Erindi til Embættis landlæknis vegna gæðamála

Erindi til Embættis landlæknis vegna gæðamála

Rótin sendi eftirfarandi erindi til Embættis landlæknis í dag, 14. febrúar 2014.

Erindi: Skráning atvika.

  1. Óskað er eftir tæmandi lista frá Embætti landlæknis yfir þær stofnanir/aðila sem veittu fíknimeðferð/afvötnun og bar að skrá atvik í samræmi við lýsingu Landspítala[1] [1]) skv. 9. og 10. gr. laga um embættið, eða skv. sambærilegum ákvæðum eldri laga, á tímabilinu 2009‒2013.
  2. Hversu mörg atvik skráðu umræddar stofnanir/aðilar á tímabilinu 2009‒2013 í heild?
  3. Óskað er eftir að Embætti landlæknis setji upplýsingar um atvik samkvæmt spurningu 2 fram í töflu sem sýnir skiptingu þeirra árin 2009‒2013 eftir stofnunum/aðilum annars vegar og atvikaflokkum hins vegar.
  4. Hvernig brást Embætti landlæknis við þeim atvikum sem upp komu á umræddu tímabili? Hvernig var t.d. eftirfylgni embættisins háttað og hvaða árangur bar hún?
  5. Hvernig brugðust viðkomandi stofnanir/aðilar við þeim atvikum sem upp komu á umræddu tímabili? Breyttu þeir t.d. verklagsreglum sínum eða meðferð? Óskað er eftir nákvæmum upplýsingum um viðbrögðin eftir stofnunum/aðilum.
  6. Hversu margar kvartanir bárust Embætti landlæknis á tímabilinu 2009‒2013 í heild vegna stofnana/aðila sem veita fíknimeðferð/afvötnun samkvæmt 12. gr. laga um Embætti landlæknis eða sambærilegum ákvæðum eldri laga?
  7. Óskað er eftir að Embætti landlæknis setji upplýsingar um kvartanir samkvæmt spurningu 6 fram í töflu sem sýnir skiptingu þeirra árin 2009‒2013 eftir stofnunum/aðilum annars vegar og eðli kvartana hins vegar.
  8. Hefur orðið breyting á flokkun atvika og/eða kvartana á tímabilinu 2009‒2013? Ef já, í hverju var sú breyting fólgin?
  9. Hvernig háttar Embætti landlæknis gæðaeftirliti sínu með stofnunum/aðilum sem veita fíknimeðferð/afvötnun?

[1] „Atvik telst það ef greining, meðferð eða umönnun sjúklings á ábyrgð LSH fer úrskeiðis, eitthvað gerist sem skaðar sjúkling eða hefði getað skaðað hann. Ennfremur ef greining, meðferð eða umönnun sjúklings er í ósamræmi við faglega þekkingu, skráð fyrirmæli, verklagsreglur eða vinnuleiðbeiningar í viðkomandi tilviki. Skráning og úrvinnsla atvika er grunnur að umbóta- og gæðastarfi.“ Sjá: https://slxkaldur1.landspitali.is/bokasafn/timaritabrunnurlsh.nsf/Ey%C3%B0ubla%C3%B0/480C0EDB1BF112C40025795E003CA028/$file/skurd_3001.pdf.

Svör ráðherra um ráðgjafanám

Svör ráðherra um ráðgjafanám

Fréttatilkynning

Rótinni hafa borist svör Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra og Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra við bréfi sem Rótin sendi þeim á haustmánuðum með spurningum um fyrirkomulag menntunar áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Tilefni erindisins var að afla upplýsinga um stöðu mála og áform stjórnvalda um bætta menntun þeirra sem meðhöndla fólk með fíknivanda. Í svari heilbrigðisráðuneytisins kemur m.a. fram að:

  • Menntun ráðgjafa fer ekki fram á ákveðnu skólastigi heldur á heilbrigðisstofnunum sem annast fíknimeðferð og endurskoðun á náminu er ekki hafin.
  • Námið heyrir undir velferðarráðuneytið í samvinnu landlæknis, fagráðs landlæknis og stofnana sem veita meðferð.
  • Velferðarráðuneytið hefur ekki í hyggju að beita sér fyrir því að menntun þessara heilbrigðisstarfsmanna feli í sér fræðslu um ofbeldi og áföll og áhrif þess að fíknisjúkdóma.
  • Engar kröfur eru gerðar til þeirra sem kenna ráðgjöfina aðrar en þær að námið sé í umsjón læknis. Þeir sem sjá um kennsluna þurfa ekki að hafa neina kennslufræðilega menntun. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um framtíð menntunar á þessu sviði.

