Skýrsla starfshóps um meðferðarheimilið að Laugalandi

Skýrsla starfshóps um meðferðarheimilið að Laugalandi

Á vormánuðum tók Rótin að sér utanumhald starfshóps um meðferð stúlkna með áhættuhegðun,  meðferðarheimilið að Laugalandi, með samningi við Barnaverndarstofu. Kristín I. Pálsdóttir framkvæmdastjóri og talskona Rótarinnar leiddi vinnu hópsins sem skilaði skýrlsu sinni í september 2021.

Yfirlýsing starfshópsins

Við hvetjum yfirvöld til að uppfylla lagalegar skyldur sínar gagnvart stúlkum á aldrinum 13-18 ára sem sýna áhættuhegðun og opna án tafar öruggt og kynjaskipt úrræði fyrir þær. Við hvetjum einnig til þess að Barnaverndarstofa reki úrræðið sjálf en ekki í verktöku. Þá leggjum við áherslu á að forstöðufólk eða yfirmenn slíkra úrræða séu í öllum tilfellum fagfólk.
Starfshópurinn telur lokun Laugalands hafa verið ótímabæra, ekki síst þar sem um var að ræða mikilvægt og traust úrræði fyrir stúlkur og að ekki var búið að tryggja önnur úrræði af sömu gæðum fyrir lokun.
Þá telur starfshópurinn áríðandi að endurskoða allt meðferðarkerfið á landinu, fyrir börn með vímuefnavanda og áfallasögu í huga, en einnig börn með fjölþættan vanda. (more…)

Karlar og áföll – Leiðir til bata

Karlar og áföll – Leiðir til bata

Námskeiðið Karlar og áföll – leiðir til bata er nú haldið í fimmta sinn. Námskeiðið er ætlað körlum sem hafa orðið fyrir ofbeldi af einhverju tagi, meðvituðu og ómeðvituðu, t.d. vanrækslu og einelti. Markmið þess er að leiða þátttakendur til aukins skilnings á afleiðingum áfalla og til að finna leiðir til halda áfram að þroskast, byggja upp seiglu, öðlast meiri lífsánægju og að eiga í innilegri og innihaldsríkari samböndum. Námskeiðið heitir Exploring Trauma á ensku og höfundar þess eru Dr. Stephanie Covington og Roberto A. Rodriquez. Guðrún Ebba Ólafsdóttir þýddi námskeiðið og hefur þróað það í ljósi reynslunnar á Íslandi.

Efnisþættir sem unnið er með á námskeiðinu eru:
  1. Hvað eru áföll?
  2. Áföllin skoðuð nánar, ACE listinn, þegar áföllin okkar meiða aðra.
  3. Hugsa, finna, framkvæma.
  4. Handan við sektarkennd, skömm og reiði.
  5. Heilbrigð sambönd.
  6. Ástin, kærleikurinn og lok námskeiðsins.

Mikil áhersla er á að skapa andrúmsloft sem byggir á trausti og einlægni. Áhersla er á þrjú lykilatriði: skilning á hvað áfall er, hvernig áfallaferlið er og áhrif þess á bæði líðan (hugsanir, tilfinningar, skoðanir og gildi) og breytni (hegðun og sambönd). Með auknum skilningi og þekkingu á áhrifum áfalla er að koma upp á yfirborðið aukinn skilningur á áhrifum áfalla á karla. Þar á meðal er þögnin um ofbeldi sem karlar verða fyrir, áhrif félagsmótunar á viðbrögð karla við misnotkun, hættuna á því að fórnarlömb verði gerendur og þörfina á því að skilja ótta karla og skömm.

Markmið
Markmiðið með námskeiðinu er að styðja karla til bata með því að auka skilning þeirra á áhrifum áfalla á lífsferilinn.

Skipulag
Námskeiðið er frá kl. 10:00-14:00 helgina 7. og 8. maí og laugardaginn 14. maí, að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík. Námskeiðið er 12 klst.

Skráning 

Verð
33.900 kr. –

Námskeiðið er niðurgreitt af styrk til félagsins.

Leiðbeinendur og verkefnisstjórn
Leiðbeinendur eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Þórunn Sif Böðvarsdóttir. Verkefnisstjóri er Kristín I. Pálsdóttir. Sjá nánar.

