Áskorun frá ráði Rótarinnar vegna málefna unglinga í fíknivanda

Áskorun frá ráði Rótarinnar vegna málefna unglinga í fíknivanda

Ungt fólk15. apríl 2018

Í ljósi þess að SÁÁ hefur ákveðið að taka ekki lengur við börnum yngri en 18 ára í meðferð á Vogi skorar ráð Rótarinnar á Alþingi og ríkisstjórn, sérstaklega ráðherra velferðarmála, að tryggja að meðferð barna og unglinga verði á hendi opinberra aðila. Ráðið telur lausnina ekki felast í því að auka fjármagn til SÁÁ þannig að hægt verði að byggja tengibygginu við Vog fyrir nýja Bangsadeild.

Því miður er ekki rétt sem kemur fram í yfirlýsingu frá SÁÁ að einungis eitt barn hafi „hugsanlega orðið fyrir skaða innan veggja spítalans“. Rótin hefur frá stofnun félagsins fyrir fimm árum ítrekað sagt frá atvikum sem gerst hafa á Vogi en talað fyrir daufum eyrum.

Samkvæmt 27. gr. laga um réttindi sjúklinga á umhverfi og aðbúnaður sjúkra barna á heilbrigðisstofnunum að hæfa aldri þeirra, þroska og ástandi. Staður þar sem börn og ungmenni eiga á hættu að verða fyrir ofbeldi er svo sannarlega ekki slíkur staður. (more…)

Skýrsla Ríkisendurskoðunar staðfestir gagnrýni Rótarinnar – Áskorun til velferðarráðherranna

Skýrsla Ríkisendurskoðunar staðfestir gagnrýni Rótarinnar – Áskorun til velferðarráðherranna

4. mars 2018

Út er komin skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu. Í henni kemur fram alvarleg gagnrýni á fyrirkomulag og eftirfylgni með samningum stofnunarinnar um heilbrigðisþjónustu.

Engin heildstæð stefna

Rótin hefur á undanförnum fimm árum sent fjölda erinda til ráðuneyta og ráðherra, Embættis landlæknis og annarra embætta og stofnana sem koma að einhverju leyti að málum fólks með fíknivanda. Flest erindin fjalla um stefnumótun, gæðamál og öryggi og hafa það að leiðarljósi að fylgja því eftir að fólki í meðferð vegna fíknivanda séu tryggð „almenn mannréttindi og mannhelgi“ og þeim sé veitt fullkomnasta „heilbrigðisþjónusta sem á hverjum tíma er völ á að veita“ skv. lögum um réttindi sjúklinga.

Rótin hefur gagnrýnt að yfirvöld hafi ekki mótað stefnu um meðferð við fíknivanda eða gefið út leiðbeiningar um bestu meðferð, hvorki um almenna fíknimeðferð né um sérhæfða meðferð fyrir konur og fólk með áfallatengdan fíknivanda. (more…)

Bréf til stjórnanda þáttarins Í vikulokin á Rás 1

Bréf til stjórnanda þáttarins Í vikulokin á Rás 1

Undanfarið hefur DV fjallað í mörgum greinum um alvarlegt ástand mála á meðferðarheimilinu í Krýsuvík. Laugardaginn 10. febrúar var svo fjallað um málið í þættinum Í vikulokin á Rás 1 undir stjórn Helga Seljan. Talsvert vantaði á í þeirri umfjöllun að ástand mála í Krýsuvík væri sett í samhengi við ástand mála í meðferðargeiranum og ekkert var minnst á #metoo-byltinguna sem svo sannarlega tengist umræðuefninu. Við sendum Helga því bréf til að vekja athygli ríkisfjölmiðilssins á samhengi hlutanna.

Sæll Helgi.

Ég heyrði umræðu um hið alvarlega ástand sem nú ríkir í Krýsuvík í þættinum Vikulokunum í gær. Ég saknaði þess að málið væri sett í rétt samhengi við #metoo-byltinguna og ötula baráttu okkar Rótarkvenna undanfarin fimm ár.

Við Rótarkonur höfum sent urmul erinda til yfirvalda vegna þess að konur og börn/ungmenni eru ekki örugg í meðferð við fíkn hér á landi og í nóvember sl. sendum við félagsmála- og jafnréttisráðherra erindi vegna staðfestra frétta af áreitni gegn konum í meðferð í Krýsuvík: https://www.rotin.is/areitni-a-medferdarstodvum/. Við ítrekuðum erindið í janúar en höfum ekki fengið nein viðbrögð frá ráðherra.