Af svarinu má ráða að málið er í ákveðnum ólestri, námið tilheyrir engu skólastigi og litlar sem engar kröfur eru gerðar til þeirra sem annast kennslu ráðgjafanna. Umgjörð náms áfengis- og fíkniráðgjafa er því í skötulíki og yfirvöld þurfa að ráðast í úrbætur.

Áfengis- og vímuefnafíkn er flókið og margþætt heilkenni þar sem saman fara sálræn, líkamleg og atferlisleg einkenni. Áfengistengd vandamál eru líka einn stærsti áhrifaþátturinn á heilsufarsvandamál í samtímanum.

Með tilliti til þess vandasama hlutverks sem þessir starfsmenn hafa í lífi þeirra sem leita sér meðferðar þarf að gera metnaðarfyllri kröfur. Háskóli Íslands býður upp á diplómanám í áfengis- og vímuefnamálum sem samanstendur af tveimur 10 eininga fagnámskeiðum og einu sérverkefni. Það er langt frá því að vera fullnægjandi.

Víða í heiminum er meirihluti ráðgjafa með BA/BS-gráðu eða meiri menntun, þetta átti við 71% meðferðaraðila samkvæmt rannsókn sem gerð var í Norðvesturríkjum Bandaríkjanna árið 2000. Á Íslandi er því hins vegar þannig farið að menntun ráðgjafa er ekki einu sinni hluti af hinu formlega skólakerfi og engin námskrá er til í faginu.

Rótin telur því mikilvægt að lagaumhverfi og gæðaeftirlit með námi áfengis- og vímuefnaráðgjafa verði skýrt, námið verði sett undir ákveðið skólastig og heyri þar með undir menntamálaráðuneytið. Þá verði náminu sett námskrá og viðeigandi menntunarkröfur gerðar til þeirra sem annast kennslu ráðgjafa.

Í ljósi þess að um 80% kvenna sem fara í meðferð hafa orðið fyrir ofbeldi telur Rótin einsýnt að sú alvarlega staðreynd verði höfð til hliðsjónar við endurskoðun ráðgjafanámsins og við námskrárgerð í faginu. Þá er tímabært að boðið sé upp á fullt nám í fíknifræðum við háskóla hér á landi, með tilheyrandi rannsóknarstarfi í faginu.

Fyrir hönd Rótarinnar, félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda,

Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Kristín Pálsdóttir
Þórlaug Sveinsdóttir

Svör ráðuneytanna má lesa í eftirfarandi viðhengjum:

Svar heilbrigðisráðherra

Svar menntamálaráðherra

Rótin sendi einnig erindi til landlæknis vegna ráðgjafanáms:

Erindi til landlæknis vegna ráðgjafanáms

19. janúar 2014

Áföll og áfengismeðferð – Opið bréf til heilbrigðisráðherra

14. janúar 2014

Í nóvember 2011 birti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin upplýsingablað um ofbeldi í nánum samböndum og áfengi þar sem kemur fram að rannsóknir á forvörnum sem beinast að áfengistengdu ofbeldi séu af skornum skammti. Einnig er lögð áhersla á mikilvægi forvarna og hlutverk heilbrigðiskerfisins í því að koma í veg fyrir ofbeldi í nánum samböndum, m.a. með því að fást við samband ofbeldis við áfengisneyslu. Ein afleiðing ofbeldis er að þolendur þess nota áfengi sem sjálfsmeðhöndlun (e. self-medicating) og auka þannig líkur á fíknivanda. Einnig segir að sú trú manna að áfengi valdi ofbeldishneigð sé jafnvel notuð sem afsökun fyrir ofbeldishegðun og að börn sem verða vitni að ofbeldi á milli foreldra sinna séu líklegri til að lenda í drykkjuvanda síðar á ævinni en önnur börn.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin setur svo fram ákveðnar tillögur um hvernig best er að fást við vandann þar sem skýrt kemur fram mikilvægi þess að fíkn, ofbeldi og áföll séu skoðuð og meðhöndluð í samhengi. Þar er lögð áhersla á að í meðferð sé gert ráð fyrir tengslum milli ofbeldis í nánum samböndum og áfengisdrykkju og að þar sem tekið sé á móti fórnarlömbum ofbeldis sé skimað fyrir áfengisvanda og ennfremur sé skimað fyrir ofbeldi þegar einstaklingar koma í áfengismeðferð og þeim vísað á viðeigandi úrræði í báðum tilfellum. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að um 80% kvenna sem leita sér lækninga vegna fíknar hafa orðið fyrir ofbeldi.

Einokun á þjónustu

Nú stendur fyrir dyrum að samningar ríkisins við SÁÁ verði endurnýjaðir. Fyrirkomulag meðferðarmála á Íslandi er þannig að ríkisvaldið hefur svo til alfarið falið einum aðila framkvæmd afvötnunar og SÁÁ hefur því einokun á þeirri þjónustu. Gæðaeftirlit og eftirfylgni með framkvæmd samninganna er mjög mikilvæg og að í samningunum sé kveðið á um rannsóknir og vísindastarf, en slíkt ákvæði hefur mikla þýðingu fyrir þann sjúklingahóp sem notar þjónustuna.