Umsagnir þátttakanda á fyrri námskeiðum:

„Námskeiðið hjálpaði mér að skoða heildarmyndina af mínum áföllum og hvernig ég get byrjað að vinna úr þeim.“
„Þakklæti. Þakklæti fyrir að víkka sjóndeildarhringinn hjá mér og opna augun mín fyrir því að það var hellingur af óunnum málum og áföllum sem ég var áður blindur fyrir.“
„Mér fannst gagnlegt að fá að opna á áföll, að vinna í hópi þar sem flestir eru að eiga við sömu vandamál.“

Umsögn um frumvarp um neysluskammta

Umsögn um frumvarp um neysluskammta

Rótin hefur sent inn umsögn vegna frumvarps um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (afglæpavæðing vörslu neysluskammta). Þingskjal 24 ̶ 24. mál. Félagið sendi einnig umsögn þegar frumvarpið var lagt fram árið 2019.

Almennt

Rótin þakkar fyrir tækifærið sem hér gefst til umsagnar á frumvarpi um afglæpavæðingu vörslu neysluskammta.

Rótin hefur m.a. þau markmið að vera málsvari kvenna sem eiga sögu um áföll og/eða vímuefna­vanda og að beita sér fyrir aukinni velferð og lífsgæðum þeirra og beita sér fyrir faglegri stefnu­mótun um skaðaminnkun, mannréttindi, samkenndarmiðaða nálgun og áfalla- og kynjamiðaða þjónustu. Þá rekur Rótin Konukot sem er neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.

Rótin hefur frá stofnun beitt sér fyrir hagsmunum kvenna með sögu um skaðlega vímuefna­notkun, beitt sér fyrir öflun þekkingar, upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um málefni kvenna með vímuefnavanda m.a. með rannsókn á reynslu á kvenna af vímuefnameðferð. Þá er félagið þátttakandi í Evrópuverkefnum sem stuðla að bættri stefnumótum í málaflokknum og byggja upp þekkingu til og þjálfa starfsfólk sem vinnur með konum sem orðið hafa fyrir heimilis-ofbeldi og glíma við vímuefnavanda.

Umsögn um frumvarpið

Rótin fagnar framlögðu frumvarpi um afglæpavæðingu og refsileysi vegna vörslu neysluskammta og styður þær lagabreytingar sem felast í frumvarpinu og fagnar sérstaklega þeirri breytingu að kaup á neysluskömmtum séu afglæpavædd.

Rótin styður þá stefnu að meðhöndla eigi vanda þeirra sem eru í skaðlegri notkun vímuefna (e. PSU – Problematic Substance Use) í íslensku samfélagi í velferðar- og heilbrigðiskerfi fremur en í dómskerfinu. Einnig leggur félagið áherslu á að nauðsynlegt sé að samræma stefnu og aðgerðir í málaflokknum að því er varðar fólk í skaðlegri notkun vímuefna til að tryggja úrbætur í málefnum þess hóps.

Rótin fagnar áherslu á að fjármagni „verði veitt til að aðstoða neytendur fíkniefna og draga enn frekar úr neikvæðum afleiðingum neyslu fíkniefna“ eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Þar horfum við sérstaklega til kvenna í skaðlegri vímuefnaneyslu sem jafnvel hljóta meiri skaða af því að útvega efnin en neyta þeirra. Horfa ber til þess að konur með vímuefnavanda eru sérstaklega útsettar fyrir yfirráðum og ofbeldi og í stað refsistefnu horfa til þess að tryggja öryggi þessa hóps.

Einnig býður Rótin fram krafta sína í starfshóp til að hafa eftirlit með áhrifum og ávinningi af afglæpavæðingu vörslu neysluskammta vímuefna sem fjallað er um í 4. gr. frumvarpsins og bendir jafnframt á mikilvægi þess að fá notendur vímuefna að borðinu til samráðs.

Lokaorð

Fulltrúar Rótarinnar eru tilbúnar að funda með velferðarnefnd Alþingis til frekari viðræðna um frumvarpið og gera grein fyrir sjónarmiðum félagsins, sé þess óskað.

