í gegnum vefsíðu RIKK – Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands.
Mikill áhugi er á ráðstefnunni og von á um 200 gestum.

Konur meðhöndla konur

Á Charles. K. Post meðferðarstöðinni í New York-fylki, og fleiri meðferðarstöðvum, er miðað við að konur meðhöndli konur. Þessu er ekki þannig farið á Íslandi. Í ráði Rótarinnar höfum við oft velt því fyrir okkur hvort að sú regla ætti ekki almennt að gilda í meðferð kvenna sem eiga sér áfalla- og/eða ofbeldissögu. En það á við um meirihluta þeirra kvenna sem koma til meðferðar við fíknivanda.

Hvar eru karlarnir?

Stundum er talað um að karlar lesi ekki bækur eftir konur né horfi á kvikmyndir sem þær gera en hins vegar sýni konur mikinn áhuga á því sem karlar sendi frá sér.

Það vekur óneitanlega athygli okkar að enginn karlmaður hefur skráð sig til þátttöku í ráðstefnunni. Þetta þátttökuleysi karla er í engu samræmi við fjölda karla sem koma að málefnum kvenna með fíknivanda á Íslandi og því vert að spyrja hvað veldur.

Share This