Rótin hefur áhyggjur af nokkrum veigamiklum atriðum í sambandi fyrirkomulagið. Má þar einkum nefna viðhorf fagaðila innan SÁÁ til áfalla. SÁÁ framleiddi þætti sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni ÍNN undir heitinu Áfram Vogur – þættir um störf og sögu SÁÁ haustið 2013. Í þáttunum koma fram viðhorf yfirmanna og starfsfólks SÁÁ, m.a. til tengsla áfalla og fíknar.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, heldur því þar fram, í fyrsta þættinum, að það sé misskilningur að áfengisvandi skapist af áföllum. Orðrétt segir hann að komið hafi í ljós að „margir okkar láta það ekkert á sig fá þó að þeir lendi í áföllum. Við erum mjög merkilegir mennirnir“ og að: „Það þýðir ekkert að hugsa um þessi áföll, maður þarf að fara út, maður þarf að ala upp börnin sín, maður þarf að takast á við vandamálin sín og þetta er það sem við erum að kenna sjúklingunum okkar.“ Að okkar mati er þetta mjög alvarleg yfirlýsing af hálfu yfirlæknis sjúkrahúss sem meðhöndlar fíknsjúkdóma.

Það fyrirkomulag sem er á meðferðarmálum hér á Íslandi hlýtur að vera einsdæmi. Einstaklingur sem á við fíknivanda að stríða greinir sig í rauninni sjálfur og óskar eftir innlögn á einkarekinn spítala þar sem ein greining og meðferð er í boði. Eitt af meginbaráttumálum Rótarinnar er að fíknsjúkdómar og afleiðingar áfalla séu meðhöndlaðar samhliða í samræmi við nýjustu rannsóknir og þekkingu. Slík meðferð samræmist áherslum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og skýrslu velferðarráðherra um ofbeldi gegn konum.

Árdís Þórðardóttir
Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Gunnhildur Bragadóttir
Gunný Ísis Magnúsdóttir
Kristín I. Pálsdóttir
Þórlaug Sveinsdóttir

Höfundar sitja í ráði Rótarinnar

Menntun áfengis- og vímuefnaráðgjafa

27. október 2013
Rótin hefur sent eftirfarandi erindi til ráðherra heilbrigðis- og menntamála:

Ágæti ráðherra, Kristján Þór Júlíusson / Illugi Gunnarsson.

Áfengis- og vímuefnaráðgjafar eru stór hluti þeirra sem vinna við meðhöndlun vímuefnavanda eins og sjá má á heimasíðu SÁÁ en samtökin eru stærsti meðferðaraðili hér á landi þegar kemur að afvötnun og meðferð í verktöku fyrir ríkið: „Áfengis- og vímuefnaráðgjafar SÁÁ eru í dag um 40 og bera hitann og þungan af meðferðinni á öllum sjúkrastofnunum SÁÁ nema á Sjúkrahúsinu Vogi þar sem störf þeirra eru líka mjög mikilvæg.“[1]

Einnig er kveðið á um hlutverk ráðgjafa í samningi milli samninganefndar heilbrigðisráðherra og SÁÁ um áfengis- og vímuefnameðferð. Í núgildandi samningi um dagdeild segir að þjónustan skuli „unnin á dagdeild verksala af áfengisráðgjöfum sem hlotið hafa viðurkenningu heilbrigðisstjórnar til að meðhöndla áfengis- og vímuefnasjúklinga og starfa undir um stjórn lækna“. Í samningi ríkisins við sömu aðila um rekstur göngudeildar kemur einnig fram að þjónustan skuli m.a. unnin af áfengisráðgjöfum.

Í reglugerð 1106/2012 um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuvarnaráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi kemur fram að landlæknir gefur út starfsleyfi ráðgjafa og að leyfið megi veita þeim sem lokið hafa námi sem landlæknir metur gilt.

Við eftirgrennslan hjá landlækni, sem gefur út starfsleyfi heilbrigðisstétta og þar með áfengis- og vímuefnaráðgjafa, kom fram að embættið hefur ekki gert tillögur um menntunina og hvernig henni skuli hagað, samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar, en að embættið telji nauðsynlegt að „endurskoða þær námskröfur sem gerðar eru til þessarar stéttar og taka þá mið af menntun sambærilegra stétta í nágrannalöndum okkur.“ Jafnframt kemur fram að sú vinna sé ekki farin af stað. (more…)

Siðareglur heilsuræktarstöðva

Siðareglur heilsuræktarstöðva

Rótarkonur sendu í kvöld eftirfarandi bréf á heilsuræktarstöðvar:
Ágæti viðtakandi.

