Óskalistinn

Rótin fór í heimsókn á Vog sumarið 2017 og sendi í kjölfarið óskalista sinn á yfirmenn stofnunarinnar. Sjá: https://www.rotin.is/oskalisti-rotarinnar/. Sá listi var miðaður að starfi SÁÁ en nú höfum við búið til almennan lista þar sem við setjum fram nokkra þætti sem gott er að séu til staðar í fíknimeðferð.

  1. Meðferðarstofnun er öruggur staður fyrir konur en ekki staður til að æfa sig í uppbyggilegum samskiptum við hitt kynið
  2. Jafnréttisáætlun er mikilvægt verkfæri til að vinna að kynjajafnrétti
  3. Kynjasjónarmið í meðferð þurfa að byggja á sérþekkingu. Kynjaskipting, kynjamiðun og klínískar leiðbeiningar eru til staðar
  4. Viðmið og verklagsreglur um kynferðislegt áreitni og ofbeldi eru virkar
  5. Meðferðin er áfalla- og einstaklingsmiðuð
  6. Frásagnir kvenna sem greina frá kynferðisofbeldi eða áreitni í meðferð eru teknar alvarlega
  7. „Konur meðhöndla konur“ er besta viðmið fyrir konur með áfallasögu. Konum er svo vísað í viðeigandi úrræði
  8. Meðferð og afvötnun á dagdeild eða göngudeild er aðgengileg þeim sem það hentar. Engin ein meðferð hentar öllum
  9. AA-samtökin eru kynnt á upplýstan hátt og samkvæmt bestu þekkingu. Konum sem kjósa að fara AA-fundi er bent á kosti þess að sækja kvennafundi
  10. Menntun starfsmanna er í samræmi við kröfur í nútíma heilbrigðisþjónustu
Ósk um úttekt á áreitni starfsmanna á meðferðarstöðvum

Ósk um úttekt á áreitni starfsmanna á meðferðarstöðvum

Reykjavík 27. nóvember 2017

Ágæti Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttisráðherra.

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda hefur undanfarin ár barist fyrir nútímavæðingu meðferðarkerfisins og haldið uppi vitundarvakningu um stöðu kvenna sem glíma við fíknivanda. Ein aðalástæða þess að til félagsins var stofnað var sú að okkur var ljóst að mikið skorti upp á að tekið væri tillit til sérstakra þarfa kvenna og lífreynslu þeirra í meðferð við fíkn. Rannsóknir sýna að konur sem leita sér meðferðar eiga í langflestum tilfellum að baki alvarlega áfalla- og ofbeldissögu sem hefur haft afgerandi áhrif á heilsu þeirra og líðan. Eitt af því sem félagið hefur barist fyrir er að meðferðarkerfið viðurkenni þessar staðreyndir og taki tillit til þeirra í þjónustu við þennan hóp, í samræmi við fyrirmæli alþjóðastofnana og bestu leiðbeiningar um meðferð kvenna með fíknivanda. (more…)

Fyrsta úthlutun úr fræðslusjóði Rótarinnar

Fyrsta úthlutun úr fræðslusjóði Rótarinnar

Úthlutað var úr fræðslusjóði Rótarinnar í fyrsta sinn í dag, 31. október 2017, og voru veittir þrír 100.000 kr. styrkir til meistaranema til ritunar lokaverkefna.

Í valnefnd sjóðsins sitja Kristínu I. Pálsdóttur, talskona Rótarinnar og Margréti Valdimarsdóttur, ritari Rótarinnar ásamt Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni sjóðsstjórnarinnar, sem afhenti viðurkenningarnar í dag.

Styrkþegarnir eru allar nemar, annars vegar í Háskóla Íslands og hins vegar í Háskólanum í Reykjavík, og stefna á útskrift vorið 2018. Þessir fyrstu styrkþegar fræðslusjóðsins eru:

  • Lovísa María Emilsdóttir, nemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Verkefni hennar fjallar um Konukot, neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur út frá sjónarhóli félagsráðgjafa.
  • Margrét Lára Viðarsdóttir,  nemi í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Verkefni hennar fjallar um spilafíkn og -vanda kvenna á meðal körfu- og handboltaiðkenda á Íslandi.
  • Valgerður Jónsdóttir, nemi í kynjafræði við Háskóla Íslands. Fjallar verkefni hennar um konur með tvígreiningar, það er að segja konur sem bæði glíma við fíknivanda og geðsjúkdóm.