Einnig sendum við frá okkur fréttatilkynningu vegna undarlegrar yfirlýsingar Krýsuvíkursamtakanna þar sem engin ábyrgð var öxluð á þeirri alvarlegu stöðu sem þar er: https://www.rotin.is/ad-benda-a-eitthvad-annad/.

Það er okkar von að sú vakning sem átt hefur sér stað um kynferðisáreitni og -ofbeldi með #MeToo-byltingunni verði til þess að stjórnvöld fari að hlusta á vel rökstuddan málflutning félagsins og að umburðarlyndi gagnvart misbeitingu valds gegn þeim valdalitla hópi sem þarf að reiða sig á meðferðarkerfið sé nú þrotið hjá yfirvöldum.

Hér má lesa úttekt Embættis landlæknis á helstu meðferðarstöðvum frá árinu 2016 en niðurstöður úttektanna ríma vel við ábendingar Rótarinnar um skort á gæðum og stefnumótun í geiranum:

Krýsuvík:

Vogur:

Hlaðgerðarkot:

Rótin fjallar ítarlega um stöðu mála í meðferð í greinargerð sinni til heilbrigðisráðherra frá því í júní í fyrra: https://www.rotin.is/greinargerd-til-heilbrigdisradherra/.

Bestu kveðjur,

Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar

(more…)

Námskeið í núvitund

Námskeið í núvitund

Helena Bragadóttir

Félagskonum í Rótinni stendur nú til boða námskeið í núvitund (Mindfulness based relapse prevention) hjá Helenu Bragadóttur, hjúkrunarfræðingi á vímuefnasviði LSH og Láru Sif Lárusdóttur áfengis- og vímuefnaráðgjafa.

Námskeiðið er hluti af meistaraverkefni Helenu í geðhjúkrun þar sem hún skoðar áhrif núvitundariðkunar á einstaklinga sem hafa glímt við, eða eru að glíma við. áfengis- eða vímuefnafíkn. Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu og sérhannað fyrir fólk með fíknivanda. Kennt er í 7 vikur, kl. 17-19 á fimmtudögum, frá 15. febrúar til 29. mars. Athugið að námskeiðinu hefur verið seinkað um viku!

Farið verður þess á leit við hluta þátttakenda að gefa færi á 1-2 einstaklingsviðtölum um upplifun þeirra af námskeiðinu að því loknu. Rannsóknin verður kynnt betur á námskeiðinu.

Námskeiðið byggir á umfjöllun um efnið og hugleiðslu í tímum. Mælst er til þess að þátttakendur æfi sig í hugleiðslunni á milli tíma en ekki eru önnur heimaverkefni.

Lágmarksfjöldi er 12 og hámark 18 konur.

Kennt verður á Grensásvegi 8 í Hugleiðslu- og friðarmiðstöðinni. (more…)

… að benda á eitthvað annað

… að benda á eitthvað annað

Eftirfarandi tilkynning var send á fjölmiðla 28. janúar 2018:

Rótin hefur síðastliðin fimm ár margítrekað krafist þess að öryggi kvenna í fíknimeðferðarkerfinu sé tryggt og sent fjölda erinda til yfirvalda með óskum um úrbætur. Ríkar ástæður eru fyrir þessum kröfum félagsins. Konur sem eiga alvarlega áfalla- og ofbeldissögu eru ekki daglegir gestir á síðum fjölmiðla og eiga sér ekki öfluga málsvara. Sú staðreynd var einmitt kveikjan að stofnun Rótarinnar. Konur sem glíma við fíknivanda eru háðar einsleitu meðferðarkerfi þar sem sárlega vantar sérþekkingu á samslætti áfallasögu og fíknar og meðferð með tilliti til þess.

Við Rótarkonur þekkjum aragrúa frásagna kvenna sem lent hafa í valdbeitingu, áreitni og ofbeldi innan meðferðarkerfisins. Sumar hafa orðið fyrir áreitni í eða eftir meðferð, ungar stúlkur kynnast þar ofbeldismönnum sem misþyrma þeim, aðrar koma barnshafandi úr meðferðinni eða hefur jafnvel verið nauðgað á þeim stað sem á að vera griða- og batastaður.

Rannsókn á reynslu kvenna af meðferð styður það að kynjablönduð meðferð er ekki öruggur staður fyrir konur. Þetta kemur okkur því miður ekki á óvart og því teljum við siðferðilega vafasamt að karlar starfi við meðferð viðkvæmra kvennahópa, sérstaklega þá sem litla menntun hafa eins og áfengis- og vímuefnaráðgjafar. (more…)