Siðareglur heilsuræktarstöðva og þjálfara

Siðareglur heilsuræktarstöðva og þjálfara

Rótin sendi eftirfarandi bréf á heilsuræktarstöðvar, Illuga Gunnarssonar ráðherra íþróttamála, ASÍ og SI.

Ágæti viðtakandi.

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda hefur mikinn áhuga á persónulegu öryggi fólks og í því sambandi höfum við verið að skoða siðareglur í heilsuræktargeiranum.

Flestar fagstéttir sem í störfum sínum hafa vald yfir öðru fólki hafa sett sér siðareglur t.d. kennarar á öllum skólastigum, þjálfarar, einkaþjálfarar og fleiri.

Bandaríkjamenn eru framarlega á þessu sviði og þar eru víðast siðareglur sem fjalla m.a. um valdatengsl þjálfara/iðkanda, kennara/nemanda. National Council on Strength & Fitness hefur sett mjög skýrar siðareglur m.a. fyrir einkaþjálfara, (Certified Personal Trainer Code of Ethics) en í þeim er t.d. eftirfarandi ákvæði:

„4. Sexual misconduct on the part of the trainer is an abuse of professional power and a violation of client trust. Sexual contact or a romantic relationship between a trainer and a current client is always unethical.“ http://www.ncsf.org/governance/conduct/ethics.aspx.

Okkur leikur forvitni á að vita hvort að félög þjálfara, einkaþjálfara og kennara á heilsuræktarstöðvum á Íslandi hafa sett sér slíkar reglur og einnig hvort að einstakar heilsuræktarstöðvar eru með gildandi siðareglur fyrir sína starfsemi.

Einnig erum við að skoða hvort að opinberar stofnanir og félög sem eru með samninga við heilsuræktarstöðvar gera kröfur um að siðareglur séu til staðar og að þeim sé framfylgt. ASÍ gerði t.d. samning við Samtök heilsuræktarstöðva, sem enn er í gildi, um ívilnanir fyrir atvinnulausa á stöðvunum og leikur okkur forvitni á að vita hvort einhverjir fyrirvarar varðandi siðareglur séu hluti af slíkum samningum.

Við óskum eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

  1. Eru í gildi siðareglur í fyrirtækinu?
  2. Ef svarið er já, taka þær á valdatengslum leiðbeinanda/skjólstæðings?
  3. Eru í reglunum ákvæði um kynferðisleg samskipti þessara aðila?
  4. Ef svarið er nei, stendur til að fyrirtækið setji sér slíkar reglur?
  5. Er starfsfólk krafið um sakavottorð og eru reglur varðandi ráðningu aðila með ofbeldisdóma?

Virðingarfyllst,

Ráð Rótarinnar:

Árdís Þórðardóttir,

Guðrún Ebba Ólafsdóttir,

Guðrún Kristjánsdóttir,

Gunnhildur Bragadóttir,

Gunný Ísis Magnúsdóttir,

Ilmur Kristjánsdóttir,

Kristín I. Pálsdóttir,

Linda Vilhjálmsdóttir og

Þórlaug Sveinsdóttir.

Bréfið er sent á 17 heilsuræktarstöðvar og Samtök iðnaðarins sem eru móðursamtök Samtaka heilsuræktarstöðva. Einnig á ASÍ og Illuga Gunnarsson ráðherra íþróttamála.

Erindi til Alanó-klúbbsins

Rótin sendi eftirfarandi erindi í morgun til Alanó-klúbbsins á Héðinsgötu en tilgangur klúbbsins er að efla sporastarf á Íslandi.

Erindi til Alanó-klúbbsins
Héðinsgötu 1-3

Ágætu viðtakendur.