Þann 19. september sendi Rótin erindi til heilsuræktarstöðva og nokkurra opinberra aðila og óskaði eftir svörum við spurningum um siðareglur og hvernig persónulegs öryggis iðkenda væri gætt.

Ástæðan fyrir því að við sendum bréfið er sú að Rótin vill beita sér fyrir bættu persónulegu öryggi kvenna og ungmenna og margar stofnanir, félög og úrræði vísa skjólstæðingum sínum beint eða óbeint inn á heilsuræktarstöðvar.Oft er um að ræða fólk sem stendur að einhverju leyti höllum fæti sem nýtir líkamsrækt til að bæta lífsgæði sín. Fólk sem er atvinnulaust, er að koma úr áfengismeðferð, á við fötlun, þunglyndi eða aðrar geðraskanir að stríða.

Sautján heilsuræktarstöðvar fengu bréf frá okkur og svör hafa borist frá tíu þeirra. Boot Camp, Hreyfingu, Heilsuborg, Líkamsræktinni Bjargi Akureyri, Árbæjarþreki, Hress, World Class, Icecurves, The Pilates Studio og Artic.

Í svörum stöðvanna kemur fram að fjórar þeirra hafa einhverjar skráðar starfs- eða siðareglur. Hjá þremur stöðvum er fjallað um valdatengsl leiðbeinanda og skjólstæðings og hjá tveimur eru ákvæði um kynferðisleg samskipti þessara aðila. Flestar stöðvarnar sem ekki hafa siðareglur nú þegar hafa hug á að bæta úr því. Á einni stöð er krafist sakavottorðs þegar fólk er ráðið en nokkrar taka fram að þær kanni bakgrunn fólk og að ekki sé ráðið fólk með ofbeldisdóma.

Margra stöðvar þakka Rótinni fyrir að vekja athygli á málinu, bréfið hafi vakið ábyrgðarmenn til umhugsunar um að tímabært væri að koma þessum málum í ákveðinn farveg.Við Rótarkonur þökkum fyrir svörin og vonum að við höfum náð að vekja ábyrgðarmenn heilsuræktarstöðva til umhugsunar um mikilvægi þess að þjálfarar og aðrir leiðbeinendur séu meðvitaðir um að þeir eru í valdastöðu og að vald beri ávallt að umgangast af auðmýkt. Rótin telur viðbrögð stöðvanna bæði ánægjuleg og þakkarverð.  Hvetjum við þær til að þróa áfram vinnureglur sem gera það að verkum að iðkendur finni til öryggis, virðingar og vellíðunar í hvívetna á þessum vettvangi.

f.h. Rótarinnar,
Kristín I. Pálsdóttir
Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda

Vefsíða: www.rotin.is
Netfang: rotin@rotin.is
Samstarf ÍSÍ og aðildarfélaga við heilsuræktarstöðvar

Samstarf ÍSÍ og aðildarfélaga við heilsuræktarstöðvar

Rótin sendi eftirfarandi bréf á ÍSÍ í kvöld:

Ágætu viðtakendur.

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda sendi nýlega bréf á heilsuræktarstöðvar, ráðherra íþróttamála, ASÍ og SI til að falast eftir upplýsingum um hvernig gætt sé að persónulegu öryggi iðkenda á heilsuræktarstöðvum t.d. með siðareglum og varúðarráðstöfunum við ráðningu starfsfólks.

Mörg aðildarfélög ÍSÍ hafa gert samninga við heilsuræktarstöðvar sem fela það í sér að börnum niður í 14 ára aldur er beint inn á stöðvarnar. Almennt virðast heilsuræktarstöðvarnar ekki vera með siðareglur fyrir starfsfólk né virðast samtök starfsmanna hafa sett sér slíkar reglur, s.s. einkaþjálfarar.
ÍSÍ er með ítarlegar siðareglur að því er varðar starf í aðildarfélögum en við spyrjum hvaða kröfur eru gerðar til samstarfsaðila ÍSÍ og aðildarfélaga? Er þess krafist að heilsuræktarstöðvar, t.d., séu með skýrar siðareglur og stefnu í starfsmannamálum til að tryggja persónulegt öryggi iðkenda?
Rótarkonur þekkja dæmi þess að maður sem dæmdur hefur verið fyrir mjög gróft ofbeldi gagnvart barni sé við störf á heilsuræktarstöð sem gert hefur samninga við íþóttafélög og fleiri opinbera aðila.
Við hvetjum ÍSÍ til að skoða mál sem varða persónulegt öryggi iðkenda, ekki bara inni í félögunum heldur einnig þegar þeim er vísað til þriðja aðila.

(more…)