Yfirlýsing vegna vændiskaupa formanns SÁÁ

Yfirlýsing vegna vændiskaupa formanns SÁÁ

25. janúar 2022

Rótin harmar þann skaða sem skjólstæðingur SÁÁ hefur lýst að Einar Hermannsson hafið valdið henni. Einar hefur setið í stjórn SÁÁ frá því árið 2015 og var því í stjórninni þegar brotin sem lýst er í Stundinni áttu sér stað, á árunum 2016–2018.
Brot Einars gegn konunni er nöturleg valdamisnotkun stjórnarmanns í frjálsum félagasamtökum sem stjórnvöld hafa í rúm 40 ár treyst til að sjá um meginþorra heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með vímuefnavanda. Í þeim hópi er margt af jaðarsettasta fólki landsins og í ljósi þess valds sem stjórnvöld hafa fært SÁÁ í málaflokknum er um fádæma siðleysi að ræða sem sannarlega hefur haft áhrif á störf Einars sem formanns, þrátt fyrir yfirlýsingu hans um hið gagnstæða. Í fáum störfum hefur siðferðiskennd meira gildi en í störfum fyrir fólk með vímuefnavanda og jaðarsett fólk.
Þó að ekki sé hlutverk stjórnvalda að skipta sér af stjórnun frjálsra félagasamtaka, hljótum við að gera þær kröfur að hjá þeim aðilum sem veita heilbrigðisþjónustu fyrir ríki og sveitarfélög ríki hvorki ógnarstjórn[1] né annað ofbeldi og að faglegir ferlar séu til staðar til að taka á slíkum málum. Árið 2017 spurði Rótin stjórnendur SÁÁ um verkferla samtakanna varðandi kynferðislega áreitni og ofbeldi og var því svarað að þeirra væri ekki þörf.[2]
Það eru mikil vonbrigði að Embætti landlæknis hafi haft vitneskju um brotið í tvö ár án þess að aðhafast.
Rótin var stofnuð fyrir tæpum 9 árum til að vinna að málum kvenna með vímuefnavanda. Áður höfðu stofnendur félagsins gert tilraun til að vinna að útbótum í stefnu og meðferð kvenna innan SÁÁ, en fljótlega varð ljóst að þar væri lítill áhugi á þeirri áfalla- og kynjamiðuðu nálgun sem nauðsynleg er í meðferðarstarfi.[3] Rótin var stofnuð til að vinna þessum málum framgang en SÁÁ tekið illa í hugmyndir félagsins, gert lítið úr þeim og beitt þöggunartilburðum.
Öryggi er lykilorð í vímuefnameðferð og í meðferð fólks með erfiða áfallasögu. Því miður hefur þetta öryggi ekki verið skapað í meðferðarkerfinu, eins og kom glöggt fram í rannsókn Rótarinnar og RIKK á reynslu kvenna af meðferð.[4] Síðustu ár hefur Rótin ítrekað vakið athygli á vöntun á öryggi kvenna í meðferð og bent á þann vanda að láta meðferð fólks, sem oft á við fjölþættan og flókinn vanda að etja, vera að mestu í höndum áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Stjórnvöld hafa viðurkennt að menntun þeirra sé ekki í samræmi við önnur störf í heilbrigðiskerfinu en hefur ekki gripið til aðgerða til að bæta úr því.
#MeToo-byltingin snýst um að breyta samfélaginu til hins betra, að hafna kerfum sem byggjast á misnotkun valds. Sá hörmulegi atburður að formaður samtaka, sem stjórnvöld hafa gefið vald yfir fólki með vímuefnavanda, bregðist svo hrapallega er ekki óheppileg tilviljun heldur hlekkur í langri keðju. Þessi keðja rofnar ekki nema farið sé í markvissar aðgerðir til að uppræta ofbeldismenninguna.
Fólki í 12 spora samtökum er tamt að nota orðalagið að það að vera edrú og allsgáður sé „framkvæmdaprógramm“. Hið sama á við um jafnrétti.

Ráð Rótarinnar sendir kærleikskveðjur til þolanda Einars. Við trúum þér og stöndum með þér.

[1] „Við viljum ekki Þórarin Tyrfingsson aftur!“ – Starfsmenn SÁÁ óttast viðbrögð Þórarins og endurkomu ógnarstjórnar: https://www.dv.is/frettir/2020/06/22/vid-viljum-ekki-thorarinn-tyrfingsson-aftur-starfsmenn-saa-ottast-vidbrogd-thorarins-og-endurkomu-ognarstjornar/.
[2] Óskalistinn: https://www.rotin.is/oskalisti/.
[3] Hættar í SÁÁ vegna samstarfsörðugleika: https://www.ruv.is/frett/haettar-i-saa-vegna-samstarfsordugleika.
[4] Sláandi niðurstöður um reynslu kvenna af fíknimeðferð: https://www.rotin.is/slaandi-nidurstodur/.