Nú nýverið voru húsreglur í Gula húsinu á Tjarnargötu, sem hýsir 12 spora fundi, endurbættar og inn í þær sett eftirfarandi ákvæði:
„9. allt einelti (andlegt, líkamlegt, kynferðislegt og félagslegt) sem og annað persónulegt áreiti varðar tafarlausum brottrekstri úr húsinu.“
Reglunum hefur verið fylgt vel eftir og gefin skýr skilaboð um að áreiti líðst ekki í húsinu.
Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda – fer þess á leit við Alanó-klúbbinn að sambærileg regla verði sett í klúbbnum til að skapa aukið öryggi fyrir nýliða og sem aðra sem húsið sækja.

F.h. Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir

Öryggi kvenna í áfengismeðferð – erindi til ráðherra

27. ágúst 2013

Ráð Rótarinnar sendi í dag heilbrigðis- og félagsmálaráðherrum, Kristjáni Þór Júlíussyni og Eygló Harðardóttur, erindi sem Rótin sendi landlækni í apríl en engin viðbrögð hafa borist félaginu við erindinu. Erindið er svohljóðandi:

„Þann 22. apríl sendi Rótin erindi til landlæknis vegna öryggis kvenna í áfengismeðferð. Þrátt fyrir að erindið hafi verið ítrekað tvisvar höfum við engin svör fengið frá embættinu. Við höfum því ákveðið að framsenda þetta mikilvæga erindi á ráðherra heilbrigðis- og félagsmála:

Hinn 11. þessa mánaðar féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur vegna hrottalegra ofbeldisglæpa gagnvart ungum konum. Hinn dæmdi, sem er 33 ára, hafði áður hlotið langa dóma vegna alvarlegra ofbeldisglæpa gagnvart konum. Í dómsorðinu kemur fram að hann hafi kynnst síðasta fórnarlambi sínu í áfengismeðferð. Þar er á ferð 18 ára stúlka sem hafði leitað sér meðferðar inni á meðferðarstofnun þar sem hún kynntist ofbeldismanninum. Um árás mannsins á þessa ungu konu stendur í dómsorði: „Var árásin hrottaleg og fallin til þess að valda brotaþola ótta um líf sitt.“

Ráð Rótarinnar – félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda hefur verulegar áhyggjur af því að dæmdir ofbeldismenn hafi aðgang að ungum konum, og veiku fólki almennt, innan heilbrigðiskerfisins. Líta verður til þess að stór hluti kvenna sem kemur til meðferðar á ofbeldissögu að baki og sú staðreynd gerir þennan hóp enn veikari fyrir hvers kyns valdbeitingu. Hið sama á að mörgu leyti við um unga menn.
Ingólfur V. Gíslason orðar þetta svona í skýrslu sinni um Ofbeldi í nánum samböndum sem unnin var fyrir félags- og tryggingaráðuneytið:
„Í fyrsta lagi er ofbeldi nokkuð sameiginleg reynsla kvenna sem leita á Vog, þær hafa langflestar verið beittar einhverju ofbeldi. Raunar var það samdóma álit viðmælenda, bæði á Vogi og í áhættumeðgöngunni hjá Landspítalanum, að konur sem væru í mikilli neyslu væru með ofbeldi sem „sjálfsagðan“ þátt í sínu lífi og raunar eitthvað sem þær upplifi yfirleitt ekki sem sitt megin vandamál. Þannig var talið að a.m.k. 70 – 80% þeirra kvenna sem stríddu við fíkn hefðu verið beittar einhverju ofbeldi.“
Við krefjumst þess að skapaðar verði aðstæður inni í heilbrigðiskerfinu til að konur geti leitað sér meðferðar við þeim alvarlega sjúkdómi sem alkóhólismi er án þess að eiga það á hættu að lenda í klóm ofbeldismanna.““

Skimun vegna ofbeldis – erindi til heilbrigðisráðherra

Skimun vegna ofbeldis – erindi til heilbrigðisráðherra

27. ágúst 2013

Rótin sendi í dag erindi til heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, varðandi skimun og meðferð á meðferðarstöðvum vegna ofbeldis. Efni erindisins var eftirfarandi:

„Árið 2011 lagði velferðarráðherra fram á Alþingi skýrslu um aðgerði samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum. Í skýrslunni eru settar fram tillögur stjórnvalda um aðgerðir til að „fyrirbyggja ofbeldi gegn konum, styrkja úrræði fyrir konur sem eru beittar ofbeldi og börn þeirra, og hjálpa körlum til að binda endi á ofbeldisbeitingu.“

Í tillögunum er eftirfarandi sett fram varðandi aðgerðir inni á meðferðarstöðum:

„Meðferðarstofnanir
Á meðferðarstofnunum vegna áfengis- og vímuefnaneyslu verði skimað eftir þeim körlum sem hafa beitt maka sína ofbeldi og meðferð þeirra taki mið af því. Sömuleiðis verði skimað eftir konum sem hafa verið beittar ofbeldi í nánum samböndum og tekið tillit til slíkra áfalla í meðferðinni.“
(Skýrsla velferðarráðherra um aðgerðir samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum. http://www.althingi.is/altext/139/s/pdf/1214.pdf).

Ráð Rótarinnar – félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda óskar eftir upplýsingum um hvort að þessum tillögum hafi verið fylgt eftir. Ef svo er þá óskum við eftir upplýsingum um það hversu hátt hlutfall þeirra sem koma til meðferðar á undanförnum árum eru þolendur ofbeldis og hversu hátt hlutfall þeirra hafa beitt ofbeldi, samkvæmt skimunum. Einnig óskum við eftir upplýsingum um kynjahlutfall beggja hópa.“

Svar barst og er dagsett 29. nóvember 2013.

Skimun og meðferð ofbeldis á meðferðarstöðum

 

Ekki hlutverk lögreglunnar að refsa fólki – Erindi vegna handtöku

Ekki hlutverk lögreglunnar að refsa fólki – Erindi vegna handtöku

Rótin sendi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra eftirfarandi erindi hinn 12. júlí 2013:

„Ágæti innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda lýsir áhyggjum vegna handtöku ölvaðrar konu á Laugavegi um síðustu helgi.

Ekki verður betur séð af myndbandsupptöku en að lögregla hafi beitt óhóflegu valdi við handtöku konunnar sem var ofurölvi. Stafaði þremur hraustum lögregluþjónum sem komu að handtöku hennar ekki mikil ógn af konunni. Ekki getur talist eðlilegt að slíku ofbeldi sé beitt af lögreglu gagnvart minni máttar sem hvorki ógna einstaklingum eða samfélagi.

Ráðskonur Rótarinnar undrast að atvikið sé útskýrt með tilvísun til ákveðinnar handtökuaðferðar. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að mannvirðingar sé gætt, líka gagnvart fólki sem hefur neytt áfengis óhóflega og að þeir sem stunda löggæslu í miðborg Reykjavíkur um helgar hafi ákveðna þekkingu á fíknivanda. Það er ekki hlutverk lögreglunnar að refsa fólki fyrir óæskilega eða ólöglega hegðun, það er hlutverk dómstóla.

Þeir sem gæta eiga almannahagsmuna, eins og lögreglumenn, skulu gæta meðalhófs og sanngirni við störf. Ef slík gildi ráða ekki för í daglegum störfum lögreglunnar er hætta á að traust almennings til hennar veikist og slíkt væri mjög óæskilegt fyrir samfélagið.

F.h. ráðs Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir ritari
GSM 893-9327.“

Eftirfarandi svar barst frá Hönnu Birnu samdægurs:

„Kæra Kristín,

Innilega þakkir fyrir bréfið. Ég tek heilshugar undir þau sjónarmið ykkar að öllum sem koma að almannaþjónustu beri að gæta meðalhófs og sanngirni við störf. Hvað varðar þetta einstaka tilvik þá get ég ekki tjáð mig um það á meðan rannsókn stendur yfir hjá Ríkissaksóknara, en treysti því að málið fái eðlilega og réttláta meðferð þar.

Með góðum kveðjum og þakklæti fyrir mikilvæga vinnu í þágu ykkar skjólstæðinga.

Hanna Birna“