(more…)

Áfallamiðað jóga

Áfallamiðað jóga

Margrét Gunnarsdóttir, jógakennari, sjúkraþjálfari og sálmeðferðarfræðingur MSc

Rótin styður félaga á lokað námskeið í áfallamiðuðu jóga. Námskeiðið hentar þeim sem hafið hafa bataferli vegna fíknar og eru með áfallasögu.

Áfallamiðað jóga hentar einstaklingum sem hafa upplifað áföll og lifa með afleiðingum þess. ÁMJ er ætlað einstaklingum sem hafa orðið fyrir flóknum áföllum og er sérstaklega þróað með þá í huga. Flókin áföll (e. complex trauma) hafa djúpstæð áhrif og tengjast erfiðri reynslu, samskiptum og aðstæðum, ekki síst þeim sem gerðust í æsku.

Áföll geta haft mikil áhrif á líkamlega líðan, upplifun á eigin líkama og tengingu við hann. Helstu áhersluþættir í ÁMJ er að einstaklingur upplifi að hann hafi sjálfur stjórn, hafi raunverulegt val og tengist líkama sínum í öruggu umhverfi. Hugað er að þessum þáttum með því að gefa þátttakendum möguleika á að beina athygli að innri skynjun, að velja og ákveða fyrir sig, finna eigin mörk og vera hér og nú. Farið er rólega í æfingar og þær gerðar á forsendum hvers og eins. ÁMJ getur hentað sem stuðningur samhliða áfallameðferð hjá fagaðila.

Áfallamiðað jóga hefur verið í þróun hjá Trauma Center í Boston frá 2003 og byggir á rannsóknum og nýjustu þekkingu í áfallafræðum og taugavísindum. Upplýsingar um ÁMJ – (e. Trauma-sensitive yoga) – er meðal annars að finna á eftirfarandi vefsíðum: www.traumasensitiveyoga.com og http://www.traumacenter.org/clients/yoga_svcs.php. (more…)

Konur, áföll og fíkn. Betri stefnumótun, gæðaeftirlit og úrræði

Konur, áföll og fíkn. Betri stefnumótun, gæðaeftirlit og úrræði

Rótin býður frambjóðendum á umræðukvöld hinn 18. október kl. 20-21.30 í Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14 í Reykjavík.
Mikil umræða hefur verið um málefni fólks með fíknivanda undanfarin misseri með fullri þátttöku Rótarinnar sem staðið hefur að fjölda umræðukvölda, haldið málþing og ráðstefnu, sent erindi til stjórnvalda, skrifað greinar og haldið uppi umræðum á samfélagsmiðlum, í gegnum síðu sína á Facebook: https://www.facebook.com/rotin.felag/, síðan félagið var stofnað 8. mars 2013.
Rótin hefur frá stofnun gagnrýnt að ekki sé tekið heildstætt á vanda kvenna sem leita sér meðferðar vegna fíknivanda. Þetta er sérstaklega bagalegt þegar litið er til þess hversu stór hluti þeirra glímir við afleiðingar áfalla og ofbeldis. Félagið hefur lagt áherslu á gæði og öryggi meðferðar og kynjaskipting bætir hvort tveggja. Nú hefur Embætti landlæknis gert hlutaúttekt á meðferð barna og kvenna hjá SÁÁ og fyrir liggur að öryggi notenda þjónustunnar er ekki tryggt innan meðferðarstofna, eins og ótal dæmi og vitnisburðir sanna. Slíkt ástand er óviðunandi og krefst tafarlausra aðgerða.
Rótin sendi af því tilefni greinargerð til heilbrigðisráðherra um stefnumótum og meðferð er varðar konur og fíkn með tillögum um aðgerðir til að bæta stöðuna.

(more…)