Konur finna styrk sinn – Námskeið

Konur finna styrk sinn – Námskeið

Konur finna styrk sinn er áfalla- og kynjamiðaður leiðsagnarhópur (e. Psychodynamic Group) þar sem lögð er áhersla á að vinna með rætur áfengis- og vímuefnavanda og annað andstreymi í lífi kvenna. Vímuefnavandi eða skaðleg vímuefnanotkun er ekki einangrað vandamál heldur á sér m.a. rætur í áföllum. Unnið er með þann fjölþætta vanda sem konur glíma jafnan við. Á milli tíma er verkefnavinna sem þátttakendur eru hvattar til að vinna svo að þær fái sem mest út úr námskeiðinu og fá þátttakendur veglega vinnubók.
Námskeiðið er úr smiðju dr. Stephanie Covington og heitir á ensku Helping women recover. Covington er frumkvöðull í vinnu með konum með áfallasögu sem notað hafa sjálfskaðandi bjargráð eins og vímuefnanotkun.

Skráning

Umsagnir þátttakenda á fyrri námskeiðum

„Mér fannst rosalega gott að vinna með að bæta líkamsvitund, hugsa jákvætt til líkama síns. Einnig mjög gagnleg um kynlíf í tengslum við neyslu.“
„Að finna rótina að því hver ég er, hvernig hlutverk ég hef alist upp við og fests í. Að geta skapað nýja mig.“
„Námskeiðið var fullkomið og afar gagnlegt.“
„Ég er óendanlega þakklát!“
„Leiðbeinandi var alveg yndisleg og mun alltaf eiga stað í hjarta mínu.“
„Frábærlega góð nærvera og fullkomið traust.”
„Leiðbeinandinn stóð sig frábærlega! Alveg yndisleg og mun alltaf eiga stað í hjarta mínu.“
„Allt var svo gott og þægilegt umhverfi,“

Fyrir hverjar?

Námskeiðið er ætlað konum sem eiga sögu um vímuefnavanda. Það hentar jafnt konum sem hafa ekki notað vímuefni í langan tíma sem og konum sem eru að hefja vinnu við að bæta lífsgæði sín. Hámarksfjöldi er venjulega 10 þátttakendur en vegna sóttvarnaráðstafana eru nú einungis sex pláss í boði.

Markmið

Markmið námskeiðsins er að konur öðlist aukna sjálfsþekkingu sem einstaklingar en skilgreini sig ekki í gegnum sambönd eða stöðu sína. Einnig að þær átti sig á styrkleikum sínum og geti byggt framtíð sína og betra líf á þeim.

Innihald

Aðaláherslan er á fjóra þætti: Sjálfsmynd, samskipti, kynverund og andlega heilsu. Innan þessara þátta eru undirflokkar þar sem farið er ítarlega í atriði sem eru mikilvæg til að auka lífsgæði og kynntar nýjar aðferðir sem stuðla að þeim. Spurt er hvað kom fyrir konurnar í stað þess að spyrja hvað sé að þeim, hvernig þær komust af og til hvaða bjargráða greip hver og ein þeirra.

Samþykktir fyrir námskeið og hópa Rótarinnar gilda á námskeiðinu eins og í öðru starfi félagsins.

Hvenær?

Hópurinn hittist 10 sinnum í u.þ.b. 90 mínútur í hvert skipti. Næsta námskeið hefst 9. febrúar 2022.  Tímarnir hefjast stundvíslega kl. 16:30 og lýkur yfirleitt kl. 18:00 og aldrei seinna en upp úr kl. 18:30. Undantekning á þessu er að tíminn 2. mars hefst kl. 16:00.

Hvar?

Námskeiðið er haldið í sal í kjallara, Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Þátttökugjald er 36.000 kr.

Skráning.

Dagsetningar

Tími Dagsetning Tími Dagsetning
1 9. febrúar 6 7. mars
2 14. febrúar 7 9. mars
3 16. febrúar 8 16. mars
4 23. febrúar 9 23. mars
5 2. mars 10 30. mars

Leiðbeinendur og verkefnisstjórn

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Þórunn Sif Böðvarsdóttir. Verkefnisstjóri er Kristín I. Pálsdóttir.

Námskeiðið er niðurgreitt með styrkjum frá Lýðheilsusjóði og heilbrigðisráðuneyti.